Hafðu stöðuga gát á fræðslu þinni
1 Nýja námsskrá Guðveldisskólans hefst í janúar 1995. Hvað er nýtt í námsskránni? Hin spennandi saga nútímaskipulags Jehóva verður umræðuefnið í flestum kennsluræðunum. Á árinu verður farið yfir 178 blaðsíður í bókinni Vottar Jehóva — boðendur ríkis Guðs. Þar sem engar upprifjunarspurningar verða að lokinni kennsluræðu úr Boðendabókinni hvað getum við þá gert til að hafa gát á fræðslu okkar og hafa sem mest gagn af þessari yfirferð bókarinnar? — 1. Tím. 4:16.
2 Þó að margir séu ef til vill þegar búnir að lesa Boðendabókina mun umfjöllun efnisins á dagskrá skólans hjálpa öllum að meta enn betur guðræðislega arfleifð sína. (Sálm. 71:17, 18) Hví ekki taka frá svolítinn tíma í hverri viku til að fara yfir hið úthlutaða efni í Boðendabókinni?
3 Líflegar og áhugaverðar kennsluræður: Kennsluræður frá Boðendabókinni ætti að flytja líflega og setja efnið fram á áhugaverðan hátt. Þær ættu einnig að draga skýrt fram hagnýtt gildi upplýsinganna, nota þær til að auka virðinguna fyrir skipulagi Jehóva og dýpka þakklæti okkar fyrir þau sérréttindi sem við njótum að vera þjónar Guðs. Ef hver fjölskylda, sem sækir skólann, tekur með sér eintak af Boðendabókinni geta fjölskyldumeðlimirnir fylgst betur með kennsluræðunni og haft gagn af teikningunum og ljósmyndunum í bókinni.
4 Biblíulestur sem örvar hugsunina: Góður lestur með réttum áherslum og tilfinningu er mikilvægur þáttur áhrifaríkrar fræðslu. Auk þess er efnið, sem úthlutað er til lestrar í ræðu nr. 2, ekki svo yfirgripsmikið og þar af leiðandi gefst ræðumanninum yfirleitt kappnógur tími til athugasemda í inngangi og niðurlagi ræðunnar. Inngangurinn ætti að örva áhuga áheyrendanna á hinu úthlutaða efni og búa þá undir að skynja hagnýtt gildi þess. Í niðurlaginu mætti meðal annars koma með útskýrandi athugasemdir og heimfærslu efnisins og ætti ræðumaðurinn að nota hinn úthlutaða tíma til fulls.
5 Frekari upplýsingar um dagskrá Guðveldisskólans og um hvernig meðhöndla skal verkefnin sem nemendum hans er úthlutað má finna í „Námsskrá Guðveldisskólans fyrir árið 1995.“ Við höfum gát á fræðslu okkar með því að skoða vandlega leiðbeiningarnar sem þar eru gefnar, með því að undirbúa verkefni okkar vel og samviskusamlega, og með því að taka til okkar þau ráð sem við fáum til þess að taka framförum í þeirri list að kenna og fræða. Þeim sem hafa ekki enn látið skrá sig í skólann er hjartanlega boðið að gera það.