Minnumst hátíðlega þess dauða sem gefur von um eilíft líf
1 Við munum, eftir sólarlag hinn 6. apríl 1993, minnast hátíðlega dauða höfðingja lífsins. (Post. 3:15) Sannarlega er það viðeigandi að minnast lífs og dauða Jesú Krists. Von okkar um eilíft líf hvílir á úthelltu blóði Jesú.
2 Minningarhátíðin undirstrikar vel mikilvægi dauða Krists í framvindu fyrirætlunar Jehóva. Sú fyrirætlun felur í sér að koma fram með þá fullkomnu mannsfórn sem þurfti til að endurleysa afkomendur Adams og þar með gera milljörðum manna mögulegt að iðka trú og lifa að eilífu á jörð sem verður paradís. — Jóh. 3:16.
3 Allir sem unna sannleikanum og lífinu hlakka til að halda kvöldmáltíð Drottins hátíðlega í hlýðni við boð Jesú. (Lúk. 22:19) Hvað getum við hvert og eitt gert til að sýna að við kunnum að meta lausnarfórn Jesú Krists að verðleikum? Góð skipulagning er mjög mikilvæg og sýnir að við kunnum að meta mikilvægi þessarar hátíðar. Hvað ert þú að gera til að búa þig undir þennan sérstaka viðburð?
4 Undirbúningur er nauðsynlegur: Að sjálfsögðu viljum við tryggja það að sérhver í fjölskyldunni verði viðstaddur. Við ættum einnig að undirbúa okkur í huganum með því að lesa og hugleiða þau biblíuvers sem tilgreind eru í Rannsökum daglega ritningarnar 1993 fyrir dagana 1.-6. apríl. Það væri viðeigandi að taka upplýsingar um mikilvægi minningarhátíðarinnar inn í einkanám okkar og fjölskyldunám næstu dagana á undan 6. apríl. Reyndu að koma snemma og doka við nokkra stund eftir hátíðina til að geta boðið nýja velkomna sem koma kannski í fyrsta sinn.
5 Vikurnar fyrir minningarhátíðina skalt þú bjóða öllum áhugasömum sem þú þekkir. Mundu eftir að gefa upplýsingar um stað og stund þegar þú notar boðsmiðana. Búðu til lista yfir þá sem þú vilt bjóða. Hafa allir sem vilja koma til hátíðarinnar far til ríkissalarins? Ef ekki, hvað getur þú þá gert til aðstoðar? Ef þú hefur laust sæti í bílnum, spyrðu þá öldungana hvort þeir viti um einhvern sem vantar far.
6 Þar sem þetta er mikilvægasta hátíð ársins og búast má við fjölmenni þurfa öldungarnir að gera sérstakar undirbúningsráðstafanir. (1. Kor. 14:40) Um það bil viku fyrir 6. apríl mun haldinn sérstakur fundur öldunga með bræðrunum sem aðstoða munu við hátíðina til þess að öruggt sé að þeir skilji hvernig sætaskipan skuli háttað og bera eigi fram brauðið og vínið. Ef þú færð það verkefni að aðstoða við að vísa til sætis og hafa umsjón í salnum eða bera fram brauðið og vínið gættu þess þá að fylgja nákvæmlega leiðsögn öldunganna varðandi þessi mál. Með því að athuga minnislistann í rammanum á blaðsíðu 7 geta öldungarnir fullvissað sig um að gengið sé með góðum fyrirvara frá öllu því sem snertir ræðumanninn, umsjón í sal, brauðið og vínið og það hvernig þessi tákn skuli borin fram.
7 Nú á tímum eru aðeins fáeinir af bræðrum Krists eftir á jörðinni og áður en mjög langt um líður mun sú athöfn að halda kvöldmáltíð Drottins hátíðlega hafa náð lokastigi sínu og hætta. (1. Kor. 11:25, 26) Megum við, svo lengi sem við höfum þau sérréttindi, halda áfram eins og viðeigandi er að minnast hátíðlega þess dauða sem gefur von um eilíft líf.