„Ég var að bíða eftir að þú hringdir“
Ed og Jennie konan hans reyndu fyrst að boða trúna símleiðis árið 2010.a „Mér líkaði þetta alls ekki,“ segir Jennie. „Ég ætla aldrei að gera þetta aftur,“ sagði ég við manninn minn. Ed var á sama máli og hann útskýrir það nánar: „Mér leiðist að fá símtöl sölumanna og gat því ekki hugsað mér að taka þátt í símastarfi.“
En þá braust COVID-19 faraldurinn út og vottar Jehóva hættu að fara hús úr húsi. Engu að síður hlýddu þeir fyrirmælum Jesú um að boða fagnaðarboðskapinn. Þeir héldu áfram þjónustu sinni aðallega með því að skrifa bréf og hringja í fólk. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Samkomurnar fóru fram með fjarfundabúnaði, líka samansafnanirnar. Á einni slíkri taldi Ed í sig kjark og reyndi nú aftur að boða trúna símleiðis. Hvernig leið honum þegar hann var í þann mund að hringja í fyrsta sinn? „Ég var svo taugaspenntur að ég bað Guð um hjálp. Síðan hringdi ég og það var þá sem ég náði sambandi við Tyrone.“b
Tyrone og Edith kona hans búa í sveit í Kentucky í Bandaríkjum. Tyrone er 83 ára og sjóndapur. En hann þáði boð Eds um biblíunámskeið. Hann las námsefnið með stækkunargleri og byrjaði að kynna sér Biblíuna með hjálp Eds í gegnum síma.
Um það bil mánuði síðar byrjuðu Tyrone og Edith að tengjast samkomum safnaðarins á staðnum. En þar sem þau hafa ekki nettengingu tengdust þau með síma. Hvað vakti áhuga Edithar?
Meðan á námsstundunum með Tyrone stóð höfðu Ed og Jennie heyrt hvernig Edith hjálpaði honum að svara og finna versin í Biblíunni. En meiri var þátttaka hennar ekki. „Það var svo mikil hryggð í rödd hennar,“ segir Jennie. „En við Ed vissum ekki ástæðuna.“
Ed og Jennie í símastarfi.
Einn daginn fann Jennie sig knúna til að tala við Edith. Þegar viðeigandi tækifæri gafst bað hún Ed um að fá lánaðan símann. Hún sagði: „Tyrone, ég heyri í rödd konu þinnar og mig langar bara að bjóða henni að lesa eitt vers eða að tjá sig um efnið.“
Eftir stutta þögn svaraði Edith með sinni mildu rödd: „Ég hef verið að bíða eftir að geta talað við ykkur. Ég er vottur Jehóva. Ég hef verið óvirk í 40 ár.“
Jennie varð agndofa. „Þú ert systir mín!“ hrópaði hún og þær fóru báðar að gráta.
Skömmu síðar lét Ed Edith fá bæklinginn Snúðu aftur til Jehóva. Næstu vikurnar tóku Ed og Jennie eftir jákvæðri breytingu á Edith. „Í fyrstu var svo mikil hryggð í rödd hennar,“ segir Ed. „En núna er komið líf í röddina.“ Edith tók góðum andlegum framförum og er aftur orðin glöð í þjónustu Guðs. Maðurinn hennar lét skírast sem vottur Jehóva í júlí árið 2022.
Ed rifjar upp eitt samtal sitt við Tyrone þegar hann leiðir hugann að því hvaða augum hann leit símastarf. Þegar Ed las Jóhannes 6:44 fyrir hann og útskýrði að Jehóva dragi fólk til sannleikans var Tyrone alveg sammála og bætti við: „Ég var að bíða eftir að þú hringdir.“ Jennie er líka glöð yfir því að þau hjónin hafi talið í sig kjark til að taka þátt í símastarfinu. Hún segir: „Jehóva blessar okkur þegar við leggjum slíkt á okkur.“
a Vottar Jehóva fara eftir lögum um persónuvernd þegar þeir sinna þjónustu sinni.
b Sumum nöfnum hefur verið breytt.