Líkjum eftir kennaranum mikla þegar við notum bókina Hvað kennir Biblían?
1. Hvernig kenndi Jesús?
1 Jesús, kennarinn mikli, útskýrði allt á einfaldan og skýran hátt. Stundum byrjaði hann á því að spyrja áheyrendur sína viðhorfsspurninga til að örva hugsun þeirra. (Matt. 17:24-27) Hann beindi athyglinni að orði Guðs. (Matt. 26:31; Mark. 7:6) Hann gætti þess að drekkja lærisveinunum ekki í of miklum upplýsingum því að hann vissi að þeir myndu halda áfram að læra. (Jóh. 16:12) Jesú hafði líka áhuga á að vita hvort lærisveinarnir tryðu því sem hann kenndi þeim og skildu það. (Matt. 13:51) Bókin Hvað kennir Biblían? hjálpar okkur að kenna öðrum á svipaðan hátt.
2. Hvernig getum við notað spurningarnar í byrjun hvers kafla?
2 Spurningar í byrjun hvers kafla: Þegar þú byrjar á nýjum kafla er gott að benda á spurningarnar undir kaflaheitinu. Lestu spurningarnar til að vekja áhuga nemandans á efninu. Þú gætir líka beðið hann að svara þeim stuttlega. Það er hvorki nauðsynlegt að ræða ítarlega um svör hans né leiðrétta alltaf röng svör. Þú gætir einfaldlega þakkað honum fyrir að segja skoðun sína og byrjað síðan á kaflanum. Svör hans við spurningunum í byrjun kaflans geta gefið þér innsýn í hvaða hluta efnisins þú þarft ef til vill að leggja sérstaka áherslu á.
3. Hvernig getum við haft námsstundina einfalda í sniðum?
3 Ritningarstaðir: Námsstundin ætti að vera byggð á Biblíunni. (Hebr. 4:12) En það er þó ekki nauðsynlegt að lesa alla ritningarstaði sem vísað er til. Leggðu áherslu á þá staði sem sýna að trú okkar byggist á Biblíunni. Það er kannski ekki þörf á að lesa ritningarstaði sem veita aukaupplýsingar. Bókin Hvað kennir Biblían? setur sannleikann fram á einfaldan hátt. Hafðu því námsstundina á einföldum nótum. Beindu athyglinni að aðalatriðunum og forðastu að tala of mikið um smáatriði eða koma með aukaefni að óþörfu.
4. Hvað ræður því hvort við förum yfir efni úr viðaukanum í námsstundinni?
4 Viðauki: Í viðaukanum eru tekin fyrir 14 atriði sem fjalla nánar um efni bókarinnar. Þú ræður hvort þú ferð yfir þetta ítarefni í biblíunámsstundunum. Þú getur hvatt nemandann til að lesa sumt af því sjálfur, sérstaklega ef hann skilur vel efnið í meginmálinu. Þegar þið farið yfir kaflann „Hver er Jesús Kristur?“ er ef til vill ekki nauðsynlegt að fara saman yfir efnið í viðaukanum „Jesús Kristur — hinn fyrirheitni Messías“ ef nemandinn trúir því að Jesús sé Messías. En við önnur tækifæri gæti verið gagnlegt að ræða um efni úr viðaukanum í námsstundinni.
5. Hvernig getum við farið yfir efnið í viðaukanum ef við ákveðum að taka það fyrir?
5 Ef þú ákveður að fara yfir efni úr viðaukanum gætirðu búið til spurningar fyrir fram og farið yfir efnisgreinarnar með nemandanum eins og þú ferð venjulega yfir efni meginmálsins. Eða þegar það á við gætirðu tekið þér nokkrar mínútur til að rifja upp efnið með nemandanum. Þannig geturðu gengið úr skugga um að hann skilji efnið sem hann fór yfir sjálfur.
6. Hvernig er hægt að nota upprifjunarrammann í lok hverrar námsstundar?
6 Upprifjunarrammi: Ramminn í lok hvers kafla inniheldur fullyrðingar sem svara yfirleitt spurningunum í byrjun kaflans. Þú getur notað þennan ramma til að fara yfir aðalatriði kaflans. Sumum boðberum hefur fundist gott að lesa hverja fullyrðingu fyrir sig með nemandanum og stundum lesa þeir ritningastaðina sem fylgja. Síðan biðja þeir nemandann að útskýra stuttlega hvernig ritningastaðirnir koma heim og saman við fullyrðinguna. Þá getur kennarinn séð hvort nemandinn skilji aðalatriðin vel og ritningastaðina sem styðja þau og hvort hann sé sammála þeim. Þetta þjálfar nemandann líka í að nota Biblíuna til að útskýra sannleikann fyrir öðrum.
7. Hvernig getum við notað bókina Hvað kennir Biblían? til að sinna verkefni okkar vel?
7 Árangursríkasta leiðin til að sinna því verkefni að kenna fólki og gera það að lærisveinum er að líkja eftir kennsluaðferðum Jesú. (Matt. 28:19, 20) Bókin Hvað kennir Biblían? getur hjálpað okkur til þess. Notum þetta hjálpargagn vel til að kenna öðrum sannleikann á skýran, einfaldan og áhugaverðan hátt.