Blöðin okkar eru ætluð breiðum lesendahópi
1. Hvernig líkir hinn trúi og hyggni þjónn eftir Páli postula?
1 Hinn trúi og hyggni þjónn notar ritin okkar til að ná til fólks með mismunandi bakgrunn og trúarskoðanir rétt eins og Páll postuli boðaði fagnaðarerindið á ólíka vegu eftir því fyrir hverjum hann prédikaði. (1. Kor. 9:22, 23) Til þess að ná sem bestum árangri í boðunarstarfinu ættum við að hafa í huga fyrir hverja Vaknið! og Varðturninn eru skrifuð.
2. Fyrir hvaða lesendahóp er Vaknið! skrifað?
2 Vaknið!: Þetta er rit er skrifað með svipaðan lesendahóp í huga og þann sem Páll postuli talaði til og ávarpaði sem,Aþeninga‘. (Post. 17:22) Þeir voru ekki kristnir og höfðu því lítinn skilning á Ritningunni. Vaknið! er á svipaðan hátt skrifað fyrir þá sem hafa litla eða enga þekkingu á Biblíunni. Þeir þekkja kannski ekki kristnar kenningar, bera lítið traust til trúarbragða eða gera sér ekki grein fyrir hagnýtu gildi Biblíunnar. Aðalmarkmið blaðsins Vaknið! er að sannfæra lesendur um að hinn sanni Guð sé til. Því er einnig ætlað að byggja upp trú á Biblíuna og hjálpa lesandanum að sjá að Vottar Jehóva eru ólíkir öðrum trúfélögum.
3. Fyrir hvaða lesendahóp eru almenn útgáfa og námsútgáfa Varðturnsins skrifuð?
3 Varðturninn: Almenn útgáfa blaðsins er skrifuð fyrir lesendur sem bera ákveðna virðingu fyrir Guði og Biblíunni. Þeir hafa einhverja biblíuþekkingu en skilja ekki fyllilega boðskap hennar. Þessi hópur svipar til þeirra áheyrenda sem Páll sagði að,óttuðust Guð‘. (Post. 13:14-16) Námsútgáfa Varðturnsins er fyrst og fremst skrifuð fyrir votta Jehóva. Páll gerði ráð fyrir að þeir sem læsu bréfin hans þekktu ritningarnar og hefðu nákvæma þekkingu á sannleikanum. (1. Kor. 1:1, 2) Greinar í námsútgáfunni eru einnig skrifaðar fyrir þá sem sækja samkomur og skilja þau hugtök sem söfnuðurinn notar.
4. Hvers vegna ættum við að kynna okkur vel blöðin sem við bjóðum í boðunarstarfinu?
4 Þó að við bjóðum blöðin oftast saman leggjum við yfirleitt aðeins áherslu á annað þeirra í kynningu okkar. Þú ættir þess vegna að gera það að markmiði þínu að kynna þér vel hvert tölublað. Ef þú gerir það ertu í góðri aðstöðu til að höfða til þeirra sem þú hittir.