Ungt fólk spyr . . .
Hvernig get ég hætt að skaða sjálfa mig?
„Mér leið hræðilega og ég hafði enga stjórn á tilfinningum mínum. En svo fann ég eitthvað sem ég gat stjórnað — líkamlegum sársauka.“ — Jennifer, 20 ára.a
„Þegar ég komst í uppnám skar ég mig. Þetta var mín leið til að gráta. Mér leið oftast betur eftir á.“ — Jessica, 17 ára.
„Ég hef ekki skorið mig í um það bil tvær vikur. Það er langur tími fyrir mig. Ég held samt að ég muni aldrei geta hætt alveg.“ — Jamie, 16 ára.
JENNIFER, Jessica og Jamie þekkjast ekki en þær eiga margt sameiginlegt. Þær voru allar í sálarkreppu og gripu til sama ráðs til að afbera kvölina. Þær fundu tímabundna lausn með því að grípa til sjálfsmeiðinga.b
Þó það hljómi kannski undarlega eru sjálfsmeiðingar — stundum líka kallaðar sjálfsmisþyrmingar eða sjálfsskaði — orðnar mjög algengar meðal táninga og ungs fólks. Kanadíska dagblaðið National Post segir að þessi hegðun „geri foreldra skelfingu lostna, námsráðgjafa ráðþrota og reyni verulega á hæfni lækna“. Blaðið bendir líka á að sjálfsmeiðingar „geti orðið ein óviðráðanlegasta fíknin sem þekkist innan læknisfræðinnar“. Hefur þú eða einhver sem þú þekkir orðið fórnarlamb þessa ávana? Ef svo er, hvað er þá hægt að gera í málinu?
Fyrst þarftu að koma auga á hvers vegna þú finnur hjá þér hvöt til að grípa til sjálfsmeiðinga. Hafðu í huga að þetta er ekki bara eitthvað sem maður gerir vegna kvíða. Yfirleitt er þetta leið til að afbera einhvers konar streitu eða álag. Líkamlegi sársaukinn er notaður til að deyfa tilfinningalegan sársauka. Spyrðu þig þess vegna: „Hvaða tilgangi þjóna sjálfsmeiðingarnar? Um hvað er ég að hugsa þegar ég finn fyrir þörfinni til að skera mig?“ Er eitthvað sem veldur þér sálarkvöl — kannski í tengslum við fjölskylduna eða vini?
Það kostar þig eflaust hugrekki að gera slíka sjálfsrannsókn. En hún er þér til góðs. Þetta er oft fyrsta skrefið í þá átt að hætta sjálfsmeiðingum. En það er ekki nóg að finna rót vandans.
Að trúa öðrum fyrir vandanum
Ef þú stundar sjálfsmeiðingar muntu hafa gagn af því að trúa einhverjum fyrir tilfinningum þínum — einhverjum sem er þroskaður og þú treystir. „Hugsýki beygir manninn, en vingjarnlegt orð gleður hann,“ segir í Biblíunni. (Orðskviðirnir 12:25) Þegar þú segir öðrum frá vandanum geturðu frekar átt von á að heyra þau hughreystandi og vingjarnlegu orð sem þú þarft á að halda. — Orðskviðirnir 25:11.
En við hvern ættirðu að tala? Það gæti verið gott að tala við einhvern sem er eldri en þú og er umhyggjusamur, þroskaður og skynsamur. Vottar Jehóva geta leitað til safnaðaröldunga sem eru „hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum, sem vatnslækir í öræfum, sem skuggi af stórum hamri í vatnslausu landi“. — Jesaja 32:2.
Það er auðvitað ekki auðvelt að segja öðrum frá leyndarmáli sínu. Þér líður kannski eins og Söru. Hún viðurkennir: „Til að byrja með fannst mér erfitt að treysta öðrum. Ég hélt að þegar fólk vissi sannleikann um mig, hver ég væri í raun og veru, myndi það fá ógeð á mér og forðast mig.“ En þegar Sara trúði öðrum fyrir vanda sínum fékk hún að sannreyna orð Biblíunnar í Orðskviðunum 18:24: „Til er ástvinur, sem er tryggari en bróðir.“ Hún segir: „Ég sagði þroskuðum trúsystkinum frá vandamáli mínu og þau gerðu aldrei lítið úr mér sama hversu ítarlega ég lýsti sjálfsmeiðingunum. Þess í stað veittu þau mér gagnleg ráð. Þau rökræddu við mig með hjálp Biblíunnar og hughreystu mig þolinmóðlega þegar mér fannst ég vonlaus og einskis virði.“
Hvers vegna ekki að tala við einhvern um sjálfsmeiðingarnar? Ef þú þorir ekki að tala við einhvern augliti til auglitis gætirðu skrifað bréf eða notað símann. Að trúa öðrum fyrir vandanum getur verið jákvætt skref í átt að bata. Jennifer segir: „Það var mér mjög dýrmætt að vita að einhverjum þótti vænt um mig og að ég hefði einhvern til að tala við þegar mér leið mjög illa.“c
Bænin er mikilvæg
Donna var komin í algerar ógöngur. Henni fannst hún þurfa á hjálp Guðs að halda en hún ímyndaði sér að hann myndi ekki veita henni stuðning fyrr en hún væri alveg hætt að skera sig. Hvað hjálpaði henni? Meðal annars að hugleiða orðin í 1. Kroníkubók 29:17 þar sem segir að Jehóva rannsaki hjartað. „Jehóva vissi að innst inni þráði ég að hætta að skera mig,“ segir Donna. „Þegar ég byrjaði að biðja til hans um hjálp var árangurinn ótrúlegur. Smám saman varð ég sterkari og sterkari.“
Sálmaskáldið Davíð varð fyrir miklu mótlæti í lífinu en hann skrifaði: „Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér.“ (Sálmur 55:23) Þú mátt vera viss um að Jehóva veit af þjáningum þínum. Þar að auki ‚ber hann umhyggju fyrir þér‘. (1. Pétursbréf 5:7) Ef hjarta þitt fordæmir þig skaltu muna að „Guð er meiri en hjarta vort og þekkir alla hluti“. Já, hann skilur hvers vegna þú stundar sjálfsmeiðingar og hvers vegna þér finnst erfitt að hætta. (1. Jóhannesarbréf 3:19, 20) Ef þú nálgast hann í bæn og reynir að sigrast á þessum ávana mun hann sannarlega „hjálpa þér“. — Jesaja 41:10.
En hvað ef þú fellur aftur í sama farið? Þýðir það að þér hafi algerlega mistekist? Alls ekki! Orðskviðirnir 24:16 segja: „Sjö sinnum fellur hinn réttláti og stendur aftur upp.“ Donna segir í sambandi við þetta biblíuvers: „Ég féll oftar en sjö sinnum en ég gafst samt ekki upp.“ Hún komst að því að þrautseigja er ómissandi. Það sama er að segja um Karen. Hún segir: „Ég lærði að líta á afturför sem tímabundið ástand, ekki endalokin, og að ég þyrfti að byrja upp á nýtt eins oft og nauðsyn krefði.“
Þegar þörf er á faglegri aðstoð
Jesús vissi að ‚þeir sem sjúkir eru þurfa læknis við‘. (Markús 2:17) Í mörgum tilfellum er nauðsynlegt að ráðfæra sig við fagmenntað fólk til að leggja mat á hvort um sé að ræða geðræna kvilla og hvaða meðferð sé heppileg.d Jennifer ákvað að fá slíka hjálp sem viðbót við stuðninginn sem hún fékk frá umhyggjusömum safnaðaröldungum. „Öldungarnir eru ekki læknar en þeir hafa veitt mér ómældan stuðning,“ segir hún. „Þó svo að löngunin til að meiða sjálfa mig komi stundum upp hefur mér tekist að stjórna henni með hjálp Jehóva og safnaðarins og með því að fylgja þeim ráðum sem ég hef fengið.“e
Þú mátt treysta því að þú getur lært að takast á við erfiðleika á betri hátt. Þú getur beðið eins og sálmaritarinn gerði: „Gjör skref mín örugg með fyrirheiti þínu og lát ekkert ranglæti drottna yfir mér.“ (Sálmur 119:133) Þú munt án efa öðlast sjálfsvirðingu og gleðjast þegar þú hefur náð tökum á þessari hegðun og hún drottnar ekki lengur yfir þér.
[Neðanmáls]
a Sumum nöfnum hefur verið breytt.
b Nánari upplýsingar um hvað sjálfsmeiðingar fela í sér og hvað veldur þeim er að finna í greininni „Ungt fólk spyr . . . Hvers vegna skaða ég sjálfa mig?“ í Vaknið! janúar-mars 2006.
c Þú gætir æft þig í að tjá tilfinningar þínar í orðum með því að skrifa þær stundum niður. Sálmaritararnir voru mjög tilfinningaríkir menn sem notuðu orð til að tjá tilfinningar eins og samviskubit, reiði, vonbrigði og sorg. Þú gætir lesið dæmi um það í Sálmi 6, 13, 42, 55 og 69.
d Stundum tengjast sjálfsmeiðingar sjúkdómum eins og þunglyndi, tvískautaröskun, áráttu- og þráhyggjuröskun eða átröskun. Vaknið! mælir ekki með einni meðferð umfram aðra. Sá sem leitar sér aðstoðar þarf að gæta þess að meðferðin stangist ekki á við meginreglur Biblíunnar.
e Vaknið! á ensku hefur birt greinar um sumt af því sem getur ýtt undir sjálfsmeiðingar. Þar má nefna greinarnar „Understanding Mood Disorders“ (8. janúar 2004), „Help for Depressed Teens“ (8. september 2001), „What Is Behind Eating Disorders?“ (22. janúar 1999) og „Young People Ask . . . An Alcoholic Parent — How Can I Cope?“ (8. ágúst 1992).
TIL UMHUGSUNAR
◼ Hvað geturðu gert í stað þess að skera þig þegar þér líður mjög illa?
◼ Við hvern geturðu talað í trúnaði ef þú stundar sjálfsmeiðingar?
[Rammi/mynd á blaðsíðu 27]
AÐ HJÁLPA ÞEIM SEM STUNDA SJÁLFSMEIÐNGAR
Hvernig geturðu hjálpað þeim sem stundar sjálfsmeiðingar, hvort sem það er einhver í fjölskyldunni eða vinur? Kannski þarf viðkomandi nauðsynlega á trúnaðarvini að halda. Þú getur því komið til aðstoðar með því að vera góður hlustandi. Reyndu að vera sannur vinur „í nauðum“. (Orðskviðirnir 17:17) Það er ekki ólíklegt að í fyrstu komist þú í uppnám og krefjist þess að sjálfsmeiðingunum sé hætt þegar í stað. En þessi aðferð mun líklega hrinda viðkomandi í burtu. Auk þess er ekki nóg að segja honum að hætta. Þú þarft að sýna skilning og innsæi til að hjálpa þeim sem stundar sjálfsmeiðingar að læra nýjar leiðir til að takast á við vandamál. (Orðskviðirnir 16:23) Og þetta tekur tíma. Sýndu því þolinmæði. Vertu „fljótur til að heyra, seinn til að tala“. — Jakobsbréfið 1:19.
Ef þú ert unglingur skaltu ekki gera ráð fyrir að þú getir veitt hjálp á eigin spýtur. Mundu að hér gæti verið á ferðinni vandamál eða sjúkdómur sem þarfnast meðferðar. Auk þess geta sjálfsmeiðingar verið lífshættulegar — þó svo að einstaklingurinn sé ekki í sjálfsvígshugleiðingum. Það er því skynsamlegt að hvetja viðkomandi til að tala við þroskaða fullorðna manneskju um málið.
[Myndir á blaðsíðu 26]
Þú ættir ekki að vanmeta gildi þess að tala við einhvern sem þú treystir og nauðsyn þess að tala við Guð í bæn.