Örvum vöxtinn með markvissum endurheimsóknum
1 Til að hjálpa þeim sem hafa sýnt áhuga er nauðsynlegt að halda áfram að færa þeim andlega fæðu með því að fara reglulega í endurheimsókn. Heimsóknir okkar munu ýta stig af stigi undir andlegan vöxt þeirra. (1. Kor. 3:6-9) En til þess að heimsóknir okkar verði markvissar er nauðsynlegt að við undirbúum okkur fyrirfram með viðkomandi einstakling í huga.
2 Endurheimsókn til þeirra sem fengu smárit: Setjum sem svo að við höfum skilið smáritið Líf í friðsömum nýjum heimi eftir í fyrstu heimsókn.
Eftir að hafa rifjað stuttlega upp samtal okkar gætum við sagt eitthvað á þessa leið:
◼ „Hvaða stjórn getur komið þessum breytingum til leiðar? [Gefðu kost á svari.] Þér fyndist vafalaust dásamlegt að búa við slíkar kringumstæður. Hvernig getum við fengið að njóta slíkrar tilveru?“ Síðan mætti athuga efnið undir millifyrirsögninni „Hvernig þú getur höndlað það.“ Ef áhugi kemur í ljós mætti beina athyglinni að 15. kafla í Lifað að eilífu bókinni, „Þannig verða menn þegnar Guðsríkis.“ Við gætum rætt út frá fyrstu tveim greinunum og spurt: „Hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur að kynnast Guði?“ Gera mætti ráðstafanir til að svara þessari spurningu og ræða um fleira í kaflanum í næstu heimsókn.
3 Í endurheimsókn hjá þeim sem tóku hjá okkur bæklinginn „Ber Guð í raun umhyggju fyrir okkur?“ gætum við sagt:
◼ „Síðast þegar ég heimsótti þig ræddum við um hve mörg vandamál þjaka menn og hvað Guð lofar að gera í því. En hví skyldi Guð hafa leyft þjáningar í svona langan tíma? Hið áhugaverða svar við því er að finna í 6. hluta bæklingsins sem við litum á.“ Biddu húsráðandann um að ná í sitt eintak ef það er ekki of mikil fyrirhöfn. Eftir að hafa rætt um nokkrar greinar gætum við spurt: „Hvað þurfum við að gera til að njóta góðs af fyrirheitum Guðs?“ Vekja mætti sérstaka athygli á efninu í 11. hlutanum, „Grundvöllur nýja heimsins er núna í mótun,“ á blaðsíðu 28-31, til að ræða það í næstu heimsókn.
4 Endurheimsókn til þeirra sem fengu blöð: Ef þú valdir sérstaka grein, sem vakti áhuga húsráðandans, skaltu ræða fleiri atriði í henni þegar þú kemur í endurheimsókn. Takmarkaðu athugasemdir þínar við einn mikilvægan ritningarstað og efnið sem fjallar um hann. Ef áhuginn varir enn mætti ræða um hvernig blöðin eru gagnleg. Vekja mætti líka athygli á næsta tölublaði ef þar er grein sem fjallar um sama efni. Að öðrum kosti getum við vakið athygli á efni í Lifað að eilífu bókinni sem fjallar um sama viðfangsefni og gert ráðstafanir til að ræða það í næstu heimsókn.
5 Ef við sýnum persónulegan áhuga á því að fylgja málunum eftir með markvissum heimsóknum má sjá að okkur þykir vænt um fólk og um Jehóva. (Jóh. 13:34, 35) Við skulum halda áfram að örva andlegan vöxt fólks á svæðinu okkar með því að fara reglulega í markvissar endurheimsóknir.