Notum smárit til að koma fagnaðarerindinu á framfæri
1. Hvernig hafa þjónar Guðs notað smárit í gegnum tíðina?
1 Þjónar Jehóva hafa lengi notað smárit til að koma fagnaðarerindinu á framfæri. Árið 1880 byrjuðu Charles Taze Russell og félagar að gefa út smárit sem þeir kölluðu Bible Students Tracts. Þau voru afhent lesendum Varðturnsins sem dreifðu þeim síðan til almennings. Árið 1884 lét Russell lögskrá félag til að efla þá starfsemi sem sneri að þjónustunni við Jehóva. Smárit voru álitin það mikilvæg að orðið „smárit“ (tract) kom fyrir í heiti félagsins sem var Zion’s Watch Tower Tract Society en nefnist núna Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania. Árið 1918 höfðu biblíunemendur dreift meira en 300 milljónum smárita. Enn þann dag í dag eru smárit notuð með góðum árangri til að koma boðskapnum á framfæri.
2. Hvers vegna koma smáritin að góðum notum?
2 Af hverju koma þau að góðum notum? Smáritin eru falleg og ná athygli fólks. Boðskapur þeirra er hnitmiðaður, hrífandi og fræðandi. Þau höfða til fólks sem finnst blöð eða bækur vera of mikið lesefni. Það er auðvelt fyrir alla, jafnvel nýja boðbera og börn, að bjóða smáritin. Þar að auki eru þau smá í sniðum og auðvelt er að hafa þau meðferðis.
3. Segðu frá því hvernig smáritin hafa komið þér eða öðrum, sem þú hefur lesið um, að góðum notum.
3 Fyrstu kynni margra af sannleikanum voru þegar þeir lásu smárit. Kona nokkur á Haítí kom auga á smárit sem lá á götunni. Hún tók það upp, las það og sagði: „Ég hef fundið sannleikann!“ Síðar fór hún á samkomu, byrjaði að fræðast meira um Biblíuna og lét skírast. Allt var það kraftinum í orði Guðs að þakka sem var að finna í smáriti.
4. Hvert er markmið okkar þegar smáritin eru tilboð mánaðarins?
4 Hús úr húsi: Þar sem smáritin koma að góðum notum í boðunarstarfinu verða þau tilboð mánaðarins af og til og fyrsta skiptið verður í nóvember. Markmið okkar er ekki bara að skilja eftir smárit heldur að nota þau til að hefja samræður. Ef áhugi er fyrir hendi í fyrstu heimsókn eða í endurheimsókn getum við sýnt hvernig biblíunámskeið fer fram með því að nota bókina Hvað kennir Biblían? eða annað námsrit. Hvernig getum við boðið smáritin hús úr húsi? Þau eru ólík og því er mikilvægt að við þekkjum vel þau smárit sem við bjóðum.
5. Hvernig væri hægt að bjóða smáritin hús úr húsi?
5 Kynningarorð okkar ættu að vera sniðin að svæðinu og að smáritinu sem við erum að nota. Við gætum hafið samræður með því að rétta húsráðanda smárit. Vel má vera að aðlaðandi útlit smáritsins veki áhuga hans. Við gætum líka sýnt honum nokkur smáritanna og leyft honum að velja úr það sem honum þykir áhugavert. Þegar við störfum á svæði þar sem algengt er að fólk opni ekki dyrnar getum við haldið smáritinu þannig að húsráðandi sjái það eða spurt hvort við mættum stinga smáriti inn um lúguna því okkur langi til að heyra álit hans á því. Ef titillinn er spurning getum við beðið hann um að segja álit sitt á henni. Við gætum líka notað aðra spurningu sem vekur áhuga og hvetur til samræðna. Síðan getum við lesið hluta smáritsins með húsráðandanum, stoppað við spurningarnar og beðið hann um að tjá sig. Lykilritningarstaðina mætti lesa beint upp úr Biblíunni. Eftir að hafa farið yfir hluta af efninu getum við endað samræðurnar og mælt okkur mót til að hittast aftur. Ef það er venja í þínum söfnuði að skilja eftir rit þar sem enginn er heima mætti setja smárit í póstkassann.
6. Hvernig getum við notað smáritin í götustarfinu?
6 Götustarf: Hefurðu notað smárit í götustarfinu? Sumir sem við mætum eru að flýta sér og eru ekki tilbúnir til að staldra við og ræða við okkur. Það getur verið erfitt að átta sig á hvort áhugi sé fyrir hendi. Í stað þess að rétta þeim nýjustu blöðin og vita ekki hvort þeir muni lesa þau væri hægt að gefa þeim smárit. Þar sem þau eru aðlaðandi og boðskapurinn hnitmiðaður má vel vera að þau veki forvitni fólks svo að það lesi þau þegar það hefur nokkrar mínútur aflögu. Ef fólk er hins vegar ekkert að flýta sér gætum við auðvitað rætt við það um efni smáritsins.
7. Segðu frá hvernig sumir hafa notað smárit til að vitna óformlega.
7 Að vitna óformlega: Það er auðvelt að nota smárit til að vitna óformlega. Bróðir nokkur stingur alltaf smáritum í vasann þegar hann fer að heiman. Þegar hann hittir einhvern, til dæmis afgreiðslumann, spyr hann einfaldlega hvort hann megi gefa honum lesefni og réttir honum síðan smárit. Hjón nokkur fóru í ferðalag til New York. Þar sem þau vissu að þau myndu hitta fólk frá ýmsum löndum tóku þau með sér bæklinginn Good News for People of All Nations og nokkur smárit á mismunandi tungumálum. Þegar þau heyrðu svo einhvern tala á erlendu máli, hvort heldur götusala eða einhvern sem sat nálægt þeim á veitingahúsi eða á bekk í almenningsgarði, buðu þau viðkomandi smárit á móðurmáli sínu.
8. Hvernig má líkja smáritum við sáðkorn?
8 „Sáðu sæði þínu“: Smárit eru eins og sáðkorn. Bóndi dreifir sáðkorni sínu ríkulega þar sem hann veit ekki hvert þeirra muni spíra og spretta. Í Prédikaranum 11:6 segir: „Sáðu sæði þínu að morgni og láttu hendur þínar ekki hvílast að kvöldi því að þú veist ekki hvort muni heppnast þetta eða hitt eða hvort tveggja verði jafngott.“ Höldum því áfram að „dreifa þekkingu“ með hjálp þessara öflugu rita. – Orðskv. 15:7.
[Innskot á bls. 3]
Þar sem smáritin koma að góðum notum í boðunarstarfinu verða þau tilboð mánaðarins af og til og fyrsta skiptið verður í nóvember.