Nýtt hjálpargagn til að við getum haldið okkur frá blóði
Hið stjórnandi ráð hefur samþykkt að skjalið Upplýsingar um læknismeðferð og ítarlegri yfirlýsingar, sem notaðar hafa verið í sumum löndum, séu sameinuð í eitt skjal sem við köllum hér eftir Yfirlýsingu og umboð vegna læknismeðferðar.
Nýja yfirlýsingin gildir um ótakmarkaðan tíma og það þarf því ekki að endurnýja hana árlega. Þú átt ekki að þurfa að útfylla nýja yfirlýsingu nema (1) þú viljir breyta upplýsingum (til dæmis ef símanúmer, heimilisföng eða afstaða þín til einstakra mála breytist eða þú skiptir um fulltrúa) eða (2) ef yfirlýsingin týnist eða eyðileggst. Þeim sem ferðast til útlanda er ráðlagt að verða sér úti um yfirlýsingu á ensku.
Þú ættir að leita leiðsagnar Jehóva í bæn áður en þú útfyllir yfirlýsinguna. Þegar hún er undirrituð þarf að gæta þess að öllum lagalegum skilyrðum sé fylgt í þaula. Til dæmis er gert ráð fyrir að tveir vitundarvottar staðfesti undirskrift þína þannig að þeir eiga að vera viðstaddir þegar þú undirritar yfirlýsinguna. Bóknámsstjórar gætu af og til átt orð við þá sem hafa ekki útfyllt nýja yfirlýsingu til að kanna hvort þeir þarfnist aðstoðar.
Áður en þú brýtur yfirlýsinguna saman skaltu taka vönduð ljósrit af henni handa fulltrúa þínum, varafulltrúa og lækni, auk afrits sem þú ættir að geyma heima hjá þér með öðrum mikilvægum pappírum. Það gæti verið gott að geyma eintak hjá öðrum í fjölskyldunni og hjá ritara safnaðarins. Ljósritin ætti að gera á venjulegar arkir í A-4 stærð og aðeins ljósrita á aðra hliðina. Sjálfur ættirðu að ganga með frumritið á þér.
Nafnskírteinið handa óskírðum börnum, sem er með vísun í lög um réttindi sjúklinga, er óbreytt. Foreldrar ættu að ganga úr skugga um að öll börnin séu með rétt útfyllt og undirritað kort og gangi með það á sér eftir því sem við á.
Óskírðir boðberar geta útbúið yfirlýsingar handa sér og börnum sínum með hliðsjón af þeim plöggum sem hér um ræðir. Ritarinn ætti að láta alla nýskírða boðbera fá eintak af yfirlýsingunni hvenær á árinu sem þeir skírast.