Farðu aftur með gleði til að hjálpa þeim sem sýnt hafa áhuga
1 Sérhver sem tekur þátt í starfinu hús úr húsi þráir að hjálpa fólki sem hefur áhuga. Með því að veita slíka hjálp finnum við til djúprar gleði og fullnægju. (Samanber Sálm 126:5, 6.) Það krefst þess að við séum undirbúin.
2 Undirbúningur hefst með því að halda nákvæma skrá upplýsinga á millihúsaminnisblöðunum. Skrifaðu niður umræðuefnið í fyrstu heimsókninni og viðbrögð húsráðandans. Þú kannt ef til vill að vilja hripa niður hvernig þú viljir hefja samræðurnar þegar þú kemur aftur.
3 Ef þú til dæmis vitnaðir í Faðirvorið í fyrstu heimsókn og útbreiddir síðan „Stjórnarbæklinginn“ gætir þú stuttlega sagt eitthvað á þessa leið:
◼ „Þegar ég kom hingað um daginn ræddum við um hvernig vilji Guðs mun verða gerður á jörðinni og að friður muni verða að raunveruleika á öllum sviðum mannlífsins. Taktu eftir því sem sagt er á blaðsíðu 29 í bæklingnum sem þú fékkst hjá mér um aðrar blessanir sem Guðsríki mun færa mannkyninu.“
4 Ef einstaklingurinn hallaðist að vantrú á tilvist Guðs segðu þá eitthvað á þessa leið:
◼ „Í fyrri heimsókn minni ræddum við um það sem Páll bendir á í Hebreabréfinu 3:4 og gefur rökrétta ástæðu til að álykta að það hljóti að vera til gáfaður skapari allra hluta.“ Lestu ritningarstaðinn aftur og vísaðu til blaðsíðna 4 til 9 í bæklingnum Ber Guð í raun umhyggju fyrir okkur? Taktu upp þráðinn þar sem þú skildir hann eftir síðast. Spyrðu spurningarinnar og lestu síðan greinina og leyfðu húsráðandanum að svara spurningunni. Ef það hentar bjóddu honum þá að ná í bæklinginn sinn og að íhuga efnið með þér.
5 Ef húsráðandinn virtist í fyrstu heimsókn ánægður með hlutskipti sitt, efnislegt eða á annan hátt, gætir þú aftur vísað til smáritsins Mun þessi heimur bjargast? og lesið það sem stendur á blaðsíðu 6. Spyrðu hann hvort hann vilji búa á jörð sem verður fögur paradís. Til þess að þú getir betur metið hvort hann hafi áhuga getur þú beðið um athugasemdir hans varðandi mynd eða uppörvandi fullyrðingu í blaði sem þú ert að nota.
6 Þessari sömu grundvallaraðferð má beita við grein sem þú kannt að hafa verið að ræða um í Varðturninum eða Vaknið! Vitnaðu til greinarinnar sem þú vaktir athygli á í fyrstu heimsókninni og nefndu síðan annað athyglisvert atriði í sömu grein eða í öðru tölublaði sem þú hefur meðferðis. Lestu ritningarstað með húsráðandanum sé það gerlegt og biddu um álit hans.
7 Hafðu í huga markmið þitt að stofna biblíunám. Yfirleitt kostar það allmargar heimsóknir að glæða áhugann að því marki. Sýndu persónulega umhyggju þína fyrir húsráðandanum með því að fara aftur eins fljótt og hægt er.
8 Fagnaðarerindið, sem við kunngerum, færir mikla gleði. (Lúk. 2:10) Það er sannarlega mikið gleðiefni þegar áhugasamir einstaklingar bregðast vel við viðleitni okkar. (Fil. 4:1) Við skulum uppskera slíka gleði með því að fara aftur til að hjálpa áhugasömu fólki sem við finnum á akrinum.