Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • nwt Sakaría 1:1-14:21
  • Sakaría

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Sakaría
  • Biblían – Nýheimsþýðingin
Biblían – Nýheimsþýðingin
Sakaría

SAKARÍA

1 Í áttunda mánuði annars stjórnarárs Daríusar+ kom orð Jehóva til Sakaría*+ spámanns, sonar Berekía Iddóssonar: 2 „Jehóva varð mjög reiður út í forfeður ykkar.+

3 Segðu við fólkið: ‚Þetta segir Jehóva hersveitanna: „‚Snúið aftur til mín,‘ segir Jehóva hersveitanna, ‚þá sný ég aftur til ykkar,‘+ segir Jehóva hersveitanna.“‘

4 ‚Verið ekki eins og forfeður ykkar sem spámenn fyrri tíma fluttu þessi boð: „Jehóva hersveitanna segir: ‚Snúið baki við* illsku ykkar og vondum verkum.‘“‘+

‚En þeir hlustuðu ekki og gáfu mér engan gaum,‘+ segir Jehóva.

5 ‚Hvar eru forfeður ykkar núna? Og lifðu spámennirnir að eilífu? 6 Fengu ekki forfeður ykkar að kenna á orðum mínum og úrskurðum sem ég lét þjóna mína, spámennina, flytja?‘+ Þá sneru þeir aftur til mín og sögðu: ‚Jehóva hersveitanna hefur farið með okkur eins og hann ákvað í samræmi við hegðun okkar og verk.‘“+

7 Á 24. degi 11. mánaðarins, það er sebat,* á öðru stjórnarári Daríusar+ kom orð Jehóva til Sakaría spámanns, sonar Berekía Iddóssonar. 8 Ég sá sýn um nóttina. Maður reið rauðum hesti og nam staðar hjá myrtutrjánum í gilinu. Fyrir aftan hann voru rauðir, rauðjarpir og hvítir hestar.

9 Ég spurði: „Hverjir eru þetta sem ríða hestunum, herra minn?“

Engillinn sem talaði við mig svaraði: „Ég skal sýna þér það.“

10 Þá sagði maðurinn sem hafði staðnæmst hjá myrtutrjánum: „Þetta eru þeir sem Jehóva hefur sent til að kanna jörðina.“ 11 Og þeir sögðu við engil Jehóva sem stóð hjá myrtutrjánum: „Við höfum farið um alla jörðina og alls staðar er kyrrð og ró.“+

12 Þá sagði engill Jehóva: „Jehóva hersveitanna, hversu lengi ætlarðu að halda miskunn þinni frá Jerúsalem og borgum Júda+ sem þú hefur verið reiður út í þessi 70 ár?“+

13 Jehóva svaraði englinum, sem talaði við mig, með hlýlegum og huggandi orðum. 14 Síðan sagði engillinn sem talaði við mig: „Hrópaðu: ‚Þetta segir Jehóva hersveitanna: „Með brennandi ákafa vernda ég Jerúsalem og Síon.+ 15 Ég er mjög reiður út í þjóðirnar sem eru öruggar með sig.+ Ég reiddist áður í litlum mæli+ en þjóðirnar juku á ógæfuna.“‘+

16 Þess vegna segir Jehóva: ‚„Í miskunn sný ég aftur til Jerúsalem+ og hús mitt verður byggt þar,“+ segir Jehóva hersveitanna, „og mælisnúra verður strengd yfir Jerúsalem.“‘+

17 Hrópaðu einnig: ‚Jehóva hersveitanna segir: „Borgir mínar munu aftur fljóta í gæðum. Jehóva huggar Síon+ á nýjan leik og Jerúsalem verður aftur útvalin borg mín.“‘“+

18 Nú leit ég upp og sá fjögur horn.+ 19 Ég spurði engilinn sem talaði við mig: „Hvað táknar þetta?“ Hann svaraði: „Þetta eru hornin sem tvístruðu Júda,+ Ísrael+ og Jerúsalem.“+

20 Jehóva sýndi mér síðan fjóra handverksmenn. 21 „Hvað ætla þeir að gera?“ spurði ég.

Hann svaraði: „Hornin eru þeir sem tvístruðu Júda svo að enginn gat staðist frammi fyrir þeim. Handverksmennirnir koma til að skelfa þau, til að steypa niður hornum þjóðanna sem beittu hornunum gegn Júda og tvístruðu þeim sem bjuggu þar.“

2 Ég leit upp og sá mann sem hélt á mælisnúru.+ 2 Ég spurði: „Hvert ertu að fara?“

Hann svaraði: „Til Jerúsalem til að mæla hana og kanna hve breið og löng hún er.“+

3 Engillinn sem talaði við mig fór burt og annar engill kom á móti honum. 4 Hann sagði við hann: „Hlauptu yfir til unga mannsins og segðu við hann: ‚„Jerúsalem verður eins og opin borg án múra vegna þess fjölda manna og búfjár sem verður þar.+ 5 Og ég verð eins og múr úr eldi kringum hana,“+ segir Jehóva, „og ég fylli hana dýrð minni.“‘“+

6 „Komið! Komið! Flýið landið í norðri,“+ segir Jehóva.

„Ég hef tvístrað ykkur fyrir fjórum vindum himins,“+ segir Jehóva.

7 „Komdu, Síon! Forðaðu þér, þú sem býrð hjá dótturinni Babýlon.+ 8 Eftir að Jehóva hersveitanna var upphafinn sendi hann mig til þjóðanna sem rændu eigum ykkar+ og hann sagði: ‚Sá sem snertir ykkur snertir augastein minn.*+ 9 Nú lyfti ég hendi minni gegn þeim og þeirra eigin þrælar ræna þá.‘+ Þið munuð komast að raun um að Jehóva hersveitanna hefur sent mig.

10 Hrópaðu af gleði, dóttirin Síon,+ því að ég kem+ og ég mun búa hjá þér,“+ segir Jehóva. 11 „Margar þjóðir bindast mér þann dag+ og verða fólk mitt og ég, Jehóva, mun búa hjá þér.“ Þú munt skilja að Jehóva hersveitanna hefur sent mig til þín. 12 Jehóva mun taka Júda til eignar sem hlut sinn á hinni heilögu jörð og Jerúsalem verður aftur útvalin borg hans.+ 13 Verið hljóðir, allir menn,* frammi fyrir Jehóva því að hann lætur til skarar skríða frá heilögum bústað sínum.

3 Hann sýndi mér Jósúa+ æðstaprest sem stóð frammi fyrir engli Jehóva, en Satan+ stóð honum á hægri hönd til að veita honum mótstöðu. 2 Engill Jehóva sagði við Satan: „Jehóva ávíti þig, Satan,+ já, Jehóva, sem hefur valið Jerúsalem,+ ávíti þig! Er ekki Jósúa logandi viðarkubbur hrifinn úr eldinum?“

3 Jósúa var í óhreinum fötum þar sem hann stóð frammi fyrir englinum. 4 Engillinn sagði við þá sem stóðu frammi fyrir honum: „Klæðið hann úr óhreinu fötunum.“ Síðan sagði hann við Jósúa: „Ég hef tekið burt synd* þína og þú verður klæddur í hátíðarföt.“+

5 Þá sagði ég: „Setjið hreinan vefjarhött á höfuð hans.“+ Þeir settu hreinan vefjarhött á höfuð hans og klæddu hann en engill Jehóva stóð þar hjá. 6 Engill Jehóva sagði síðan við Jósúa: 7 „Þetta segir Jehóva hersveitanna: ‚Ef þú gengur á vegum mínum og rækir skyldur þínar frammi fyrir mér verður þú dómari í húsi mínu+ og færð að sjá um forgarða mína.* Ég leyfi þér að fara frjálslega um meðal þeirra sem standa hér.‘

8 ‚Hlustaðu, Jósúa æðstiprestur, þú og prestarnir sem sitja frammi fyrir þér, því að þið eruð til tákns um það sem verður: Ég læt þjón minn,+ Sprota,+ koma! 9 Sjáið steininn sem ég hef sett fyrir framan Jósúa. Á þessum eina steini eru sjö augu. Ég gref á hann áletrun,‘ segir Jehóva hersveitanna, ‚og ég fjarlægi sekt landsins á einum degi.‘+

10 ‚Þann dag,‘ segir Jehóva hersveitanna, ‚munuð þið allir bjóða nágrönnum ykkar að koma og sitja undir vínviði ykkar og fíkjutré.‘“+

4 Engillinn sem hafði talað við mig kom aftur og vakti mig eins og þegar maður er vakinn af svefni. 2 Hann spurði mig: „Hvað sérðu?“

Ég svaraði: „Ég sé ljósastiku úr gegnheilu gulli+ og ofan á henni er skál. Á ljósastikunni eru sjö lampar,+ já, sjö, og að hverjum lampa liggur pípa. 3 Tvö ólívutré standa hjá henni,+ annað hægra megin við skálina og hitt vinstra megin.“

4 Síðan spurði ég engilinn sem talaði við mig: „Hvað merkir þetta, herra minn?“ 5 „Veistu ekki hvað þetta merkir?“ spurði engillinn.

„Nei, herra minn,“ svaraði ég.

6 Þá sagði hann við mig: „Þetta er orð Jehóva til Serúbabels: ‚„Ekki með hervaldi né krafti+ heldur með anda mínum,“+ segir Jehóva hersveitanna. 7 Hver ert þú, mikla fjall? Frammi fyrir Serúbabel+ skaltu verða að jafnsléttu.+ Hann mun leggja síðasta* steininn meðan hrópað er: „En fallegt! En fallegt!“‘“

8 Orð Jehóva kom aftur til mín: 9 „Hendur Serúbabels lögðu grunninn að þessu húsi+ og hendur hans munu fullgera það.+ Og þið munuð komast að raun um að Jehóva hersveitanna hefur sent mig til ykkar. 10 Hver gerir lítið úr hinni smávægilegu byrjun?+ Menn munu fagna þegar þeir sjá lóðlínuna* í hendi Serúbabels. Þessir sjö* eru augu Jehóva sem skima um alla jörðina.“+

11 Þá spurði ég hann: „Hvað merkja þessi tvö ólívutré sem eru hægra og vinstra megin við ljósastikuna?“+ 12 Ég spurði líka: „Hvað merkja greinarnar* á ólívutrjánum tveim sem gullin olían streymir úr um gullpípurnar tvær?“

13 Hann spurði mig þá: „Veistu ekki hvað þetta merkir?“

„Nei, herra minn,“ svaraði ég.

14 Hann sagði: „Þetta eru hinir tveir smurðu sem standa hjá Drottni allrar jarðarinnar.“+

5 Ég leit aftur upp og sá bókrollu á flugi. 2 Hann spurði mig: „Hvað sérðu?“

Ég svaraði: „Ég sé bókrollu á flugi, 20 álna* langa og 10 álna breiða.“

3 Þá sagði hann við mig: „Þetta er bölvunin sem leggst yfir alla jörðina því að öllum sem stela+ er órefsað eins og stendur öðrum megin á henni og öllum sem sverja eið+ er órefsað eins og stendur hinum megin. 4 ‚Ég hef sent hana,‘ segir Jehóva hersveitanna, ‚og hún fer inn í hús þjófsins og hús þess sem sver falskan eið í mínu nafni. Hún verður um kyrrt í því húsi og eyðir því, bæði tréverki þess og steinum.‘“

5 Engillinn sem talaði við mig gekk nú fram og sagði: „Líttu upp og sjáðu hvað nálgast núna.“

6 „Hvað er þetta?“ spurði ég.

„Þetta er efukerið,“* svaraði hann og hélt áfram: „Svona lítur þetta fólk út um alla jörð.“ 7 Ég sá að kringlóttu blýlokinu var lyft af kerinu og kona sat ofan í því. 8 „Þetta er Illskan,“ sagði hann. Síðan ýtti hann henni aftur ofan í efukerið og setti blýlokið yfir.

9 Nú leit ég upp og sá tvær konur koma svífandi í vindinum. Þær voru með vængi eins og storkar. Þær lyftu kerinu upp og svifu með það milli himins og jarðar. 10 Ég spurði engilinn sem talaði við mig: „Hvert eru þær að fara með efukerið?“

11 Hann svaraði: „Til Sínearlands*+ til að byggja hús handa konunni. Og þegar það er tilbúið verður henni komið fyrir þar á sínum rétta stað.“

6 Ég leit upp á ný og sá fjóra vagna koma fram milli tveggja fjalla en fjöllin voru úr kopar. 2 Fyrir fyrsta vagninum voru rauðir hestar og fyrir öðrum vagninum svartir.+ 3 Þriðja vagninn drógu hvítir hestar og þann fjórða dröfnóttir og skjóttir hestar.+

4 Ég spurði engilinn sem talaði við mig: „Hvað merkir þetta, herra minn?“

5 Engillinn svaraði mér: „Þetta eru fjórir andar+ himnanna sem leggja af stað eftir að hafa staðið frammi fyrir Drottni allrar jarðarinnar.+ 6 Vagninn með svörtu hestunum heldur til landsins í norðri,+ hinir hvítu halda til landsins handan við hafið og hinir dröfnóttu til landsins í suðri. 7 Skjóttu hestarnir vildu ákafir fara um jörðina.“ Síðan sagði hann: „Farið, farið um jörðina.“ Og þeir gerðu það.

8 Hann kallaði nú til mín: „Sjáðu, þeir sem halda til landsins í norðri hafa valdið því að reiði Jehóva sefaðist* í landinu í norðri.“

9 Orð Jehóva kom aftur til mín: 10 „Taktu við því sem Heldaí, Tobía og Jedaja komu með frá fólkinu í útlegðinni og farðu samdægurs í hús Jósía Sefaníasonar ásamt þeim sem eru komnir frá Babýlon. 11 Taktu silfur og gull, gerðu kórónu* og settu hana á höfuð Jósúa+ Jósadakssonar æðstaprests. 12 Segðu við hann:

‚Þetta segir Jehóva hersveitanna: „Hér er maðurinn sem heitir Sproti.+ Hann mun spretta upp á sínum stað og hann mun reisa musteri Jehóva.+ 13 Hann er sá sem mun reisa musteri Jehóva og hann er sá sem hlýtur konungstign. Hann mun setjast í hásæti sitt og stjórna og hann verður líka prestur í hásæti sínu+ og embættin tvö fara vel saman.* 14 Kórónan* verður í musteri Jehóva til að minna á það sem Helem, Tobía, Jedaja+ og Hen Sefaníason gerðu. 15 Menn koma langar leiðir til að taka þátt í að reisa musteri Jehóva.“ Og þið munuð komast að raun um að Jehóva hersveitanna hefur sent mig til ykkar. Þetta gerist – ef þið hlustið á Jehóva Guð ykkar.‘“

7 Á fjórða stjórnarári Daríusar konungs, á fjórða degi níunda mánaðarins, það er kíslevmánaðar,* kom orð Jehóva til Sakaría.+ 2 Íbúar Betel sendu Sareser og Regem Melek ásamt mönnum hans til að biðja Jehóva að sýna sér góðvild.* 3 Þeir spurðu prestana í húsi* Jehóva hersveitanna og spámennina: „Eigum við* að gráta og fasta í fimmta mánuðinum+ eins og við höfum gert árum saman?“

4 Orð Jehóva hersveitanna kom þá aftur til mín: 5 „Segðu við alla íbúa landsins og prestana: ‚Þegar þið föstuðuð og kveinuðuð í fimmta og sjöunda mánuðinum+ í 70 ár+ voruð þið þá að fasta fyrir mig? 6 Og þegar þið átuð og drukkuð voruð þið þá ekki að gera það fyrir sjálf ykkur? 7 Ættuð þið ekki að hlýða því sem Jehóva lét fyrri spámenn boða+ meðan Jerúsalem og borgirnar í kring voru byggðar og bjuggu við frið og meðan Negeb og Sefela voru enn þá í byggð?‘“

8 Orð Jehóva kom aftur til Sakaría: 9 „Þetta segir Jehóva hersveitanna: ‚Dæmið með réttlæti+ og sýnið hvert öðru tryggan kærleika+ og miskunn. 10 Hafið ekkert af ekkjum eða föðurlausum börnum,*+ útlendingum+ eða fátækum,+ og upphugsið ekkert illt hvert gegn öðru.‘+ 11 En menn hlustuðu ekki+ heldur þrjóskuðust við+ og héldu fyrir eyrun til að heyra ekki neitt.+ 12 Þeir gerðu hjörtu sín hörð eins og demant*+ og hlýddu ekki lögunum* og því sem Jehóva hersveitanna boðaði með anda sínum fyrir milligöngu fyrri spámanna.+ Jehóva hersveitanna reiddist því ákaflega.“+

13 „‚Fyrst þeir hlustuðu ekki þegar ég* kallaði+ hlustaði ég ekki heldur þegar þeir kölluðu,‘+ segir Jehóva hersveitanna. 14 ‚Og með stormhviðu tvístraði ég þeim til allra þeirra þjóða sem þeir þekktu ekki+ og landið lagðist í eyði. Enginn fór þar um né sneri þangað aftur+ því að þeir höfðu breytt landinu yndislega í auðn sem menn hryllti við.‘“

8 Orð Jehóva hersveitanna kom aftur til mín: 2 „Þetta segir Jehóva hersveitanna: ‚Með brennandi ákafa mun ég vernda Síon,+ í mikilli reiði brenn ég af ákafa vegna hennar.‘“

3 „Jehóva segir: ‚Ég sný aftur til Síonar+ og sest að í Jerúsalem.+ Jerúsalem verður kölluð borg sannleikans*+ og fjall Jehóva hersveitanna fjallið heilaga.‘“+

4 „Þetta segir Jehóva hersveitanna: ‚Aldraðir menn og konur munu aftur sitja á torgum Jerúsalem, öll með staf í hendi sökum aldurs.+ 5 Og borgin verður full af strákum og stelpum sem leika sér á torgunum.‘“+

6 „Jehóva hersveitanna segir: ‚Þetta getur virst ógerlegt fyrir þá sem eftir verða af þessari þjóð á þeim tíma en er það líka ógerlegt fyrir mig?‘ segir Jehóva hersveitanna.“

7 „Jehóva hersveitanna segir: ‚Ég frelsa fólk mitt úr löndunum í austri og vestri.*+ 8 Ég flyt fólkið heim og það skal búa í Jerúsalem.+ Það verður fólk mitt og ég verð sannur* og réttlátur Guð þess.‘“+

9 „Jehóva hersveitanna segir: ‚Verið hugrökk,*+ þið sem heyrið orðin af munni spámannanna,+ sömu orð og flutt voru daginn sem grunnurinn var lagður að húsi Jehóva hersveitanna svo að hægt væri að reisa musterið. 10 Fyrir þann tíma voru engin laun greidd fyrir vinnu manna eða dýra.+ Engum var óhætt að vera á ferli vegna andstæðinganna því að ég lét alla snúast hvern gegn öðrum.‘

11 ‚En nú ætla ég ekki að fara með þá sem eftir eru af fólkinu eins og ég gerði áður,‘+ segir Jehóva hersveitanna, 12 ‚því að sáð verður sáðkorni friðar. Vínviðurinn mun gefa ávöxt sinn, jörðin afurðir sínar+ og himinninn dögg sína. Ég læt þá sem eftir eru af fólkinu erfa þetta allt.+ 13 Og eins og þið, Júdamenn og Ísraelsmenn, voruð nefndir í bölbænum meðal þjóðanna,+ eins verðið þið til blessunar+ því að ég bjarga ykkur. Óttist ekki!+ Sýnið hugrekki!‘*+

14 Jehóva hersveitanna segir: ‚„Ég hafði ákveðið að láta ógæfu koma yfir ykkur,“ segir Jehóva hersveitanna, „af því að forfeður ykkar reittu mig til reiði og ég skipti ekki um skoðun.+ 15 Eins hef ég nú ákveðið að gera Jerúsalembúum og Júdamönnum gott.+ Óttist ekki!“‘+

16 ‚Þetta eigið þið að gera: Verið sannorð hvert við annað+ og látið dómana í borgarhliðum ykkar stuðla að sannleika og friði.+ 17 Upphugsið ekkert illt hvert gegn öðru+ og hættið að sverja falska eiða+ því að ég hata allt slíkt,‘+ segir Jehóva.“

18 Orð Jehóva hersveitanna kom aftur til mín: 19 „Þetta segir Jehóva hersveitanna: ‚Fastan í fjórða+ og fimmta mánuðinum+ og fastan í sjöunda+ og tíunda mánuðinum+ verða tilefni fyrir Júdamenn til að gleðjast og fagna – þær verða gleðilegar hátíðir.+ Elskið því sannleika og frið.‘

20 Jehóva hersveitanna segir: ‚Fólk af mörgum þjóðum og frá mörgum borgum mun koma á ný, 21 og íbúar einnar borgar fara til annarrar og segja: „Komið! Við skulum fara og biðja Jehóva að sýna okkur góðvild* og leita Jehóva hersveitanna. Ég fer líka.“+ 22 Fólk af mörgum þjóðflokkum og voldugum þjóðum kemur til að leita Jehóva hersveitanna í Jerúsalem+ og biðja Jehóva að sýna sér góðvild.‘*

23 Jehóva hersveitanna segir: ‚Á þeim dögum munu tíu menn af öllum málhópum þjóðanna+ grípa í kyrtil* eins Gyðings, já, grípa fast í hann og segja: „Við viljum fara með ykkur+ því að við höfum heyrt að Guð sé með ykkur.“‘“+

9 Yfirlýsing:

„Orð Jehóva beinist gegn Hadraklandi

og stefnir að* Damaskus+

– því að augu Jehóva hvíla á mönnunum+

og öllum ættkvíslum Ísraels –

 2 og gegn grannlandinu Hamat+

og gegn Týrus+ og Sídon+ því að þær eru svo vitrar.+

 3 Týrus reisti sér virkisgarð.*

Hún hrúgaði upp silfri eins og mold

og gulli eins og for á götum.+

 4 Nú tekur Jehóva allt sem hún á

og steypir her hennar í hafið.*+

Hún verður brennd til grunna.+

 5 Askalon mun sjá það og hræðast,

Gasa fyllist mikilli angist

og Ekron sömuleiðis því að von hennar bregst.

Konungurinn hverfur frá Gasa

og Askalon verður óbyggð.+

 6 Óskilgetinn sonur sest að í Asdód

og ég geri stolt Filisteans að engu.+

 7 Ég hrifsa hið blóðuga úr munni hans

og viðbjóðinn undan tönnum hans.

Hann verður eftir og mun tilheyra Guði okkar,

hann verður eins og fursti* í Júda+

og Ekronbúar verða eins og Jebúsítar.+

 8 Ég reisi búðir við hús mitt til að vernda það*+

fyrir þeim sem koma og þeim sem fara.

Enginn þrælahaldari* fer þar um framar+

því að nú hef ég séð það* með eigin augum.

 9 Fagnaðu mjög, Síonardóttir.

Rektu upp siguróp, Jerúsalemdóttir.

Sjáðu! Konungur þinn kemur til þín.+

Hann er réttlátur og færir frelsun,*

auðmjúkur+ og ríður asna,

fola, já, ösnufola.+

10 Ég útrými stríðsvögnum úr Efraím

og hestum úr Jerúsalem.

Stríðsbogarnir verða fjarlægðir.

Hann mun boða þjóðunum frið.+

Hann mun ríkja frá hafi til hafs

og frá Fljótinu* til endimarka jarðar.+

11 Og þú kona, vegna blóðs sáttmála þíns

læt ég fanga þína lausa úr vatnslausri gryfjunni.+

12 Snúið aftur til virkisins, þið fangar sem eigið von.+

Í dag boða ég:

‚Þú kona, ég endurgeld þér tvöfalt.+

13 Ég spenni Júda eins og boga minn.

Ég legg Efraím eins og ör á streng

og vek syni þína, Síon,

gegn sonum þínum, Grikkland,

og geri þig að sverði hermanns.‘

14 Jehóva mun birtast yfir þeim

og ör hans þjóta eins og elding.

Alvaldur Drottinn Jehóva blæs í hornið,+

hann geysist fram með storminum úr suðri.

15 Jehóva hersveitanna ver þá

og þeir standast slöngvusteina óvinanna.+

Þeir drekka og verða háværir eins og af víni,

þeir fyllast eins og fórnarskálin,

eins og horn altarisins.+

16 Jehóva Guð þeirra bjargar þeim á þeim degi

því að þeir eru fólk hans og hjörð.+

Þeir verða eins og gimsteinar á kórónu sem glitra yfir landi hans.+

17 Mikil er gæska hans+

og mikil fegurð hans!

Ungu mennirnir dafna af korni

og meyjarnar af nýju víni.“+

10 „Biðjið Jehóva um regn þegar vorregnið á að koma.

Það er Jehóva sem myndar óveðursskýin,

sendir mönnunum regnið+

og gefur öllum gróður jarðarinnar.

 2 Húsgoðin* hafa farið með blekkingar*

og spásagnarmönnunum vitrast lygar.

Þeir segja frá gagnslausum draumum

og til einskis reyna þeir að hugga.

Þess vegna ráfar fólk um eins og sauðfé,

illa haldið því að það hefur engan hirði.

 3 Ég er hirðunum bálreiður

og læt harðstjórana* standa fyrir máli sínu.

Jehóva hersveitanna hefur snúið sér að hjörð sinni,+ Júdamönnum,

og gert þá tignarlega eins og stríðshest sinn.

 4 Frá þeim kemur leiðtoginn,*

frá þeim kemur stjórnandinn sem styður,*

frá þeim kemur stríðsboginn,

frá þeim ganga allir umsjónarmennirnir* fram, allir saman.

 5 Þeir verða eins og hermenn

sem troða forugar göturnar í stríðinu.

Þeir heyja stríð því að Jehóva er með þeim+

og riddarar óvinarins verða auðmýktir.+

 6 Ég geri Júdamenn öfluga

og bjarga ætt Jósefs.+

Ég mun leiða þá heim á ný

því að ég sýni þeim miskunn.+

Þeir verða eins og ég hafi aldrei hafnað þeim+

því að ég er Jehóva Guð þeirra og ég bænheyri þá.

 7 Efraímítar verða eins og öflugur hermaður

og hjörtu þeirra gleðjast eins og af víni.+

Synir þeirra sjá það og fagna,

hjörtu þeirra gleðjast vegna Jehóva.+

 8 ‚Ég blístra til þeirra og safna þeim saman

því að ég kaupi þá lausa+ og þeim mun fjölga.

Þeir verða alltaf fjölmennir.

 9 Þó að ég dreifi þeim eins og fræi meðal þjóðanna

muna þeir eftir mér á fjarlægum slóðum.

Þeir lifna við ásamt börnum sínum og snúa aftur.

10 Ég flyt þá heim frá Egyptalandi

og safna þeim saman frá Assýríu.+

Ég flyt þá til Gíleaðlands+ og Líbanons

og landið mun ekki rúma þá.+

11 Ég fer um hafið og ýfi það,

ég lægi öldur hafsins.+

Allir dýpstu hyljir Nílar þorna upp.

Hroki Assýríu steypist niður

og veldissproti Egyptalands skal víkja.+

12 Ég, Jehóva, geri þá öfluga+

og þeir munu ganga í nafni mínu,‘+ segir Jehóva.“

11 „Opnaðu dyrnar, Líbanon,

svo að eldur gleypi sedrustré þín.

 2 Kveinaðu, einitré, því að sedrustréð er fallið,

tignarlegum trjánum hefur verið eytt!

Kveinið, eikur Basans,

því að þéttur skógurinn er fallinn.

 3 Heyrið hvernig hirðarnir kveina

því að tign þeirra er horfin.

Heyrið hvernig ungljónin öskra

því að skógarþykkninu meðfram Jórdan hefur verið eytt.

4 Þetta segir Jehóva Guð minn: ‚Gættu sauðanna sem á að slátra.+ 5 Þeir sem kaupa þá slátra þeim+ en þurfa ekki að svara til saka. Seljendurnir+ segja: „Lof sé Jehóva því að ég verð ríkur.“ Og hirðarnir hafa enga samúð með þeim.‘+

6 ‚Ég hef ekki lengur samúð með íbúum landsins,‘ segir Jehóva. ‚Þess vegna læt ég þá falla hvern í hendur annars og í hendur konungs síns. Þeir leggja landið í rúst og ég bjarga engum þeirra.‘“

7 Ég fór að gæta sauðanna sem átti að slátra+ og ég gerði það fyrir ykkur, sauðina sem þjást. Ég tók tvo stafi og kallaði annan Velvild en hinn Sameiningu+ og ég gætti hjarðarinnar. 8 Ég rak þrjá hirða á einum mánuði því að ég gafst upp á þeim og þeir þoldu mig ekki heldur. 9 Ég sagði: „Ég ætla ekki að gæta ykkar lengur. Sá sem er deyjandi deyi og sá sem er að farast farist. Þeir sem eftir eru éti hver annars hold.“ 10 Ég tók síðan stafinn Velvild+ og hjó hann sundur og sleit þar með sáttmálanum sem ég hafði gert við fólk mitt. 11 Honum var slitið þann dag og sauðirnir sem þjáðust, þeir sem horfðu á mig, skildu að þetta var orð Jehóva.

12 Ég sagði við þá: „Greiðið mér laun mín ef ykkur hugnast það en annars skuluð þið halda þeim eftir.“ Þá greiddu* þeir mér laun mín, 30 sikla silfurs.+

13 Jehóva sagði við mig: „Kastaðu því inn í fjárhirsluna – þessu mikla fé sem þeir mátu mig til.“+ Ég tók þá silfursiklana 30 og kastaði þeim inn í fjárhirslu húss Jehóva.+

14 Síðan hjó ég sundur hinn stafinn, Sameiningu,+ og rauf bræðralag Júda og Ísraels.+

15 Og Jehóva sagði við mig: „Búðu þig nú eins og þú sért gagnslaus hirðir+ 16 því að ég læt hirði koma fram í landinu. Hann mun ekki annast sauðina sem eru deyjandi.+ Hann leitar ekki að týndum lömbum og sinnir ekki meiddum sauðum+ né fóðrar hina heilbrigðu. Í staðinn hámar hann í sig kjötið af feitu skepnunum+ og rífur klaufirnar af þeim.+

17 Illa fer fyrir gagnslausa hirðinum+ sem yfirgefur hjörðina!+

Handleggur hans og hægra auga verða sverði að bráð.

Handleggurinn lamast

og hægra augað missir alla sjón.“

12 Yfirlýsing:

„Orð Jehóva um Ísrael,“ segir Jehóva,

hann sem þandi út himininn,+

hann sem lagði grundvöll jarðar+

og gaf manninum lífsandann.*

2 „Ég geri Jerúsalem að bikar* sem fær allar þjóðirnar í kring til að skjögra. Bæði Júda og Jerúsalem verða umsetin.+ 3 Þann dag geri ég Jerúsalem að þungum steini fyrir allar þjóðir. Allir sem reyna að lyfta honum meiðast illa,+ og allar þjóðir jarðar safnast saman gegn borginni.+ 4 Þann dag,“ segir Jehóva, „fæli ég alla hesta og slæ riddarana vitfirringu. Ég hef vakandi auga með Júdamönnum en slæ alla hesta þjóðanna blindu. 5 Og furstarnir* í Júda hugsa með sér: ‚Íbúar Jerúsalem eru mér styrkur því að Jehóva hersveitanna er Guð þeirra.‘+ 6 Þann dag geri ég furstana í Júda að glóðarkeri á viði og að logandi blysi innan um kornbindi.+ Þeir munu eyða öllum þjóðunum í kring, til hægri og vinstri,+ og íbúar Jerúsalem fá að búa aftur í borg sinni,* í Jerúsalem.+

7 Jehóva byrjar á því að bjarga tjöldum Júda til að ætt Davíðs og íbúar Jerúsalem skyggi ekki á fegurð* Júda. 8 Þann dag mun Jehóva halda hlífiskildi yfir íbúum Jerúsalem.+ Þann dag verður sá sem hrasar* meðal þeirra sterkur eins og Davíð og ætt Davíðs verður voldug eins og Guð, eins og engill Jehóva sem fer á undan þeim.+ 9 Og þann dag ætla ég að útrýma öllum þjóðum sem halda gegn Jerúsalem.+

10 Ég úthelli anda velvildar og bæna yfir ætt Davíðs og íbúa Jerúsalem. Þeir horfa til hans sem þeir stungu+ og syrgja hann eins og menn syrgja einkason. Þeir gráta hann sárlega eins og menn gráta frumgetinn son. 11 Þann dag verður mikil sorg í Jerúsalem, eins og menn syrgðu í Hadad Rimmon á Megiddósléttu.+ 12 Landið mun syrgja, hver ætt fyrir sig: ætt Davíðs fyrir sig og konur hennar fyrir sig, ætt Natans+ fyrir sig og konur hennar fyrir sig, 13 ætt Leví+ fyrir sig og konur hennar fyrir sig, ætt Símeíta+ fyrir sig og konur hennar fyrir sig 14 og allar hinar ættirnar, hver ætt fyrir sig og konur þeirra fyrir sig.“

13 „Á þeim degi verður brunnur opnaður handa ætt Davíðs og íbúum Jerúsalem til að þvo burt synd og óhreinleika.+

2 Þann dag,“ segir Jehóva hersveitanna, „afmái ég nöfn skurðgoðanna úr landinu+ og þeirra verður ekki minnst framar. Ég losa landið við spámennina+ og anda óhreinleikans. 3 Og ef einhver spáir samt sem áður munu faðir hans og móðir sem komu honum í heiminn segja við hann: ‚Þú skalt ekki halda lífi því að þú hefur farið með lygar í nafni Jehóva.‘ Og foreldrar hans sem komu honum í heiminn reka hann í gegn vegna þess að hann spáði.+

4 Þann dag munu allir spámenn skammast sín fyrir sýnir sínar þegar þeir spá og þeir bera ekki spámannsklæðnað úr dýrahári+ til að villa á sér heimildir. 5 Hver og einn segir: ‚Ég er ekki spámaður. Ég er jarðyrkjumaður því að maður nokkur keypti mig sem þræl þegar ég var ungur.‘ 6 Og ef einhver spyr: ‚Hvaða sár eru þetta á líkama þínum?‘* svarar hann: ‚Ég fékk þessi sár heima hjá vinum mínum.‘“*

 7 „Sverð, rístu gegn hirði mínum,+

gegn manninum sem er mér náinn,“ segir Jehóva hersveitanna.

„Sláðu hirðinn+ þannig að hjörðin* tvístrist.+

Ég lyfti hendi minni gegn hinum lítilvægu.“

 8 „Í landinu öllu,“ segir Jehóva,

„verður tveim þriðju útrýmt og þeir gefa upp andann

en þriðjungur verður þar eftir.

 9 Þennan þriðjung leiði ég gegnum eldinn.

Ég hreinsa þá eins og silfur

og prófa þá eins og gull.+

Þeir munu ákalla nafn mitt

og ég svara þeim.

Ég segi: ‚Þeir eru fólk mitt,‘+

og þeir segja: ‚Jehóva er Guð okkar.‘“

14 „Sjáið, dagurinn kemur, dagur Jehóva, þegar herfanginu frá þér* verður skipt í þér miðri. 2 Ég safna saman öllum þjóðum til að heyja stríð gegn Jerúsalem. Borgin verður tekin, húsin rænd og konum nauðgað. Helmingur borgarbúa fer í útlegð en hinir verða eftir í borginni.

3 Jehóva fer og heyr stríð við þessar þjóðir+ eins og þegar hann berst á orrustudegi.+ 4 Á þeim degi stendur hann með fæturna á Olíufjallinu+ sem er austur af Jerúsalem og Olíufjallið mun klofna í miðju frá austri* til vesturs.* Þar myndast geysivíður dalur þegar helmingur fjallsins færist í norður og hinn í suður. 5 Þið munuð flýja í dalinn milli fjalla minna því að dalurinn milli fjallanna nær alla leið til Asel. Þið verðið að flýja eins og þið flúðuð vegna jarðskjálftans á dögum Ússía Júdakonungs.+ Jehóva Guð minn kemur og allir hinir heilögu með honum.+

6 Þann dag verður engin skínandi birta+ – allt stirðnar.* 7 Þetta verður einstakur dagur, þekktur sem dagur Jehóva.+ Hvorki verður dagur né nótt og bjart verður um kvöldið. 8 Á þeim degi streymir lifandi vatn+ frá Jerúsalem,+ helmingur þess til hafsins í austri*+ og helmingur til hafsins í vestri.*+ Þetta gerist bæði að sumri og vetri. 9 Og Jehóva verður konungur yfir allri jörðinni.+ Þann dag verður Jehóva einn+ og nafn hans eitt.+

10 Allt landið verður eins og Araba,+ frá Geba+ til Rimmon+ suður af Jerúsalem en hún verður upphafin og byggð mönnum á sínum stað,+ frá Benjamínshliði+ að staðnum þar sem Fyrsta hliðið var og allt að Hornhliðinu, og frá Hananelturni+ að vínpressum* konungs. 11 Fólk mun búa í borginni og hún verður aldrei aftur dæmd til eyðingar.+ Íbúar Jerúsalem munu búa við öryggi.+

12 Þetta er plágan sem Jehóva lætur koma yfir allar þjóðir sem heyja stríð gegn Jerúsalem:+ Hold þeirra rotnar meðan þeir standa enn í fæturna, augun rotna í augnatóftunum og tungan í munni þeirra.

13 Þann dag skapar Jehóva mikla ringulreið meðal þeirra. Þeir grípa hver í annan og hver höndin verður upp á móti annarri.*+ 14 Júda tekur einnig þátt í stríðinu í Jerúsalem og auðæfum allra þjóðanna í kring verður safnað saman, ógrynni af gulli, silfri og fatnaði.+

15 Svipuð plága kemur líka yfir hesta, múldýr, úlfalda, asna og allt búfé í búðum óvinanna.

16 Allir sem verða eftir af þjóðunum sem ráðast á Jerúsalem fara þangað ár eftir ár+ til að falla fram fyrir konunginum,* Jehóva hersveitanna,+ og til að halda laufskálahátíðina.+ 17 En ef einhver af ættflokkum jarðar fer ekki til Jerúsalem til að falla fram fyrir konunginum, Jehóva hersveitanna, fellur ekkert regn hjá honum.+ 18 Og ef Egyptar koma ekki þangað og inn í borgina rignir ekki hjá þeim. Í staðinn kemur yfir þá sama plága og Jehóva lætur ganga yfir þjóðirnar sem koma ekki til að halda laufskálahátíðina. 19 Þetta verður refsingin fyrir synd Egypta og synd allra þjóða sem koma ekki til að halda laufskálahátíðina.

20 Þann dag verður ritað á bjöllur hestanna: ‚Jehóva er heilagur.‘*+ Og pottarnir*+ í húsi Jehóva verða eins og skálarnar+ fyrir framan altarið. 21 Allir pottar* í Jerúsalem og Júda verða heilagir og tilheyra Jehóva hersveitanna og allir sem koma til að færa fórnir nota einhvern þeirra til að sjóða kjöt. Á þeim degi verður enginn Kanverji* lengur í húsi Jehóva hersveitanna.“+

Sem þýðir ‚Jehóva man‘.

Eða „Snúið aftur frá“.

Sjá viðauka B15.

Eða „sjáaldur mitt“.

Eða „allt mannkyn“.

Eða „sekt“.

Eða „hafa umsjón með forgörðum mínum; vakta forgarða mína“.

Eða „efsta“.

Orðrétt „steininn, tinið“.

„Þessir sjö“ getur átt við lampana sjö eða augu Jehóva.

Það er, greinar með ávöxtum.

Alin jafngilti 44,5 cm. Sjá viðauka B14.

Orðrétt „efan“. Hér er átt við ker eða körfu til að mæla efu. Efa jafngilti 22 l. Sjá viðauka B14.

Það er, Babýloníu.

Orðrétt „andi Jehóva hvíldist“.

Eða „tignarlega kórónu“.

Eða „og friðarsamningur verður milli embættanna tveggja“.

Eða „Tignarleg kórónan“.

Sjá viðauka B15.

Eða „til að milda Jehóva“.

Eða „musteri“.

Orðrétt „Á ég“.

Eða „munaðarleysingjum“.

Eða hugsanl. „harðan stein“, til dæmis smergilstein.

Eða „fræðslunni; leiðsögninni“.

Orðrétt „hann“.

Eða „trúfestinnar“.

Eða „landi sólarupprásarinnar og landi sólsetursins“.

Eða „trúfastur“.

Orðrétt „Styrkið hendur ykkar“.

Orðrétt „Styrkið hendur ykkar“.

Eða „og milda Jehóva“.

Eða „og milda Jehóva“.

Eða „kyrtilfald“.

Orðrétt „hvíldarstaður þess er“.

Eða „virki“.

Eða hugsanl. „fellir her hennar á hafinu“.

Fursti var ættbálkahöfðingi.

Eða „búðir sem útvörð við hús mitt“.

Eða „kúgari“.

Líklega er átt við hversu bágt fólk hans átti.

Eða „og sigursæll; og frelsaður“.

Það er, Efrat.

Eða „Skurðgoðin“.

Eða „sagt frá dulrænum málum“.

Orðrétt „geithafrana“.

Orðrétt „hornturninn“, táknmynd um mikilvægan eða áberandi mann.

Orðrétt „tjaldhællinn“, táknmynd um mann sem veitir stuðning.

Eða „verkstjórarnir“.

Orðrétt „vógu“.

Eða „andardrátt“.

Eða „skál“.

Fursti var ættbálkahöfðingi.

Eða „á réttmætum stað sínum“.

Eða „dýrð“.

Eða „sá veikbyggðasti“.

Orðrétt „milli handa þinna“, það er, á brjóstinu eða bakinu.

Eða „hjá fólki sem elskar mig“.

Eða „sauðirnir“.

Það er, Jerúsalem.

Eða „sólarupprásinni“.

Orðrétt „hafs“.

Eða „stöðvast“, eins og það stífni af kulda.

Það er, Dauðahafs.

Það er, Miðjarðarhafs.

Eða „vínþróm“.

Eða „og menn ráðast hver á annan“.

Eða „tilbiðja konunginn“.

Eða „Heilagleiki tilheyrir Jehóva“.

Eða „víðu pottarnir“.

Eða „víðir pottar“.

Eða hugsanl. „kaupmaður“.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila