Árangursrík þátttaka í lífsnauðsynlegu boðunarstarfi okkar
1 Páll postuli aðlagaði kynningu sína á fagnaðarerindinu aðstæðum hverju sinni til þess að hann ‚gæti að minnsta kosti frelsað nokkra.‘ (1. Kor. 9:19-23) Á sama hátt náum við meiri árangri í þjónustu okkar ef við erum vakandi fyrir því að finna hverju húsráðandinn hefur áhuga á og erum undir það búin að aðlaga umfjöllun okkar þörfum hans. Það ætti ekki að vera erfitt þegar við bjóðum Varðturninn og Vaknið! eða einn af bæklingum okkar.
2 Þú gætir kynnt þig og byrjað með því að segja með eigin orðum eitthvað á þessa leið:
◼ „Það veldur mörgum örvæntingu að sjá að stjórnmálamenn heimsins virðast ófærir um að koma fram með nothæfar lausnir á þeim vandamálum sem við blasa nú á dögum. Sumir segja vandamál sín jafnvel stjórnmálunum að kenna. Heldur þú að það gæti verið til stjórn sem gæti séð nægilega vel fyrir öllum þörfum okkar? [Gefðu kost á svari.] Veist þú að við höfum áreiðanlegt fyrirheit um stjórn sem mun tvímælalaust losa okkur við öll okkar vandamál?“ Hlustaðu vandlega á svar húsráðandans. Með hliðsjón af því sem hann segir skalt þú vera viðbúinn að grípa til einhverra af mörgum mismunandi kynningarorðum.
3 Ef athugasemdir húsráðandans gefa til kynna að hann játi kristna trú gætum við spurt hvort hann fari stundum með „Faðirvorið.“ Svari hann því játandi gætum við haft yfir fyrirmyndarbænina til loka þess er segir „til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matt. 6:9, 10) Þetta sannar að sá dagur muni koma að vilji Jehóva verði gerður á jörðinni. Síðan mætti vísa til viðeigandi greinar í Varðturninum eða Vaknið! eða til bæklings sem vinnur meira úr þessu efni, til dæmis blaðsíðu 3 í Stjórnin sem koma mun á paradís.
4 Ef húsráðandinn lætur í ljós enga trú á Guð gætir þú vitnað í Hebreabréfið 3:4 og flett síðan upp á blaðsíðu 4 í bæklingnum Ber Guð í raun umhyggju fyrir okkur? Lestu tölugrein 1 og 2 og berðu fram spurninguna sem er að finna neðst á blaðsíðunni. Að öðrum kosti getur þú tengt efni í nýlegu tölublaði við umræðuefnið.
5 Ef húsráðandinn virðist sáttur við hlutskipti sitt í lífinu gætir þú spurt:
◼ „Hvers vegna ættum við að hugleiða alvarlega það sem Biblían segir um framtíð stjórnmála heimsins?“ Síðan gætum við notað upplýsingarnar sem er að finna í Rökræðubókinni á blaðsíðu 154 og 155 og nefnt stuttlega eina eða fleiri af þeim átta ástæðum sem þar eru tilgreindar. Sýni húsráðandinn áhuga skaltu nota smáritið Mun þessi heimur bjargast? og byrja á fyrstu greininni á blaðsíðu 2 til að halda samræðunum áfram.
6 Fyrsta heimsóknin þín verður ekki að öllu leyti árangursrík ef þú vekur ekki upp löngun hjá húsráðandanum til að fá aðra heimsókn. Láttu þess vegna ekki hjá líða að koma með áhugaverða spurningu og lofa að svara henni þegar þú kemur aftur.
7 Veldu úr efninu hér að framan það sem þér finnst þægilegt að nota og segja. Aðlagaðu þessar tillögur þannig að þær falli vel að starfssvæði þínu. Kynntu þér vel bæklingana, smáritin og blöðin sem þú ætlar að nota til þess að þú getir án tafar aðlagað umfjöllun þína þörfum húsráðandans. Megum við öll undirbúa kynningarorð okkar af dugnaði „vegna fagnaðarerindisins“ og á þann hátt eiga árangursríkan þátt í þessu lífsnauðsynlega boðunarstarfi. — 1. Kor. 9:23.