Gildi Biblíunnar í heimi nútímans
1 Nú á dögum álíta margir Biblíuna úrelta og óraunhæfa. Þó að hún sé útbreiddasta og mest þýdda bókin í allri sögu mannkynsins lesa hana tiltölulega fáir og enn færri fylgja leiðsögn hennar.
2 Á hinn bóginn metum við Biblíuna sem orð Guðs. Staðreyndirnar sýna að hún er sagnfræðilega sönn. Þar að auki sýnir eftirtektarvert innra samræmi Biblíunnar, spádómar hennar, viska hennar og áhrif hennar til góðs í lífi manna að hún er „innblásin af Guði.“ (2. Tím. 3:16) Okkar eigin reynsla og þakklæti fyrir þessa dásamlegu gjöf ætti að fá okkur til að hvetja aðra til að rannsaka hið sanna gildi hennar.
3 Ein leið gæti verið:
◼ „Í ljósi þeirra alvarlegu vandamála, sem mannkynið stendur frammi fyrir, finnst mörgum erfitt að trúa á Guð eða þeir efast um að Guð geti leyst þau vandamál sem við okkur blasa. Hvað álítur þú? [Gefðu kost á svari.] Taktu eftir heiti þessa smárits, Hvers vegna þú getur treyst Biblíunni.“ Beindu athyglinni að forsíðumyndinni og lestu síðan fyrstu tvær efnisgreinarnar á blaðsíðu 2. Ef húsráðandinn sýnir áhuga gætir þú lesið og rætt um ritningarstaðina sem önnur efnisgreinin vísar í. Gerðu ráðstafanir til að koma aftur til að athuga smáritið nánar — ef til vill með því að nota eina af undirfyrirsögnunum sem spurningu til að örva áhugann.
4 Önnur leið gæti verið eitthvað þessu líkt:
◼ „Ert þú ekki sammála því að mannkynið þarfnist leiðsagnar til að kljást við vandamál lífsins? [Gefðu kost á svari.] Áður fyrr leitaði fólk oft leiðsagnar í Biblíunni en nú eru breyttir tímar. Telur þú að Biblían hafi hagnýtt gildi nú á dögum? [Gefðu kost á svari.] Taktu eftir því sem sagt er í 2. Tímóteusarbréfi 3:16. [Lestu.] Ritað orð Guðs hjálpar okkur ekki aðeins að taka viturlegar ákvarðanir heldur gefur líka áreiðanlega von um bjarta framtíð.“ Lestu Jóhannes 17:3. Ef húsráðandinn bregst vel við skaltu benda á eitt eða tvö atriði sem þú ert búinn að velja frá bókinni Er Biblían í raun og veru orð Guðs? til að gefa dæmi um hagnýtt gildi Biblíunnar.
5 Þér kann að finnast gagnlegt að nota eitthvað af inngangsorðunum á blaðsíðu 10 í Rökræðubókinni undir undirfyrirsögninni „Biblían/Guð.“ Frekari upplýsingar eru settar fram á blaðsíðu 58-68 sem geta komið að gagni við að svara spurningum húsráðenda eða til að sigrast á andmælum þeirra.
6 Að bjóða bæklinginn Ber Guð í raun umhyggju fyrir okkur?: Ef nægur áhugi er fyrir hendi í fyrstu heimsókn eða í endurheimsókn má bjóða þennan bækling. Þú gætir spurt: „Hvað er það sem gerir Biblíuna merkilegustu bók allra tíma?“ Hvernig svo sem viðmælandi þinn svarar því gætir þú beint athyglinni að einhverjum þeirra gagnlegu upplýsinga um Biblíuna sem fram koma í 4. hluta bæklingsins. Þú gætir einnig notað eitt eða tvö atriði frá blaðsíðu 58-66 í Rökræðubókinni.
7 Vertu vakandi fyrir tækifærum til að hvetja fólk til að lesa Biblíuna. Hjálpaðu áhugasömu fólki að rækta með sér virðingu fyrir orði Guðs og kærleika til þess. Það mun hafa margvíslegan hagnað af, bæði núna og í framtíðinni, ef það beitir frumreglum Biblíunnar í lífi sínu og aflar sér nákvæmrar þekkingar á sannleikanum. — Sálm. 119:105.