Glæddu áhugann sem Guðsríkisfréttir nr. 36 vekja
1 Hefurðu klárað skammtinn þinn af Guðsríkisfréttum nr. 36? Fréttaritið ber fram tímabæra spurningu fyrir alla að hugleiða: „Ný árþúsund — hvað ber framtíðin í skauti sínu?“ Þegar árið 2000 nálgaðist voru væntingar manna í sambandi við nýju árþúsundina mjög ólíkar. Guðsríkisfréttir nr. 36 fjalla um sumar þeirra og minna á að heimsástandið gefi ekki tilefni til bjartsýni. Þúsundáraríki Krists Jesú er eina árþúsundin sem getur innleitt þann frið og öryggi sem flestir þrá. Trúin á veruleika þessa ríkis hefur fengið okkur til að dreifa Guðsríkisfréttum nr. 36 til eins margra og við getum.
2 Viðbrögð við Guðsríkisfréttum: Fyrri herferðir með Guðsríkisfréttir hafa örvað boðunarstarfið. Kanadíska deildin sagði um Guðsríkisfréttir nr. 35: „Boðberar og brautryðjendur studdu þessa sérstöku herferð af miklum eldmóði og höfðu frá mörgu skemmtilegu að segja.“ Þú hefur vafalaust dreift Guðsríkisfréttum nr. 36 af sömu kostgæfni.
3 Herferðinni með Guðsríkisfréttir nr. 36 lýkur núna 17. nóvember. Hefur þér tekist að dreifa öllum fréttaritunum þínum? Ef ekki máttu halda dreifingunni áfram til nóvemberloka.
4 Hver hafa viðbrögðin verið við Guðsríkisfréttum nr. 36 í þínu byggðarlagi? Vonandi fylla sumir út miðann og biðja um Kröfubækling og/eða heimabiblíunámskeið. En þorri þeirra sem sýna áhuga á árþúsundaefninu gerir trúlega ekkert fyrr en vottur Jehóva kemur í endurheimsókn. Heimsækja ætti aftur alla sem sýna áhuga og það sem allra fyrst.
5 Taktu eftir hvað gerðist þegar farið var aftur til fólks sem þáði Guðsríkisfréttir nr. 35. Brautryðjandi á Írlandi skildi eftir eintak hjá konu sem átti veitingahús. Boðskapurinn vakti athygli hennar og hún bauð systurinni að koma aftur. Hún gerði það tveim dögum síðar og biblíunámskeiði var komið á. Í Danmörku var skilið eftir eintak af Guðsríkisfréttum þar sem húsráðandi var ekki heima. Samdægurs sendi konan, sem þar bjó, afklippuna til deildarinnar sem kom henni áfram til nærliggjandi safnaðar. Áður en vikan var úti höfðu tvær systur heimsótt konuna, námskeiði verið komið á og konan sótti fyrstu samkomu sína í ríkissalnum.
6 Hvað geturðu sagt í endurheimsókn? Það er ekki ýkja erfitt að fara aftur til þeirra sem þiggja Guðsríkisfrettir og raunar mjög skemmtilegt. Hafðu með þér eintak af Guðsríkisfréttum nr. 36 ef ske kynni að húsráðandinn hefði ekki sitt við höndina. Reyndu eftirfarandi tillögur:
7 Þegar þú hefur kynnt þig aftur gætirðu sagt:
◼ „Ég skildi eftir hjá þér um daginn smáritið ‚Ný árþúsund — hvað ber framtíðin í skauti sínu?‘ Fannst þér ekki uppörvandi að lesa að þúsund ára stjórn Jesú Krists skuli taka til starfa bráðlega og koma á paradís á jörð? [Sýndu paradísarmyndirnar í Guðsríkisfréttum nr. 36.] Á baksíðunni er þér boðið að þiggja bæklinginn Hvers krefst Guð af okkur?“ Sýndu húsráðandanum bæklinginn, flettu upp í 5. kafla, lestu fyrstu spurninguna og 1. og 2. grein og fáðu hann til að tjá sig. Lestu og ræddu um einn eða tvo ritningarstaði. Reyndu að fara yfir næstu spurningu og grein, og gerðu síðan ráðstafanir til að koma aftur og halda umræðunum áfram.
8 Í nóvember á að bjóða „Kröfubæklinginn“ og „Þekkingarbókina“ í endurheimsóknum. Þú gætir sagt:
◼ „Ég skildi eftir hjá þér fyrir stuttu smáritið ‚Ný árþúsund — hvað ber framtíðin í skauti sínu?‘ þar sem boðið er upp á ókeypis heimabiblíunámskeið. Ég kom til að sýna þér biblíunámsritið sem stuðst er við. [Sýndu Kröfubæklinginn og baksíðu hans eða sýndu Þekkingarbókina og flettu upp á bls. 188-9.] Árþúsundin, sem Biblían minnist á, skapar þær aðstæður sem þú sérð hér á myndinni. Við þurfum nákvæma þekkingu á Guði til að fá að lifa í paradís. Mætti ég sýna þér stuttlega hvernig slíkt biblíunám fer fram?“
9 Dreifing Guðsríkisfrétta nr. 36 hefur verið okkur hvatning til að auka þátttökuna í boðunarstarfinu. Mikill vitnisburður hefur verið gefinn og það hefur vafalaust vakið áhuga margra á starfssvæðinu. Með sameinuðu átaki og hjálp Jehóva tekst okkur að glæða þennan áhuga og finna enn fleiri sauðumlíka menn. — Matt. 10:11; Post. 13:48, 49, 52.