Höfum gagn af Guðveldisskólanum fyrir árið 1996 — 3. hluti
1 Páll postuli vildi að bræður hans bæðu fyrir honum til þess að hann yrði fær um að kunngera fagnaðarerindið með djörfung. (Ef. 6:18-20) Okkur langar til að þroska með okkur slíka færni. Þess vegna kunnum við vel að meta þá hjálp sem Guðveldisskólinn veitir okkur. Allir sem sækja samkomurnar og uppfylla inntökuskilyrðin eru hvattir til að skrá sig í skólann.
2 Sem nemendur fáum við persónulegar leiðbeiningar sem hjálpa okkur að verða hæfari ræðumenn og kennarar. (Orðskv. 9:9) Við getum líka haft gagn af því að hlusta á leiðbeiningarnar sem aðrir fá og heimfæra þær á okkur. Þegar við undirbúum verkefni í skólanum ættum við að kanna efnið vandlega til að vera viss um að útskýringar okkar séu nákvæmlega réttar. Aðalatriðin í ræðunni og ritningarstaðirnir, sem við notum, ættu að falla vel að úrvinnslu meginumræðuefnisins. Ef einhver tekur þátt í flutningi efnisins með okkur ætti að æfa flutninginn með góðum fyrirvara. Eftir því sem okkur fer fram ættum við að leitast við að mæla af munni fram, nota minnispunkta í stað handrits.
3 Allir sem hafa verkefni í skólanum ættu að koma tímanlega, láta skólahirðinn fá ræðuráðleggingakortið sitt og taka sér sæti framarlega í salnum. Systur ættu að láta umsjónarmann skólans vita fyrirfram hver sviðsetning þeirra er og hvort þær munu standa eða sitja við flutning ræðunnar. Samvinna í þessu efni stuðlar að hnökralausri dagskrá og hjálpar þeim sem annast sviðið að hafa allt tilbúið í tíma.
4 Undirbúningur verkefnis nr. 2: Tilgangurinn með upplestrinum frá Biblíunni er meðal annars sá að hjálpa nemandanum að taka framförum í lestri. Hvernig verður því marki best náð? Besta leiðin til að ná góðum tökum á lestrinum er að lesa textann upphátt aftur og aftur. Ef einhver orð eru nemandanum framandi ætti hann að fletta þeim upp í orðabók. Sé hann óviss um framburð einstakra orða, væntanlega einkum sumra eiginnafna, ætti hann að leita sér upplýsinga um réttan framburð.
5 Þó að Nýheimsþýðingin sé ekki til á íslensku getur hún komið að nokkru gagni við framburð eiginnafna í Biblíunni. Í ensku útgáfunni er þeim skipt í atkvæði og áherslumerki sett inn. (Sjá „Öll Ritningin er innblásin af Guði og gagnleg,“ blaðsíðu 325-6, greinar 27-8.) Í íslensku er aðaláherslan að sjálfsögðu alltaf á fyrsta atkvæði orðs en aukaáherslur síðar, einkum í löngum eða samsettum orðum. Ef áhersluatkvæði endar á sérhljóða er það borið fram langt. Ef atkvæði endar á samhljóða er sérhljóðinn í því atkvæði stuttur. (Samanber Saʹlu við Salʹlu.)
6 Foreldrar geta hjálpað ungum börnum sínum að búa sig undir upplestur frá Biblíunni. Það gæti falist í því að hlusta þegar barnið er að æfa sig og koma síðan með gagnlega tillögur til úrbóta. Ræðutíminn leyfir stutt inngagnsorð og viðeigandi niðurlagsorð sem benda á hagnýtt gildi nokkurra meginatriða í biblíutextanum. Þannig þroskar nemandinn með sér hæfni til að mæla af munni fram.
7 Sálmaritarinn sagði í bæn: „[Jehóva], opna varir mínar, svo að munnur minn kunngjöri lof þitt!“ (Sálm. 51:17) Megi þátttaka okkar í Guðveldisskólanum hjálpa okkur að fullnægja þessari sömu þrá.