Sýndu að þú kunnir að meta það sem skipulagið lætur í té
1 Þegar Jósía konungur undirbjó viðgerðir á musterinu trúði hann verkamönnunum fyrir þeim fjármunum sem nota átti: „Ekki [er] haldinn reikningur við þá á fénu, sem þeim var fengið í hendur, heldur gjöra þeir það upp á æru og trú.“ (2. Kon. 22:3-7) Þeir kunnu greinilega að meta það sem heilagt var sem sést best á því hvernig þeir fóru með féð. Við þurfum líka að fara samviskusamlega með það sem okkur er treyst fyrir þegar við innum af hendi heilaga þjónustu við fagnaðarerindi Guðs.
2 Í boðunarstarfinu: Við metum rit okkar mikils af því að við erum þakklát fyrir hinn þýðingarmikla boðskap sem þau hafa að geyma og gerum okkur grein fyrir kostnaðinum við að prenta þau. Við ættum ekki hugsunarlaust að bjóða þeim rit sem meta ekki boðskap Biblíunnar að verðleikum. Ef einhver sýnir lítinn áhuga á fagnaðarerindinu gætum við boðið honum smárit í stað annarra rita.
3 Sýndu að þú berir virðingu fyrir ritunum og verðmæti þeirra með því að dreifa þeim á réttan hátt. Skildu þau ekki eftir á glámbekk þar sem þau myndu hreinlega dreifast út um hvippinn og hvappinn. Til að rit fari ekki til spillis skaltu athuga hvað þú átt til af þeim heima hjá þér áður en þú ferð og nærð í fleiri. Ef þú átt yfirleitt afgang af blöðunum ættirðu kannski að minnka blaðapöntunina.
4 Einkanámsrit: Við ættum aðeins að panta þau rit sem við þurfum. Sérstaklega ættum við að vera hófsöm þegar við pöntum biblíur í skinnbandi, tilvísanabiblíur og aðrar stórar bækur eins og Concordance, Index, Insight og Proclaimers því að það kostar talsvert að framleiða þær.
5 Manstu eftir að merkja námsritin þín með nafni og heimilisfangi? Það minnkar líkurnar á því að þú þurfir að fá annað eintak í staðinn fyrir það sem glatast. Ef þú týnir söngbók, biblíu eða námsriti finnur þú það hugsanlega í óskilamunum á mótsstað eða í ríkissalnum. — Lúk. 15:8, 9.
6 Kappkostum að nota ritin skynsamlega. Með því sýnum við að við förum vel með það sem Jehóva trúir okkur fyrir. — Lúk. 16:10.