Síðari Samúelsbók
15 Nokkru síðar varð Absalon sér úti um vagn og hesta og 50 menn sem hlupu á undan honum.+ 2 Absalon var vanur að fara snemma á fætur og standa við veginn að borgarhliðinu.+ Þegar einhver átti þar leið hjá til að leggja mál sitt fyrir konung+ kallaði Absalon til hans: „Frá hvaða borg ertu?“ og maðurinn sagði honum af hvaða ættkvísl Ísraels hann væri. 3 Absalon sagði þá við hann: „Málstaður þinn er góður og réttur en við konungshirðina er enginn sem mun hlusta á þig.“ 4 Síðan sagði hann: „Bara að ég væri skipaður dómari í landinu. Þá gætu allir sem ættu í deilum eða málaferlum komið til mín og ég léti þá ná rétti sínum.“
5 Og þegar einhver kom og ætlaði að hneigja sig fyrir honum rétti hann út höndina, greip í hann og kyssti hann.+ 6 Absalon gerði þetta við alla Ísraelsmenn sem komu til að leggja mál fyrir konung. Þannig stal Absalon hjörtum Ísraelsmanna.+
7 Að fjórum árum* liðnum kom Absalon að máli við konung og sagði: „Leyfðu mér að fara til Hebron+ til að efna heitið sem ég vann Jehóva. 8 Ég, þjónn þinn, vann svohljóðandi heit+ þegar ég bjó í Gesúr+ í Sýrlandi: ‚Ef Jehóva flytur mig aftur til Jerúsalem ætla ég að færa Jehóva fórn.‘“* 9 Konungur svaraði honum: „Farðu í friði.“ Þá lagði hann af stað og fór til Hebron.
10 Síðan sendi Absalon menn með leynd til allra ættkvísla Ísraels og sagði við þá: „Þegar þið heyrið hljóminn í hornablæstri skuluð þið hrópa: ‚Absalon er orðinn konungur í Hebron!‘“+ 11 Tvö hundruð menn höfðu farið með Absalon frá Jerúsalem. Hann hafði boðið þeim með en þeir vissu ekki hvað lá að baki og þá grunaði ekki neitt. 12 Þegar Absalon færði fórnirnar lét hann sækja Akítófel+ Gílóníta, ráðgjafa Davíðs,+ til Gíló,+ heimaborgar hans. Samsærið færðist í aukana og sífellt fleiri slógust í lið með Absalon.+
13 Nú kom sendiboði til Davíðs og sagði: „Absalon hefur unnið Ísraelsmenn á sitt band.“ 14 Þá sagði Davíð við alla þjóna sína sem voru hjá honum í Jerúsalem: „Komið, við verðum að flýja+ því að annars kemst enginn okkar undan Absalon. Flýtið ykkur svo að hann komi ekki skyndilega og nái okkur, steypi okkur í ógæfu og drepi alla borgarbúa með sverði!“+ 15 Þjónar konungs svöruðu: „Þjónar þínir gera hvað sem herra okkar, konungurinn, ákveður.“+ 16 Konungur lagði þá af stað og allt heimilisfólk hans fylgdi honum. En hann skildi eftir tíu hjákonur+ til að líta eftir húsinu.* 17 Konungur hélt út úr borginni ásamt öllu fylgdarliði sínu og hópurinn nam staðar við Bet Merak.*
18 Allir þjónar konungs sem fóru* með honum og allir Keretarnir og Peletarnir+ og Gatítarnir,+ 600 menn sem höfðu fylgt honum frá Gat,+ gengu fram hjá honum og hann virti þá vandlega fyrir sér.* 19 Konungur sagði við Ittaí+ Gatíta: „Af hverju ættir þú að koma með okkur? Snúðu við og vertu hjá nýja konunginum því að þú ert útlendingur og útlægur úr heimalandi þínu. 20 Þú komst bara í gær. Get ég þá ætlast til þess í dag að þú reikir um með okkur og farir með mér út í óvissuna? Snúðu við og taktu bræður þína með þér. Jehóva sýni þér tryggan kærleika og trúfesti.“+ 21 En Ittaí svaraði konungi: „Svo sannarlega sem Jehóva lifir og svo sannarlega sem herra minn og konungur lifir þá fylgi ég herra mínum, konunginum, hvert sem hann fer, jafnvel þótt það kosti mig lífið!“+ 22 Þá sagði Davíð við Ittaí:+ „Haltu þá áfram.“ Ittaí Gatíti fór þá yfir dalinn ásamt öllum mönnum sínum og fjölskyldum þeirra.
23 Fólkið í landinu grét hástöfum þegar allur mannfjöldinn fór yfir Kedrondal.+ En konungur stóð við dalinn meðan mannfjöldinn hélt út á veginn til óbyggðanna. 24 Sadók+ var þarna líka ásamt öllum Levítunum+ sem báru sáttmálsörk+ hins sanna Guðs.+ Þeir lögðu örk hins sanna Guðs niður og Abjatar+ var þar einnig meðan allt fólkið fór út úr borginni og yfir dalinn. 25 Konungur sagði við Sadók: „Farðu með örk hins sanna Guðs aftur inn í borgina.+ Ef Jehóva hefur velþóknun á mér leiðir hann mig þangað aftur og leyfir mér að sjá örkina og bústað hennar.+ 26 En ef hann segir: ‚Ég hef ekki velþóknun á þér,‘ þá má hann gera við mig hvað sem hann vill.“ 27 Konungur sagði síðan við Sadók prest: „Ertu ekki sjáandi?+ Farið þið Abjatar í friði aftur til borgarinnar ásamt báðum sonum ykkar, Akímaas syni þínum og Jónatan+ syni Abjatars. 28 Ég bíð við vöðin í óbyggðunum þar til þið sendið mér fréttir af gangi mála.“+ 29 Sadók og Abjatar fóru þá með örk hins sanna Guðs aftur til Jerúsalem og voru þar um kyrrt.
30 Davíð gekk grátandi upp Olíufjallið.+ Hann var berfættur og huldi höfuðið. Allt fólkið sem var með honum huldi líka höfuðið og grét á leiðinni upp. 31 Þegar Davíð var sagt að Akítófel væri meðal þeirra sem höfðu gert samsæri+ með Absalon+ sagði hann: „Jehóva, láttu engan taka mark á ráðum Akítófels.“*+
32 Þegar Davíð var kominn efst upp á fjallið, þar sem menn voru vanir að falla fram fyrir Guði, kom Húsaí+ Arkíti+ á móti honum í rifnum kyrtli og með mold á höfðinu. 33 Davíð sagði við hann: „Ef þú kemur með mér verður lítil hjálp í þér. 34 En ef þú snýrð aftur til borgarinnar og segir við Absalon: ‚Konungur, ég er þjónn þinn. Áður þjónaði ég föður þínum en núna er ég þjónn þinn,‘+ þá geturðu gert ráð Akítófels að engu fyrir mig.+ 35 Prestarnir Sadók og Abjatar verða þarna með þér. Segðu þeim allt sem þú heyrir í húsi konungs.+ 36 Synir þeirra eru líka þarna hjá þeim, þeir Akímaas+ Sadóksson og Jónatan+ Abjatarsson. Þið skuluð senda þá til mín með allar þær fréttir sem þið heyrið.“ 37 Húsaí vinur*+ Davíðs kom til Jerúsalem á sama tíma og Absalon hélt inn í borgina.