Kennsla Guðs hefur öflug áhrif
1 Hversu mikil eru ekki sérréttindi okkar að njóta kennslu frá alvöldum Guði, skapara okkar, Jehóva! (Sálm. 50:1; Jes. 30:20b) Frá öllum þjóðum nú á tímum streymir múgur og margmenni til fjalls Guðs, hinnar hreinu tilbeiðslu, til að fá kennslu hjá honum. (Mík. 4:2) Milljónir annarra láta innrita sig í skóla sem upphefja það sem menn hugsa, hugmyndir þeirra og veraldlega visku. En sú viska, sem lítur fram hjá Jehóva og rituðu orði hans, er heimska í augum Guðs og þeir, sem láta leiðast af henni, verða óskynsamir. — Sálm. 14:1; 1 Kor. 1:25.
2 Á umdæmismótinu okkar síðastliðið sumar fengum við að reyna á einstakan hátt hve öflug áhrif kennsla Guðs hefur. Stefið „Kennsla Guðs“ setti mark sitt á alla dagskrána. Við lærðum að orð Guðs, ásamt anda hans, sameinar okkur í bræðrafélag sem nær út um alla heimsbyggðina, mótar persónuleika okkar, verndar okkur gegn kenningum illra anda og þjálfar okkur til að vera betri þjónar orðsins. Hvernig hefur þú persónulega haft gagn af kennslu Guðs?
3 Áhrif á kristið líferni: Kennsla Guðs stuðlar að mótun samvisku okkar. Allir fæðast með samvisku en til þess að hún stýri okkur eftir braut réttlætisins og í þjónustu sem er Jehóva þóknanleg verður að þjálfa hana. (Sálm. 19:8, 9; Rómv. 2:15) Fólk í heiminum hefur ekki mótað hugsunargang sinn samkvæmt orði Guðs og af þeirri ástæðu er það ruglað og óvisst í hvað sé rétt og hvað rangt. Deilt er hart um mál sem varða siðferði og siðareglur af því að hver og einn vill endilega gera það sem rétt er í hans eigin augum. Flestir vilja algert frelsi til að velja sér lífsstefnu. Þeir neita að taka mark á hinum eina sanna viskubrunni. (Sálm. 111:10; Jer. 8:9; Dan. 2:21) En kennsla Guðs hefur skorið úr slíkum deilumálum fyrir okkur og við höldum áfram að vera sameinuð sem heimilisfólk Guðs af því að hann kennir okkur. Við lítum örugg og óhrædd til framtíðarinnar með góðri samvisku og slökum ekki á í kristinni þjónustu okkar.
4 Kennsla Guðs hjálpar okkur að láta ekki hrekjast af „hverjum kenningarvindi.“ (Ef. 4:14) Við látum ekki heillast af fræðum heimspekinnar sem gerir fólk aðfinnslusamt og gjarnt á að draga allt í efa, hvetur til sjálfsákvörðunar og brýtur niður siðferði. Okkur er það unun að fá kennslu hjá Jehóva og með því forðumst við sorgir þær og hugarangur sem margir fá að reyna. Lög Jehóva og áminningar eru eins og ‚orð kölluð á eftir okkur‘ sem segja: „Hér er vegurinn! Farið hann!“ — Jes. 30:21.
5 Samkomur okkar og boðunarstarf: Við lítum á Hebreabréfið 10:23-25 sem fyrirmæli frá Guði. Jehóva kennir okkur á safnaðarsamkomunum. Er það siður okkar að mæta alltaf á samkomur eða setjum við samkomusókn neðarlega á forgangslistann? Munum að það er hluti af tilbeiðslu okkar að safnast saman. Það ætti ekki að líta á það sem valfrjálst. Við höfum ekki efni á að missa af nokkrum þætti þeirrar dagskrár til andlegrar næringar sem Jehóva hefur útbúið handa okkur.
6 Móse bað til Guðs: „Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.“ (Sálm. 90:12) Er þetta einnig okkar bæn? Erum við þakklát fyrir hvern dýrmætan dag? Ef við erum það munum við „öðlast viturt hjarta“ með því að nota hvern dag til verðugra starfa til dýrðar okkar mikla fræðara, Jehóva Guði. Kennsla Guðs mun hjálpa okkur að gera það.