Farðu aftur til þeirra sem sýndu áhuga
1 Mörgum okkar hefur gengið vel að útbreiða blöð og bæklinga. Það er mikilvægt að við förum aftur og reynum að glæða frekari áhuga. Árangurinn getur ráðist af því hversu vel við undirbúum okkur áður er við förum í endurheimsókn.
2 Þú hefur líklega þegar útbreitt mörg eintök af nýjasta Vaknið! með því að sýna fólki forsíðugreinina og vekja athygli þess á loforði Biblíunnar um nýjan heim. Í þeirri grein eru mörg atriði sem taka má til umfjöllunar í endurheimsókn til að hjálpa fólki að skilja betur að Guðsríki er eina von manna um nýjan og betri heim.
3 Ef þú útbreiddir „Vaknið“ fyrir apríl-júní mætti fylgja því eftir með því að segja eitthvað á þessa leið:
◼ „Þegar ég ræddi við þig síðast skildi ég eftir hjá þér blaðið Vaknið! þar sem spurt var hvort nýr heimur sé í nánd. Það er ekki sá heimur sem þjóðarleiðtogarnir tala um að koma á með milliríkjasamningum og afvopnun. Í blaðinu var spurt: ‚Hvernig er sá heimur sem þú óskar þér?‘ Bent var á nokkur atriði sem menn hafa óskað sér um aldir. [Taktu upp blaðið og bentu á millifyrirsagnirnar á blaðsíðu 6-8.] Heldur þú að menn geti skapað slíkan heim?“ Ef húsráðandinn sýnir áhuga gætir þú rætt um afmarkað efni og lagt drög að annarri endurheimsókn.
4 Þú kannt að vilja bjóða bækling með þessari aðferð:
◼ „Það var gaman að ræða við þig síðast um það hvort nýr heimur væri í nánd. Þótt sumir þjóðarleiðtogar tali mikið um nýjan heim er augljóst að þeir geta ekki skapað þann heim sem menn almennt þrá. Guð einn getur gert það. En mun hann gera það? [Sýndu myndirnar á bls. 2-7 í bæklingnum Ber Guð í raun umhyggju fyrir okkur?] Sköpunarverkið ber sannarlega vitni um umhyggju og visku skaparans. Af Biblíunni, ekki síst spádómum hennar, má líka sjá hversu annt honum er um okkur. [Lestu grein 11 á bls. 24.] Þér er velkomið að fá þennan bækling ef þú vilt lesa hann.“
5 Þegar þú ferð aftur segir húsráðandinn þér ef til vill að hann hafi sín eigin trúarrit og það nægi honum. Þú gætir þá sagt:
◼ „Ertu ekki sammála því að hver svo sem trú okkar er þá séu það meira og minna sömu áhyggjuefnin sem við þurfum öll að glíma við — sjúkdómar, glæpir, mengun o.s.frv.? [Gefðu kost á svari.] Finnst þér vera til einhver raunveruleg lausn á þeim málum? [Lestu 2. Pétursbréf 3:13.] Á blaðsíðu 2 í Varðturninum er sagt hver sé tilgangurinn með ritum okkar. [Lestu eina eða tvær valdar setningar.] Margir, sem ekki eru vottar Jehóva, hafa ánægju af að lesa rit okkar vegna vonarboðskaparins sem þau innihalda og byggður er á Biblíunni.“ Ef viðbrögðin eru góð getur þú útskýrt hvernig biblíunám fer fram.
6 Þú gætir reynt þetta:
◼ „Síðast þegar ég var hér ræddum við um framtíðarhorfur heimsins. Hvað finnst þér um þessa frétt? [Nefndu nýlega frétt.] Þegar fólk heyrir slíkar fréttir veltir það fyrir sér hvað eiginlega verði um þennan heim. Við trúum því að slíkir atburðir gefi til kynna að við lifum á þeim „síðustu dögum“ sem spáð er um í Biblíunni í 2. Tímóteusarbréfi 3:1-5.“ Lestu helstu atriðin og spurðu hvort honum finnist þessi lýsing ekki eiga vel við nú á tímum. Halda mætti samræðunum áfram með því að nota eina af millifyrirsögnunum á bls. 234-8 í Rökræðubókinni.
7 Ef við undirbúum okkur vel og sýnum einlæga löngun til að hjálpa getum við treyst því að hreinskilið fólk hlusti. — Jóh. 10:27, 28.