Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • km 1.96 bls. 3-4
  • Haltu ótrauður áfram í brautryðjandastarfi

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Haltu ótrauður áfram í brautryðjandastarfi
  • Ríkisþjónusta okkar – 1996
  • Svipað efni
  • Blessun brautryðjandastarfsins
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
  • Blessun brautryðjandastarfsins
    Ríkisþjónusta okkar – 2003
  • Við styrkjum sambandið við Guð með því að vera brautryðjendur
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2013
  • Getur þú gert meira til að heiðra Jehóva?
    Ríkisþjónusta okkar – 1993
Sjá meira
Ríkisþjónusta okkar – 1996
km 1.96 bls. 3-4

Haltu ótrauður áfram í brautryðjandastarfi

1 Um 5.200.000 vottar Jehóva boða fagnaðarerindið um heim allan. Í þeim hópi eru yfir 660.000 brautryðjendur eða boðberar Guðsríkis í fullu starfi. Brautryðjendurnir í þessum her eru allt frá stálpuðum börnum upp í ellilífeyrisþega á tíræðisaldri. Þeir eru af margvíslegum uppruna og öllum þjóðfélagsstigum.

2 Vafalaust vilja allir þessir brautryðjendur vera farsælir í starfi. Margir vilja gera það að ævistarfi. Sumir geta það ekki af ýmsum ástæðum. En aðrir geta haldið áfram sem brautryðjendur þrátt fyrir fjárhagserfiðleika, heilsuleysi, kjarkleysi eða önnur vandamál. Hvernig geta þá prédikarar í fullu starfi tekist á við slík vandamál og samt haldið ótrauðir áfram í brautryðjandastarfi?

3 Fjárhagsþörfum fullnægt: Almennt séð þurfa brautryðjendur að sjá sér farborða með vinnu, líkt og Páll. (1. Þessaloníkubréf 2:9) Víða um heim hefur verðlag á matvöru, fatnaði, húsnæði og samgöngum rokið upp úr öllu valdi. Oft gengur brautryðjendum erfiðlega að finna hlutastarf við sitt hæfi. Ef slíkt starf býðst er það oft illa launað.

4 Ef við ‚leitum fyrst ríkis Guðs og réttlætis‘ getum við treyst því að hann sjái fyrir efnislegum þörfum okkar. Brautryðjendur þurfa því ‚ekki að hafa áhyggjur af morgundeginum‘ þegar kreppir að fjárhagslega. (Matteus 6:25-34) Sterk trú á Jehóva samhliða einlægri viðleitni til að leysa úr vandanum firrar þá óþörfum áhyggjum.

5 Þegar einhver á í fjárhagserfiðleikum getur hann ef til vill reynt að draga úr útgjöldum. Þannig er kannski hægt að eiga fyrir raunþörfum, þótt ýmislegt annað verði að sitja á hakanum. Sumir brautryðjendur leigja íbúð með öðrum trúsystkinum sínum til að draga úr kostnaði. Foreldrar, sem eru að hjálpa börnum sínum að vera brautryðjendur, bjóða þeim stundum ókeypis eða ódýrt húsnæði. Aðrir hjálpa brautryðjendum með matar- og ferðakostnað. En brautryðjendur vilja ekki vera öðrum byrði því þeir hafa biblíulega skyldu að sjá sjálfum sér farborða. — 2. Þess. 3:10-12.

6 Hægt er að draga úr ferðakostnaði með því að deila útgjöldum með öðrum brautryðjendum. Ef tveir brautryðjendur eiga bíla gætu þeir kannski starfað saman á sama svæði á einum bíl og þannig sparað sér rekstur annars bílsins. Brautryðjendur, sem ekki eiga bíl, gætu ef til vill sameinast um að ferðast með þeim sem eiga bíl og tekið þátt í rekstrarkostnaðinum. Hægt er að draga enn meir úr ferðakostnaði með því að ganga í nálæg starfssvæði. Í mörgum löndum nota brautryðjendur hagvæmar og ódýrar almenningssamgöngur.

7 Í hópi þeirra, sem yfirstigu fjárhagserfiðleika og héldu ótrauðir áfram í fullu starfi, voru Newton Cantwell og eiginkona hans. Þau seldu bújörð sína og hófu brautryðjandastarf ásamt sex af sjö börnum sínum árið 1932, á kreppuárunum. „Ekki leið á löngu uns við höfðum eytt öllu söluverði jarðarinnar — aðallega í lækniskostnað,“ skrifaði bróðir Cantwell. „Við minnumst þess að þegar við fluttum á annað starfssvæðið, sem okkur var úthlutað, höfðum við rétt nóg til að borga hálfs mánaðar húsaleigu fyrir fram, og áttum fimm dollara afgangs. Við vissum samt að Jehóva myndi sjá okkur farborða, svo framarlega sem við sinntum þjónustunni áfram af kostgæfni. . . . Við lærðum að spara með ýmsu móti. Þegar við fluttum á nýtt starfssvæði talaði ég við eigendur nokkurra bensínstöðva og útskýrði fyrir þeim að við værum með þrjá bíla í notkun á hverjum degi í hinni kristnu þjónustu okkar. Yfirleitt varð þetta til þess að við gátum keypt bensín með afslætti. Synir okkar lærðu fljótlega að gera við bílana sem sparaði okkur mikla peninga.“ Cantwell-fjölskyldan lærði þannig að takast á við fjárhagserfiðleika og halda ótrauð áfram í fullu starfi. Bróðir Cantwell var enn starfandi sem brautryðjandi er hann dó 103 ára gamall.

8 Að verða sér úti um hlutastarf: Margir brautryðjendur framfleyta sér með hlutastarfi. Páll vann, ásamt trúsystkinum sínum Akvílasi og Priskillu, við tjaldgerð til að sjá sér farborða þegar hann starfaði í Korintu. (Post. 18:1-11) Nú á tímum eru bræðurnir oft glaðir að geta boðið brautryðjendum hlutastarf. Aðrir brautryðjendur verða sér úti um hlutastarf með hjálp ráðningarstofa er bjóða afleysingavinnu. Trú á Guð er nauðsynleg, og eins að biðja innilega í bæn um leiðsögn hans í ákvörðunum um atvinnu. — Orðsk. 15:29.

9 „Eftir að ég hafði styrkst við að hugleiða og ræða málin við Guð í bæn,“ sagði brautryðjandi, „tilkynnti ég yfirmanninum að prédikunarstarf mitt fæli í sér alvarlega persónulega ábyrgð og að ég gæti ekki þegið fullt stöðugildi í vinnunni. Næsta miðvikudag var ég spurð hvort ég myndi þiggja stöðuna en sem hlutastarf. Ég þáði það með þökkum.“ Ekki vanmeta mátt bænarinnar og fylgdu bænum þínum eftir í verki.

10 Brautryðjendum gæti fundist ráðlegt að segja væntanlegum vinnuveitendum frá því að þeir sækist eftir hlutastarfi til að geta séð fyrir sér í þjónustunni. Þeir gætu nefnt hvaða daga þeir eru lausir og hve marga klukkutíma á viku þeir gætu helgað vinnunni. Tvær holdlegar systur gátu skipt milli sín fullu starfi á lögfræðiskrifstofu þannig að hvor um sig gat unnið tvo og hálfan dag í viku. Þannig gátu þær séð sér farborða sem brautryðjendur uns þær sóttu Biblíuskólann Gíleað og voru sendar í trúboðsstarf.

11 Hægt er að finna margvíslega vinnu, sem er biblíulega boðleg, með því að ræða við trúbræður og aðra eða með því að skoða atvinnuauglýsingar í dagblöðum. Auðmýkt hjálpar því hún kemur í veg fyrir að brautryðjendur verði of vandlátir á hvers konar störf þeir vinna. (Samanber Jakobsbréfið 4:10.) Þeir verða kannski að vinna störf, sem sumt fólk álítur lítilfjörleg eða auvirðileg, til að halda áfram í brautryðjandastarfi. Ef slík vinna er þegin en mann langar að vinna við eitthvað annað er kannski mögulegt breyta um starf síðar.

12 Heilsuleysi og kjarkleysi: Sumir verða að gefa brautryðjandastarf upp á bátinn vegna alvarlegs heilsubrests. En ef brautryðjendur flýta sér ekki um of að hætta komast þeir kannski að raun um að þeir geta ráðið bót á veikindunum eða að heilsan verður það góð að þeir geta haldið áfram í brautryðjandastarfi. Margir geta verið brautryðjendur þrátt fyrir heilsufarsvandamál vegna þess að þeir fá viðeigandi læknismeðferð, halda sér við mataræði sem hentar þeim og fá nægilega hvíld og hreyfingu. Farandumsjónarmaður sagði frá einni systur sem var svo illa haldin af liðagigt að hún þurfti hjálp til að ganga milli húsa í starfinu. (Post. 20:20) Samt stjórnaði hún og maðurinn hennar 33 heimabiblíunámum og höfðu hjálpað 83 einstaklingum að taka við sannleika Guðs. Heilsan skánaði með tímanum og hún sótti Brautryðjandaskólann 11 árum síðar.

13 Kjarkleysi getur fengið suma til að hætta í brautryðjandastarfi. (Orðsk. 24:10) Einn brautryðjandi sagði við farandumsjónarmann: „Ég ætla að hætta sem brautryðjandi. . . . Ég þarf að greiða ýmsa reikninga.“ Hann þurfti gleraugu sem kostuðu 20 dollara. „Ætlarðu að hætta í brautryðjandastarfi af því að þig vantar 20 dollara?“ spurði umsjónarmaðurinn. Hann kom með þá tillögu að brautryðjandinn ynni á kaffiplantekru í einn dag, þénaði þessa 20 dollara, keypti gleraugun og héldi áfram í brautryðjandastarfi. Samtalið leiddi síðan í ljós hvað raunverulega bjó að baki. Dýrar bílaviðgerðar höfðu dregið úr honum kjark. Stungið var upp á að brautryðjandinn drægi úr útgjöldum með því að aka aðeins innan afmarkaðs svæðis í stað þess að keyra langar leiðir. Honum var líka ráðlagt að viðhalda andlegu hugarfari sínu. Brautryðjandinn fylgdi ráðunum og sex mánuðum síðar var honum boðið að sækja Gíleaðskólann. Eftir að hann útskrifaðist var hann sendur til trúboðsstarfs á erlendri grund þar sem hann þjónaði trúfastlega í mörg ár allt fram til dauðadags. Já, við uppskerum oft mikla blessun ef við látum ekki kjarkleysi buga okkur heldur höfum hugfast að Jehóva er með okkur.

14 Mettu þjónustusérréttindi þín mikils: Páll mat þjónustu sína mikils, eins og fjársjóð, þrátt fyrir að hann lenti í nauðum og væri stundum matarlaus. (2. Kor. 4:7; 6:3-6) Fjölmargir þjónar Jehóva í Afríku, Asíu, Austur-Evrópu og víðar hafa haldið fast í brautryðjandasérréttindi sín andspænis erfiðleikum og ofsóknum. Þegar þú lendir í raunum, reyndu þá allt hvað þú getur til að þrauka í þessu sérréttindastarfi, Jehóva til lofs.

15 Flestir brautryðjendur geta þjónað í fullu starfi aðeins vegna þessa að þeir hafa einfaldað líf sitt. Líkt og Páll hafna þeir efnislegum freistingum og láta sér nægja „fæði og klæði.“ Þeir þurfa að vera nægjusamir til langframa til að þrauka í brautryðjandastarfi. (1. Tím. 6:8) Gleði fylgir því að meta mikils sérréttindin, sem Guð gefur okkur, og setja þau ofar efnislegum eigum.

16 Tökum dæmi: Anton Koerber fékk þau sérréttindi að verja hagsmuni Guðsríkis fyrir embættismönum í Washington, D.C. Hann þjónaði sem brautryðjandi um hríð og var farandhirðir á sjötta áratugnum. Nokkrir fyrrverandi samstarfsmenn hans í viðskiptum komu eitt sinn að máli við hann og gerðu honum tilboð sem myndi gera honum kleift að græða eina milljón dollara. En til þess þyrfti hann að helga allan tíma sinn viðskiptum í um eitt ár. Eftir að hann bað í bæn um leiðsögn og skýra hugsun sagði hann: „Ég get ekki fórnað þeim stórkostlegu sérréttindum að þjóna Jehóva hér, ekki einu sinni í ár. Nei, ekki þótt allir peningar í heimi væru í boði. Að þjóna bræðrum mínum hér í Washington er mér meira virði og ég veit að ég hef blessun Jehóva. Ég gæti vafalaust grætt milljón dollara en hvernig yrði ég á mig kominn andlega eða jafnvel líkamlega að ári liðnu?“ Hann hafnaði því boðinu. Að meta sérréttindi sín mikils hjálpar mörgum á sama hátt að halda ótrauðir áfram ár eftir ár í brautryðjandastarfi.

17 Brautryðjendur njóta svo sannarlega stórfenglegra sérréttinda! Það er mikil blessun að eyða mörgum klukkutímum í að tala um dýrð konungdóms Jehóva. (Sálm. 145:11-13) Af því að brautryðjendur verja svo miklum tíma til boðunarstarfsins njóta þeir þeirrar blessunar að færa fátækum og þjáðum, sjúkum, syrgjendum og öðrum, sem eru í nauðum staddir og þarfnast öruggrar vonar, andlega huggun. Ef kringumstæður leyfa okkur að þjóna í fullu starfi verðum við sannarlega margra blessana aðnjótandi. Það er ‚blessun Jehóva sem auðgar.‘ (Orðskviðirnir 10:22) Og það er með hans hjálp sem hinir mörgu boðendur ríkis Guðs halda glaðir áfram í brautryðjandastarfi.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila