Spurningakassinn
◼ Hvers vegna ættum við að skila inn starfsskýrslu tímanlega í hverjum mánuði?
Það vekur gleði hjá okkur öllum að frétta af góðum árangri og ánægjulegri framvindu í tengslum við boðun fagnaðarerindisins um Guðsríki. (Sjá Orðskviðina 25:25.) Postulasagan 2:41 greinir frá því að þegar Pétur hafi lokið hinni áhrifamiklu ræðu sinni á hvítasunnunni „bættust við um þrjú þúsund sálir.“ Skömmu síðar var talan komin upp í „um fimm þúsundir.“ (Post. 4:4) Þessar fréttir hljóta að hafa glatt kristnu mennina á fyrstu öldinni mjög mikið. Uppörvandi fréttir hafa sömu áhrif á okkur nú á tímum. Við erum afskaplega ánægð að heyra um hversu vel bræðrum okkar gengur í boðunarstarfinu vítt og breitt um heiminn.
Þar sem mikill tími og vinna fer í að safna saman slíkum skýrslum er samvinna sérhvers boðbera Guðsríkis alger nauðsyn. Ert þú vakandi fyrir því að skila starfsskýrslu þinni tímanlega í hverjum mánuði?
Skýrslur um aukningu færa okkur mikla gleði. Þar að auki hjálpa skýrslurnar Félaginu að fylgjast með framgangi starfsins um heim allan. Taka þarf ákvarðanir um hvar sé ef til vill þörf á meiri aðstoð eða hvers konar rit ætti að prenta og í hve stóru upplagi. Öldungar hvers safnaðar nota starfsskýrslurnar til að ákveða hvar hægt sé að gera betur. Góðar skýrslur eru uppbyggjandi og fá okkur öll til að kanna okkar eigið boðunarstarf til að sjá hvar hægt sé að taka framförum.
Allir boðberar þurfa að gera sér ljósa þá ábyrgð sína að skila tímanlega inn starfsskýrslum í hverjum mánuði. Bóknámsstjórar eru í góðri aðstöðu til að minna boðberana á þessa ábyrgð af því að þeir eru líka vakandi fyrir því að aðstoða persónulega þá sem kunna að eiga í einhverjum erfiðleikum með að taka reglulega þátt í boðunarstarfinu hvern mánuð. Minna mætti á þetta í síðasta bóknáminu í hverjum mánuði eða við annað hentugt tækifæri. Ef ekki gefst tækifæri til að skila inn starfsskýrslu í ríkissalnum, getur bóknámsstjórinn safnað þeim saman og séð um að þær berist ritaranum í tíma til að taka þær með í hina venjubundnu mánaðarskýrslu safnaðarins til Félagsins.
Dugnaður okkar við að skila trúfastlega og tímanlega inn skýrslu um boðunarstarf okkar gerir byrðina léttari fyrir þá sem bera ábyrgð á andlegri vellíðan okkar.