Árangursrík biblíunámskeið
2. hluti: Undirbúningur fyrir námskeiðið
1 Til að kennslan á biblíunámskeiði nái tilætluðum árangri þarf meira til en að ræða eingöngu um efnið og fletta upp ritningarstöðum sem vísað er til. Við þurfum að setja efnið fram á þann hátt að það nái til hjarta nemandans. Það þýðir að við verðum að undirbúa okkur vel með þennan ákveðna nemanda í huga. — Orðskv. 15:28.
2 Hvernig á að undirbúa sig? Byrjaðu á því að biðja til Jehóva og hafðu nemandann og þarfir hans í huga. Biddu Jehóva um að hjálpa þér að ná til hjarta hans. (Kól. 1:9, 10) Til að ná meginhugmyndinni skaltu gefa þér tíma til að skoða heiti kaflans, millifyrirsagnir og myndir. Spyrðu sjálfan þig: „Hver er meginboðskapur efnisins?“ Þá áttu auðveldara með að einbeita þér að aðalatriðunum þegar þú stýrir námskeiðinu.
3 Farðu vel yfir hverja efnisgrein. Finndu svörin við spurningunum og merktu aðeins við lykilorð og orðasambönd. Skoðaðu vel hvernig ritningarstaðirnir, sem vísað er til, tengjast aðalatriði efnisgreinarinnar og veldu hverja þú vilt lesa með nemandanum. Það getur verið gagnlegt að skrifa minnispunkta á spássíu námsritsins. Nemandanum ætti að vera ljóst að það sem hann er að læra er frá orði Guðs. — 1. Þess. 2:13.
4 Lagaðu efnið að þörfum nemandans: Næst skaltu velta því fyrir þér hvernig nemandinn geti haft gagn af efninu. Reyndu að sjá fyrir hvaða spurninga hann muni spyrja og hvað hann gæti átt erfitt með að skilja eða meðtaka. Spyrðu sjálfan þig: „Hvað þarf hann að skilja eða gera til að byggja upp trú sína? Hvernig get ég náð til hjarta hans?“ Aðlagaðu síðan kennsluna samkvæmt því. Stundum gæti verið þörf á að hugsa upp líkingu, útskýra málið nánar eða undirbúa spurningar til að hjálpa nemandanum að skilja betur ritningarstað eða eitthvert ákveðið atriði. (Nehem. 8:8) Varastu samt að bæta við aukaupplýsingum sem koma efninu lítið við. Stutt upprifjun í lok námsstundarinnar hjálpar nemandanum að muna aðalatriðin.
5 Það er mikil gleði sem fylgir því þegar nýir einstaklingar fara að bera ávöxt réttlætisins, Jehóva til lofs. (Fil. 1:11) Þú skalt því undirbúa þig vel í hvert sinn sem þú heldur biblíunámskeið svo að þeir geti náð því marki.