11. hluti: Árangursrík biblíunámskeið
Nýjum boðberum hjálpað að fara í endurheimsóknir
1 Þegar biblíunemandi fer að taka þátt í boðunarstarfinu hittir hann fólk sem sýnir fagnaðarerindinu áhuga. Hvernig getum við hjálpað nýja boðberanum að ná árangri í endurheimsóknum og glæða áhugann sem hann verður var við?
2 Undirbúningur fyrir endurheimsókn hefst í fyrstu heimsókninni. Hvettu nemandann til að sýna viðmælendunum einlægan áhuga. (Fil. 2:4) Þjálfaðu hann smám saman í að fá þá til að tjá sig, hlusta á athugasemdir þeirra og taka eftir því sem þeim er umhugað um. Þegar einhver sýnir áhuga skaltu láta nýja boðberann skrifa niður viðeigandi upplýsingar um heimsóknina. Notaðu upplýsingarnar til að hjálpa honum að skipuleggja frekari umræður.
3 Undirbúningur fyrir endurheimsókn: Rifjaðu upp fyrstu heimsóknina og sýndu nemandanum hvernig farið er að því að velja efni sem höfðar til húsráðanda. (1. Kor. 9:19-23) Undirbúið saman stutta kynningu með ritningarstað ásamt efnisgrein í námsriti. Til viðbótar skuluð þið undirbúa spurningu sem hægt er að varpa fram í lok samræðnanna til að leggja grunn að næstu heimsókn. Sýndu nýja boðberanum hvernig hann getur í hverri heimsókn aukið þekkingu viðmælandans á orði Guðs.
4 Einnig er gagnlegt að kenna nemandanum einfalda kynningu. Þegar hann hefur heilsað húsráðanda gæti hann sagt: „Mér fannst ánægjulegt að tala við þig síðast og ég er kominn aftur til að segja þér frá fleiru sem stendur í Biblíunni um [nefndu umræðuefnið].“ Þú gætir einnig þurft að sýna nýja boðberanum hvernig hann eigi að bregðast við ef einhver annar kemur til dyra.
5 Fylgdu áhuganum dyggilega eftir: Hvettu nemandann til að sýna gott fordæmi og fara aftur til allra sem sýna áhuga. Til að hitta á fólk heima getum við þurft að vera iðin við að fara í endurheimsóknir. Kenndu nemandanum að ákveða tíma fyrir næstu heimsókn og hjálpaðu honum að skilja hve nauðsynlegt sé að koma aftur eins og lofað var. (Matt. 5:37) Æfðu nýja boðberann í að vera vingjarnlegur, nærgætinn og kurteis þegar hann leitar að sauðumlíku fólki og glæðir áhuga þess. — Tít. 3:2.