Glæðum áhuga á Lifað að eilífu bókinni
1 Þegar við knýjum dyra hjá fólki finnum við yfirleitt að „áhyggjur heimsins“ taka alla athygli þess. (Mark. 4:19) Okkur mætir sú áskorun að ná athygli þess með kynningarorðum sem fá það til að hugsa málið. Í byrjun kunna flestir að hafa lítinn áhuga á því sem við höfum að segja. Ef við getum sagt eitthvað sem snertir líf þeirra getum við ef til vill vakið upp svolítinn áhuga á boðskapnum um Guðsríki. Ein leið til að hefja samræður er að velja aðlaðandi efni frá Lifað að eilífu bókinni til að tala um. Hvað gætir þú sagt?
2 Þú gætir notað þessa aðferð:
◼ „Hvaða þjakandi vandamál á okkar tímum myndir þú leysa ef þú hefðir vald til þess? [Gefðu kost á svari og, eigi það við, skaltu segja að margir séu sama sinnis.] Fram að þessu virðist leiðtogum þjóðanna hafa gengið illa að finna lausnir á mörgum torleystum vandamálum nútímans. En sá er til sem getur og mun binda enda á alla erfiðleika sem hrjá mannkynið. Taktu eftir því sem segir í Sálmi 145:16. [Lestu ritningarstaðinn og sýndu myndirnar á blaðsíðu 11-13.] Í grein 14 á blaðsíðu 14 er að finna spurninguna sem við vorum að ræða um og síðan er borin fram önnur spurning: ‚En hvenær mun það gerast?‘“ Útskýrðu að bókin svari þeirri spurningu og sé áhugi fyrir hendi skaltu bjóða bókina.
3 Þú gætir líka sagt eitthvað á þessa leið:
◼ „Vera má að þú þekkir þá tómleikatilfinningu sem fylgir fráfalli ástvinar. Það gerði þig líklega sorgmæddan og þér fannst þú mjög hjálparvana. Þú hefur kannski íhugað þessar spurningar: [Lestu spurningarnar í grein 1 á blaðsíðu 76.] Væri það ekki hughreystandi að fá svör við þessum spurningum? Það kann að uppörva þig að heyra að Biblían veitir áreiðanlega von handa hinum látnu. [Lestu Jóhannes 5:28, 29.] Þessi bók hjálpar okkur að skilja hvað hafi orðið um hina látnu og hver framtíðarvon þeirra sé.“ Vísaðu stuttlega til 8. og 20. kafla. Ef áhugi virðist vera fyrir hendi skaltu gefa húsráðandanum tækifæri til að skoða bókina.
4 Það eru góðar líkur á að þér gefist tækifæri til að bera óformlega vitni. Ef það gerist gætir þú sagt með eigin orðum eitthvað á þessa leið:
◼ „Heimurinn er fullur af vandamálum nú á tímum og þú ferð líklega ekki varhluta af þeim. Því miður virðast þau lenda einna þyngst á saklausum. Heldur þú að Guð muni einhvern tíma binda enda á allar þjáningar? [Gefðu kost á svari.] Leyfðu mér að benda þér á það sem Guð lofar að gera fyrir þá sem þjóna honum. [Lestu Sálm 37:40 og flettu síðan upp á blaðsíðu 99 í Lifað að eilífu bókinni.] Þessi bók útskýrir hvers vegna Guð hefur leyft illsku og hvernig hann muni binda enda á hana.“
5 Ef þú ert ungur boðberi gætir þú notað kynningarorð sem byggð eru á myndunum á blaðsíðu 156-8. Þú gætir byrjað með því að spyrja:
◼ „Vildir þú lifa í slíkum heimi? [Gefðu kost á svari.] Hver og ein af þessum myndum er byggð á fyrirheiti í orði Guðs, Biblíunni. [Bentu á tilvísaða ritningarstaði.] Þessi bók getur hjálpað þér að fræðast meira um loforð Guðs að gera alla jörðina að paradís. Upplýsingarnar í henni geta orðið fólki til bjargar og hún er vel þess virði að eyða tíma í að lesa hana.“ — Jóh. 17:3.
6 Þegar þú býður bókina skaltu hafa í huga að upplýsa áheyrendur þína um að þeim standi til boða að leggja eitthvað af mörkum til alþjóðastarfsins.