Umsjónarmenn sem fara með forystuna — Varðturnsnámsstjórinn
1 Blaðið Varðturninn kunngerir ríki Jehóva er aðalboðleiðin sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ notar til að sjá okkur fyrir andlegri fæðu „á réttum tíma.“ (Matt. 24:45) Mikil ábyrgð hvílir á þeim öldungi sem stjórnar Varðturnsnáminu. Hann þarf að vera hæfur kennari sem setur gott fordæmi með kristnu líferni sínu. — Rómv. 12:7; Jak. 3:1.
2 Til að veita áhrifaríka kennslu þarf Varðturnsnámsstjórinn að leggja sig allan fram við undirbúninginn í hverri viku. Hann undirbýr sig vandlega og í bænarhug. Einlægur áhugi hans fyrir söfnuðinum endurspeglast í viðleitni hans til að láta námsefnið snerta hjarta okkar. Hann einbeitir sér að aðalatriðum námsefnisins og leiðir okkur fyrir sjónir hvernig þau tengjast stefi greinarinnar.
3 Rækilegur undirbúningur hans felur í sér að fletta upp rintningarstöðunum fyrirfram til að vita hvernig þeir snerta efnið. Hann lætur orð Guðs skipa æðstan sess með því að hvetja söfnuðinn til að nota Biblíuna vel í náminu. Þegar mikilvægt atriði kemur ekki fram í svörum safnaðarins eða þegar láðst hefur að vitna í lykilritningarstað, varpar hann fram markvissum aukaspurningum til að draga þessar upplýsingar fram. Þannig hjálpar hann okkur að komast að réttri niðurstöðu og átta okkur á hvernig við getum hagnýtt okkur í lífinu það sem við lærum.
4 Varðturnsnámsstjórinn reynir eftir fremsta megni að bæta kennsluhæfileika sína stig af stigi. Hann talar ekki óhóflega mikið sjálfur heldur hvetur okkur til að tjá okkur — með eigin orðum, stutt og hnitmiðað. Hann getur af og til minnt okkur á að sá sem fyrstur kemur með svar við hverri tölugrein ætti að vera stuttorður og svara neðanmálsspurningunni beint. Viðbótarskýringar samkomugesta gætu síðan beint athyglinni að heimfærslu ritningarstaða, frekari rökum eða bent á hagnýtt gildi efnisins. Varðturnsnámsstjórinn reynir að örva alla til þátttöku með því að hvetja þá til að undirbúa sig og fjölskyldur til að undirbúa sig sameiginlega.
5 Við sem erum „lærisveinar [Jehóva]“ metum mikils „gjafir í mönnum“ svo sem Varðturnsnámsstjóra sem „erfiða í orðinu og í kennslu.“ — Jes. 54:13; Ef. 4:8, 11, NW; 1. Tím. 5:17.