Ungmenni — gleðjið hjarta Jehóva
1 Þegar styrkur og lífsorka ungdómsáranna er notaður á réttan hátt getur lífið sannarlega verið yndislegt. Salómon, hinn vitri konungur, skrifaði: „Gleð þig, ungi maður, í æsku þinni, og lát liggja vel á þér unglingsár þín.“ (Préd. 11:9) Þið unga fólk þurfið að standa Guði reikningsskil gerða ykkar.
2 Hvernig þú lifir lífi þínu skiptir máli, ekki aðeins fyrir þig heldur einnig fyrir foreldra þína. Í Orðskviðunum 10:1 segir: „Vitur sonur gleður föður sinn, en heimskur sonur er móður sinni til mæðu.“ En það sem skiptir jafnvel meira máli er það að hvernig þú lifir lífi þínu snertir skapara þinn, Jehóva Guð. Það er þess vegna sem Orðskviðirnir 27:11 hvetja einnig ungmenni: „Vertu vitur, sonur minn, og gleð hjarta mitt, svo að ég geti svarað þeim orði, sem smána mig.“ Hvernig getið þið ungmenni glatt hjarta Jehóva nú á tímum? Það er hægt á margan hátt.
3 Með réttu fordæmi: Þið unga fólkið fáið nú að reyna þær ,örðugu tíðir‘ sem orð Guðs spáði um. (2. Tím. 3:1) Þið kunnið einnig að sæta þrýstingi frá skólafélögum ykkar, sem ekki eru í trúnni, og jafnvel frá kennurum sem ef til vill hæðast að viðhorfum ykkar sem byggð eru á Biblíunni. Til dæmis kynnti kennari nokkur þróunarkenninguna sem staðreynd og Biblíuna sem goðsögn. Ungur boðberi í þeim bekk varði hins vegar Biblíuna trúfastlega. Það leiddi til þess að stofnuð voru mörg biblíunám. Sumir hinna áhugasömu fóru að sækja samkomur. Trú ykkar, ungu bræður og systur, fordæmir hinn óguðlega heim og laðar hreinhjartað fólk að sannleikanum. — Samanber Hebreabréfið 11:7.
4 Getur þú hvatt jafnaldra þína í söfnuðinum svo að þeir láti ekki undan því sem illt er? Með því að setja gott fordæmi í skólanum, heima og í söfnuðinum getur þú styrkt trú hinna boðberanna sem ungir eru. (Rómv. 1:12) Gleddu hjarta Jehóva með því að vera öðrum til fyrirmyndar.
5 Með klæðaburði og snyrtimennsku: Ungri systur var strítt og hún höfð að athlægi vegna látlauss klæðaburðar og var kölluð „ósnertanleg.“ Hún lét það þó ekki hræða sig til að fylgja óguðlegum mælikvarða heimsins. Þess í stað gaf hún þá skýringu að hún væri einn votta Jehóva og að hún héldi sér við hinn háa mælikvarða vottanna. Hefur þú slíkt sálarþrek eða leyfir þú heimi Satans að móta þig þannig að þú hugsir og hegðir þér eins og hann? Það er sannarlega ánægjulegt að sjá að mörg ykkar ungmennanna takið til ykkar kennslu Jehóva og hafnið subbulegum stíl, tískufyrirbærum, átrúnaðargoðum og kenningum heimsins. Eins og við lærðum nýlega á landsmótinu okkar verðum við að gera okkur fullkomlega ljóst að áhrifa illu andanna gætir í þessum hlutum sem eru frá heiminum! —1. Tím. 4:1.
6 Með vali á skemmtiefni og afþreyingu: Foreldrar verða að hafa hugfasta nauðsyn þess að hjálpa börnum sínum að vera vitur og velja rétta tegund skemmtiefnis og afþreyingar. Bróðir talaði lofsamlega um góða fjölskyldu sem honum hafði farið að þykja mjög vænt um. Foreldrarnir voru andlega sinnaðir og veittu þar af leiðandi leiðsögn sem náði einnig til afþreyingar fjölskyldunnar. Bróðirinn sagði: ,Ég dáist að því hvernig þau gera hlutina saman. Foreldrarnir hjálpa börnunum ekki aðeins að búa sig undir boðunarstarfið heldur, þegar kominn er tími til afþreyingar, skemmta þau sér saman með því að fara í gönguferðir, fara í söfn eða vera bara heima og leika sér eða vinna saman að einhverju verkefni. Kærleikur þeirra hvert til annars og til annarra sannfærir mann um það að þau munu ganga í sannleikanum í framtíðinni, hvað sem á dynur.‘
7 Að sjálfsögðu koma þær stundir þegar ekki er gerlegt fyrir alla fjölskylduna að taka þátt í afþreyingu eða skemmtun. Þið unga fólk þurfið að hafa það í huga og muna að það er alvörumál að ákveða hvernig þið verjið hluta af frítíma ykkar. Satan er staðráðinn í að afvegaleiða eins marga og hann getur. Hinir ungu og óreyndu eru sér í lagi berskjaldaðir fyrir slægum athöfnum hans og villandi fortölum. (2. Kor. 11:3; Ef. 6:11) Þannig notar Satan nú á tímum margvíslegar aðferðir til að tæla þig út af sporinu og fá þig til að leggja þig eftir lífsháttum þeirra sem sækjast síngjarnir eftir skemmtun og ranglæti.
8 Sjónvarpið er meistari í að glepja fyrir fólki og það ýtir undir efnishyggju og siðlausa lífshætti. Kvikmyndir og myndbönd sýna iðulega ofbeldi og opinská kynlífsatriði. Dægurtónlist er í vaxandi mæli orðin auvirðileg og klúr. Tálbeitur Satans sýnast ef til vill sakleysislegar en þær hafa engu að síður látið þúsundir kristinna ungmenna falla í gryfju rangrar hugsunar og hegðunar. Til að standast slíkan þrýsting verður þú að leggja þig af öllum kröftum fram við að ástunda réttlæti. (2. Tím. 2:22) Ef leiðrétta þarf hugsun manns eða hegðun hvað snertir skemmtun eða afþreyingu, hvernig er þá hægt að gera það? Sálmaritarinn svarar: „Ég leita þín af öllu hjarta, lát mig eigi villast frá boðum þínum.“ — Sálm. 119:10.
9 Það er algengt að íþróttastjörnur og skemmtikraftar séu gerðir að átrúnaðargoðum. Ótti Jehóva mun hjálpa þér að forðast það að dýrka ófullkomna menn. Margir nú á tímum dýrka jafnvel kynferðislegt siðleysi. Þú getur verið á varðbergi gegn þessari tilhneigingu með því að forðast klám og siðspillandi tónlist. Varðturninn, tölublaðið frá 1. september 1993, komst svo að orði varðandi tónlist: „Tónlist er Guðs gjöf. Margir gera sig hins vegar svo upptekna af henni að ekkert annað kemst að. . . . Settu þér það markmið að halda tónlist í réttu hófi og láta gerðir Jehóva vera aðalhugðarefni þitt. Vertu vandfýsinn og gætinn í vali þínu á tónlist. Þá getur þú notað — ekki misnotað — þessa gjöf Guðs.“
10 Ræktaðu með þér algeran viðbjóð á því sem er illt. (Sálm. 97:10) Þegar þín er freistað til að gera það sem illt er skaltu hugsa um hvernig Jehóva lítur á málið og hugleiddu afleiðingarnar: óvelkomnar þunganir, samræðissjúkdómar, tilfinningalífið í rúst, glötuð sjálfsvirðing og missir sérréttinda í söfnuðinum. Forðastu sjónvarpsefni, kvikmyndir, myndbönd, lög eða samræður sem ýta undir rangsleitni. Forðastu félagsskap við þá sem Biblían flokkar sem ,heimskingja.‘ (Orðskv. 13:19) Vertu vandfýsinn; veldu sem nána félaga þá í söfnuðinum sem elska Jehóva og réttláta staðla hans.
11 Já, ungmenni, sem í sannleika vilja gleðja hjarta Jehóva, munu fylgja hinu góða ráði sem er að finna í Efesusbréfinu 5:15, 16: „Hafið því nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir. Notið hverja stund, því að dagarnir eru vondir.“ Hvað mun hjálpa ykkur að hafa „nákvæma gát“ á framförum ykkar á þessum síðustu dögum?
12 Andlegum þörfum sinnt sem skyldi: Í Matteusi 5:3 segir Jesús: „Sælir eru fátækir í anda“ eða, eins og Nýheimsþýðingin orðar það, „Sælir eru þeir sem skynja andlega þörf sína.“ Þið getið einnig verið sæl með því að bera skyn á andlega þörf ykkar. Til að fullnægja þeirri þörf þarf meðal annars kostgæfa þátttöku í prédikun fagnaðarerindisins af því að það byggir upp trú okkar á það sem við erum að læra. — Rómv. 10:17.
13 Af persónulegri reynslu vitið þið að það er ekki alltaf auðvelt að taka reglulega þátt í boðunarstarfinu. Það getur að verulegu leyti stafað af ónógu sjálfstrausti. Þess vegna er nauðsynlegt að þið sýnið mikla staðfestu. Með því að taka reglulega þátt í boðunarstarfinu munuð þið verða leiknari í að bera vitni og treysta æ betur á hæfni ykkar til að prédika fagnaðarerindið um Guðsríki og fara rétt með orð sannleikans.
14 Gerið ráðstafanir til að starfa með reyndari boðberum í söfnuðinum, eins og reglulegu brautryðjendunum og öldungunum. Hlustið gaumgæfilega á kynningarorð þeirra og hvernig þeir takast á við mótbárur húsráðenda. Nýtið ykkur vel Rökræðubókina og þær tillögur sem settar eru fram í Ríkisþjónustu okkar. Áður en langt um líður munuð þið hafa jafnvel enn meiri ánægju af boðunarstarfinu af því að þið eruð heilshugar gagnvart Jehóva. — Post. 20:35.
15 Sumum hefur tekist að nýta sér tækifæri til að bera vitni í skólanum og hafa náð verulegum árangri í að gera aðra að lærisveinum. (Matt. 28:19, 20) Ungur kristinn maður segir: „Í frímínútum gáfust mér mörg tækifæri til að bera vitni, einkum þegar helgidagar voru í nánd. Þegar ég lét biblíurit liggja á borðinu mínu þar sem aðrir gátu séð þau gáfu margir áhugasamir nemendur sig á tal við mig.“ Svo fór að allmargir nemendanna og jafnvel kennarinn fóru að sækja kristnar samkomur. Kennarinn hefur meira að segja tekið svo miklum framförum að hann er orðinn vígður vottur. Jehóva gleðst stórlega þegar ungir tilbiðjendur eins og þið eruð nafni hans til lofs.
16 Önnur leið til að fullnægja andlegum þörfum ykkar er einkanám. Til að gleðja hjarta Jehóva verðum við að afla okkur þekkingar á honum, tilgangi hans og þeim kröfum sem hann gerir til okkar. Takið þið ykkur tíma til einkanáms? Nemið þið reglulega á sama hátt og þið takið ykkur tíma reglulega til að borða? (Jóh. 17:3) Hafið þið sett upp ykkar eigin tímaáætlun til biblíulestrar auk þess að reyna að halda í við biblíulestraráætlunina fyrir Guðveldisskólann? Undirbúið þið ykkur vel fyrir allar samkomurnar? Lesið þið Varðturninn og Vaknið! reglulega? Og reynið þið sérstaklega að taka ykkur tíma til að lesa hverja grein í greinaröðinni „Ungt fólk spyr . . .“ og gæta þess að fletta upp öllum ritningarstöðunum? Og gleymið ekki bókinni sem Félagið hefur sérstaklega útbúið til að mæta andlegum þörfum ykkar, Spurningar unga fólksins — svör sem duga. Kristin ungmenni og foreldrar þeirra um víða veröld hafa skrifað til að segja hvernig þessi bók hafi hjálpað þeim að nálgast Jehóva enn meir.
17 Þegar þið lesið Biblíuna og guðveldisleg hjálpargögn til biblíunáms segja þau ykkur frá Jehóva, hugsunum hans og fyrirætlunum hans. Veltið því fyrir ykkur hvernig þessar upplýsingar gætu komið ykkur að gagni. Tengið það sem þið lesið við það sem þið hafið áður lesið. Það þýðir að þið verðið að hugleiða efnið. Slík hugleiðing leyfir upplýsingunum að ná til hjartans og knýja ykkur til verka. — Sálm. 77:13.
18 Það er okkur fagnaðarefni að sjá ungmenni, sem bera skyn á andlega þörf sína, sækja safnaðarsamkomurnar. Þið kristnu ungmenni getið uppörvað aðra með því að gefa reglulega innihaldsríkar athugasemdir á samkomunum. Gerið það að markmiði ykkar að gefa að minnsta kosti eina athugasemd á hverri samkomu. Byggið upp hlýlegt samband við fólk af öllum aldurshópum í söfnuðinum með því að taka þátt í uppbyggjandi samskiptum fyrir og eftir samkomurnar. (Hebr. 10:24, 25) Ungur bróðir greinir frá því að foreldrar hans hafi hvatt hann til að halda uppi samræðum við í það minnsta einn eldri bróður eða systur á hverri samkomu. Núna kann hann að meta þá reynslu sem hann öðlaðist með því að eiga félagsskap við eldri meðlimi safnaðarins.
19 Leggið kapp á að ná andlegum markmiðum: Það er leitt til þess að vita að líf margra ungmenna skortir tilgang og stefnu. Er það hins vegar ekki gott að fá að reyna þá tilfinningu sem fylgir því að setja sér guðveldisleg markmið og ná þeim síðan á fullnægjandi hátt? Þessi markmið, sem keppt er að með upplýsandi menntun frá Guði að vopni, munu veita persónulega fullnægingu núna og munu áður en yfir lýkur leiða til eilífs hjálpræðis. — Préd. 12:1, 13.
20 Þegar þú setur þér markmið skaltu gera það að bænarefni þínu. Talaðu við foreldra þína og öldungana. Skoðaðu sjálfan þig og hæfileika þína og settu þér raunhæf markmið í samræmi við það sem þú getur gert og afkastað en ekki með samanburði við einhvern annan. Allir eru á einhvern hátt frábrugðnir öðrum — líkamlega, tilfinningalega og hvað snertir skapgerð og andlegan þroska. Þú skalt þess vegna ekki búast við að geta gert allt sem einhver annar gerir.
21 Hver eru sum þeirra markmiða sem þú gætir keppt að? Ef þú ert ekki enn þá boðberi eða ekki enn þá skírður, því þá ekki að gera það að markmiði þínu? Ef þú ert boðberi gætir þú gert það að markmiði þínu að ná vissum tíma í boðunarstarfinu í hverri viku. Þú skalt vinna að því að verða hæfur kennari í endurheimsóknum og gerðu það að markmiði þínu að stýra biblíunámi. Ef þú ert skírður unglingur í skóla, hvers vegna þá ekki að gera það að markmiði þínu að vera aðstoðarbrautryðjandi yfir sumarmánuðina? Það er alltaf nóg að gera í verki Drottins. — 1. Kor. 15:58.
22 Aðstoð frá foreldrum er alger nauðsyn: Ungmennum í söfnuðinum ætti aldrei að finnast þeir standa einir í viðleitni sinni til að öðlast lífið. Jehóva hefur fyrir milligöngu skipulags síns séð fyrir ráðleggingum til að aðstoða þetta unga fólk við að taka daglegar ákvarðanir og yfirstíga hindranir sem verða á vegi þeirra í lífinu. Það er að sjálfsögðu fyrst og fremst á ábyrgð vígðra foreldra að hjálpa börnum sínum að taka réttar ákvarðanir. Í 1. Korintubréfi 11:3 sýnir Biblían að eiginmaðurinn sé höfuð heimilisins. Á kristnu heimili tekur þess vegna faðirinn forystuna í því að kenna börnunum boð Guðs í nánu samstarfi við eiginkonu sína. (Ef. 6:4) Þetta er gert með samviskusamlegu uppeldi sem hefst meðan barnið er enn í vöggu. Þar sem stærð barnsheilans þrefaldast á fyrsta árinu ættu foreldrar aldrei að vanmeta getu ungbarnsins til að læra. (2. Tím. 3:15) Er börnin stækka þurfa foreldrarnir stig af stigi að kenna þeim að elska Jehóva og rækta gott samband við hann.
23 Á landsmótinu „Kennsla Guðs,“ var flutt ræða sem bar heitið „Leggðu hart að þér til að fjölskylda þín hljóti hjálpræði.“ Bent var á ýmis atriði sem hjálpa foreldrum að koma auga á raunhæfar leiðir til að aðstoða börnin sín. Gott fordæmi foreldranna er besta byrjunin. Það mun koma börnum ykkar að meira gagni andlega en að vera sí og æ að segja þeim hvað þau ættu eða ættu ekki að gera. Rétt fordæmi ykkar sem foreldrar felur meðal annars í sér að þið sýnið ávexti andans innan heimilisins, í samskiptum við maka ykkar og börn. (Gal. 5:22, 23) Margir hafa séð af reynslunni að andi Guðs er öflugur áhrifavaldur til góðs. Hann getur hjálpað ykkur að móta hugi og hjörtu barna ykkar.
24 Á mótinu var einnig minnst á nauðsyn þess að foreldrarnir settu gott fordæmi hvað varðaði einkanámsvenjur, samkomusókn og reglulega þátttöku í boðunarstarfinu. Ef þú talar af eldmóði um sannleikann á heimilinu, tekur af kostgæfni forystuna í boðunarstarfinu og ert jákvæður gagnvart einkanámi mun það hvetja börnin þín til að sýna andlegum málefnum einlægan áhuga.
25 Þegar reglulegt og innihaldsríkt fjölskyldubiblíunám er undirbúið af vandvirkni getur það verið áhugavert og ánægjulegt, stund sem styrkir samheldni fjölskyldunnar. Taktu þann tíma sem þarf til að ná til hjartna barna þinna. (Orðskv. 23:15) Enda þótt margar fjölskyldur noti þetta tækifæri til að búa sig undir vikulega Varðturnsnámið gæti það verið uppörvandi af og til að fjalla um sérstaka þörf fjölskyldunnar. Það mun bæði vera fróðlegt og hressandi að spyrja viðhorfsspurninga og hlusta síðan á athugasemdir hvers fjölskyldumeðlims. Það er svo sannarlega áskorun fyrir höfuð fjölskyldunnar að stjórna námi sem kemur öllum meðlimum hennar að gagni. En hversu mikil umbun er það ekki þegar andlegur þroski allra eykst. Með því að láta alla vera virka þátttakendur mun ánægjulegur andi vera allsráðandi í fjölskyldunáminu.
26 Til þess að bjarga lífi barna þinna er bráðnauðsynlegt að þú veitir þeim kærleiksríka, sérhæfða þjálfun núna. (Orðskv. 22:6) Með það í huga er auðvelt að skilja að þetta gæti vel reynst mikilvægasta kennslan sem þú munt nokkurn tíma veita. Þú skalt aldrei halda að þú sért einn þíns liðs við þetta sérstaka og mikilvæga verkefni. Lærðu að reiða þig mjög á leiðsögn frá Jehóva er þú sinnir fjölskylduábyrgð þinni. En með því er ekki allt upptalið. Aðrir geta einnig orðið til mikillar aðstoðar.
27 Það sem aðrir geta gert til hjálpar: Þegar öldungar skipuleggja hreinsun ríkissalarins geta þeir tekið unga fólkið, ásamt foreldrum þess, með í myndina. Uppörvið börnin á safnaðarsamkomum. Öldungar og safnaðarþjónar, sem annast atriði á þjónustusamkomum, ættu að svipast um eftir litlum uppréttum höndum þegar vænst er þátttöku áheyrenda. Leitið að tækifærum til að nota í sýnikennslum börn sem eru til fyrirmyndar ásamt foreldrum þeirra. Hafa má viðtöl við sum þeirra og þau gætu gefið stuttar athugasemdir.
28 Takið ekki viðleitni þeirra sem sjálfsagðan hlut. Börn og unglingar hafa reynst söfnuðinum mjög verðmæt. Með góðri hegðun sinni hafa þau mörg hver verið „prýði kenningu Guðs frelsara vors.“ (Tít. 2:6-10) Verið vakandi fyrir þörfinni á að hrósa hinum ungu sem taka þátt í samkomunum þótt það sé í smáum mæli. Það hvetur þau til að undirbúa sig og lætur þau langa til að gera það aftur í framtíðinni. Slíkur áhugi, sem börnunum er sýndur, verður ekki metinn til fjár; hann er ómetanlegur. Hve oft hefur þú sem öldungur eða safnaðarþjónn farið til yngri meðlima safnaðarins til að hrósa þeim fyrir ræðu eða hlutdeild þeirra í atriði á samkomu?
29 Brautryðjendur, hvað getið þið gert til hjálpar? Hvers vegna ekki að líta yfir tímaáætlun ykkar til að aðgæta hvernig rúma megi skólabörn í starfsáætlun ykkar síðdegis og um helgar? Talið þið jákvætt um að hafa valið þjónustu í fullu starfi? Sýnið þið með yfirbragði ykkar að þið hafið gleði af boðunarstarfi ykkar? Mælið þið óhikað með því við aðra, einkum þá yngri? Þegar þið eruð að starfa hús úr húsi er þá tal ykkar uppbyggjandi og jákvætt? Sé raunin sú, þá takið þið sem brautryðjendur einnig þátt í þessu mjög svo mikilvæga þjálfunarstarfi.
30 Allir í söfnuðinum ættu að vera vel vakandi fyrir þessu mikilvæga verki að þjálfa þá sem ungir eru. Getur þú gert ákveðnar ráðstafanir til að starfa með þeim úti á akrinum? Getur þú æft með þeim kynningarorð til undirbúnings starfinu hús úr húsi? Ert þú vakandi fyrir tækifærum til að hvetja þá til andlegra starfa í framtíðinni þegar þú ert í boðunarstarfinu með þeim? Sérhver boðberi ætti að gera sér ljóst að jafnvel minnsta athugasemd getur komið af stað jákvæðum hugsunum er leiða til andlegra markmiða fyrir lífstíð, ungmenninu til eilífs hagnaðar.
31 Ungt fólk getur hjálpað sér sjálft: Ungmenni, við hvetjum hvert og eitt ykkar til að halda áfram að fylgja kenningum Jehóva og hafna því sem heimurinn býður. Reynið ykkur sjálf án afláts með því að rannsaka hegðun ykkar og innstu tilfinningar. Hvert er viðhorf ykkar til Jehóva og þess sem hann ætlast til af ykkur í daglega lífinu? Berjist þið harðri baráttu gegn áhrifum hugmynda Satans? (1. Tím. 6:12) Þar sem menn, og þá sér í lagi ungt fólk, þrá eðlilega að njóta viðurkenningar félaga sinna og jafnaldra, standið þið ykkur þá að því að finnast mjög lokkandi að fylgja fjöldanum til illra verka? (2. Mós. 23:2) Páll postuli skildi að mjög er þrýst á menn að þeir lagi sig að háttum heimsins. — Rómv. 7:21-23.
32 Það krefst hugrekkis að spyrna á móti áhrifum heimsins, velja aðra stefnu en veraldlegir félagar og jafnaldrar gera og fylgja kenningum Guðs. Menn til forna gerðu það með mjög góðum árangri. Hugleiddu hugrekki Nóa. Hann fordæmdi heilan heim með trú sinni og með því að halda sér aðgreindum frá illræðismönnum síns tíma. (Hebr. 11:7) Leggðu út í harða baráttu af því að hún er erfiðisins virði. Líktu ekki eftir hinum veikgeðja, kjarklausu og hræddu sem fylgja múgi Satans. Þvert á móti skaltu sækjast eftir félagsskap við þá sem eru velþóknanlegir í augum Jehóva. (Fil. 3:17) Safnaðu í kringum þig félögum sem munu þramma þér við hlið inn í nýja heiminn sem Guð hefur gefið traust fyrirheit um í orði sínu. (Fil. 1:27) Hafðu hugfast að það er aðeins einn vegur sem leiðir til eilífs lífs. — Matt. 7:13, 14.
33 Ef við höfum gleði af því að sjá ungmenni verða Guði okkar til lofs og heiðurs, hversu mjög hlýtur það þá ekki að gleðja hann! Á því er enginn vafi að það gleður Jehóva að sjá ungt fólk eiga fulla hlutdeild í að kunngera stórkostlegar fyrirætlanir hans. Ungmennin eru „gjöf“ frá honum og hann vill þeim aðeins hið besta. (Sálm. 127:3-5; 128:3-6) Jesús Kristur hafði mikla ánægju af félagsskap við ung börn og endurspeglaði þar áhuga föður síns og hann tók sér tíma til að uppörva þau í tilbeiðslu þeirra á Jehóva. Hann sýndi blítt kærleiksþel gagnvart þeim. (Mark. 9:36, 37; 10:13-16) Lítum við ungmennin okkar sömu augum og Jehóva og Kristur Jesús gera? Er unga fólkinu í söfnuðum okkar ljóst hvaða augum Jehóva og englarnir líta á trúfesti þess og gott fordæmi? Það ætti að hrósa því og hvetja það til að gleðja Jehóva með því að keppa að andlegum markmiðum. Ungmenni, leggið ykkur eftir markmiðum sem munu færa ykkur blessun núna og í framtíðinni.