Útbreiðum þekkinguna sem leiðir til eilífs lífs
1 Jehóva er sá „sem kennir mönnunum þekkingu.“ (Sálm. 94:10) Hann notar okkur til að útbreiða lífgandi þekkingu um sig til þeirra sem ekki vita hvernig þjónusta er honum þóknanleg. Bókin Þekking sem leiðir til eilífs lífs er gott kennslugagn og hreinhjartað fólk getur með hjálp hennar fengið réttan skilning á Guði út frá rituðu orði hans, Biblíunni. (1. Tím. 2:3, 4) Hin skýra og rökrétta framsetning Þekkingarbókarinnar á sannleikanum hjálpar mönnum að skilja það sem Jehóva leitast við að kenna þeim. Í þessum mánuði viljum við draga fólk inn í samræður sem fá það til að vilja lesa bókina. Hér eru nokkrar tillögur. Í stað þess að reyna að muna þær utan að skaltu reyna að tjá lykilhugmyndirnar með eigin orðum á þann hátt sem þér er tamt að tala við fólk.
2 Sökum þess að flestir hafa séð á bak ástvini í dauðann gætir þú fléttað athugasemdir um upprisuvonina inn í samræðurnar með því að segja í fyrstu eitthvað á þessa leið:
◼ „Flest höfum við séð á eftir ástvini í dauðann. Hefur þú velt fyrir þér hvort þú munir sjá hann aftur? [Gefðu kost á svari.] Í upphafi ætlaði Guð manninum ekki að deyja. Jesús sannaði að hægt er að reisa látna ástvini okkar upp frá dauðum. [Lestu Jóhannes 11:11, 25, 44.] Þó að þetta hafi átt sér stað fyrir mörgum öldum sýnir það hvað Guð hefur lofað að gera fyrir okkur. [Opnaðu Þekkingarbókina á blaðsíðu 85 og lestu myndtextann. Sýndu síðan myndina á blaðsíðu 86 og farðu nokkrum orðum um hana.] Ef þig langar til að lesa meira um þessa hughreystandi upprisuvon væri mér ánægja að skilja þessa bók eftir hjá þér.“
3 Eftir að hafa í fyrstu rætt um upprisuvonina gætir þú hafið næsta samtal við sömu persónuna á þennan hátt:
◼ „Þú manst kannski eftir því að ég sagði að Guð hafi í upphafi ekki ætlað manninum að deyja. Ef það er rétt, hvers vegna hrörnum við þá og deyjum? Sumar skjaldbökur verða meira en 100 ára og til eru tré sem hafa lifað í þúsundir ára. Hvers vegna er ævi manna aðeins 70 til 80 ár? [Gefðu kost á svari.] Við deyjum vegna þess að fyrstu mannhjónin óhlýðnuðust Guði.“ Lestu Rómverjabréfið 5:12. Flettu upp á blaðsíðu 53 í Þekkingarbókinni og lestu kaflaheitið. Taktu til umfjöllunar fyrstu þrjár tölugreinarnar og bentu á svörin við spurningunum neðanmáls. Fáðu samþykki viðmælanda þíns til að koma aftur á ákveðnum tíma til að ræða um það sem eftir er af kaflanum. Hvettu hann til að ljúka lestri kaflans áður en að því kemur.
4 Virðist viðmælandi þinn trúaður gætir þú sagt:
◼ „Það eru bókstaflega hundruð mismunandi trúarbragða nú á tímum. Þau kenna alls konar trúarkenningar og stangast þær margar á. Sumir segja að öll trúarbrögð séu góð og engu máli skipti hverju við trúum. Hver er þín skoðun á því? [Gefðu kost á svari.] Jesús kenndi hina sönnu trú og sýndi fram á að Guði sé ekki þóknanleg nokkur önnur tilbeiðsla. [Lestu Matteus 7:21-23.] Ef við viljum þóknast Guði verðum við að tilbiðja hann í samræmi við vilja hans.“ Flettu upp á 5. kafla Þekkingarbókarinnar, lestu kaflaheitið og bentu á nokkrar af millifyrirsögnunum. Sýndu fram á að þessar upplýsingar hjálpi fólki að komast að því hvernig hægt sé að þóknast Guði. Bjóddu húsráðandanum að fá bókina ef hann lofar að lesa hana og nefndu að þú þiggir gjarnan framlög til alþjóðastarfsins.
5 Þeim sem finnst það ruglandi hversu mörg trúarbrögðin eru gætu kunnað að meta svarið við þessari spurningu í endurheimsókn þinni:
◼ „Hvernig getum við sagt hver séu hin einu réttu trúarbrögð af öllum þeim margvíslegu trúarbrögðum sem til eru í heiminum? Að hverju myndir þú leita? [Gefðu kost á svari.] Jesús sagði okkur hvernig við ættum að þekkja sanna fylgjendur hans.“ Lestu Jóhannes 13:35. Taktu til umfjöllunar grein 18 og 19 í 5. kafla Þekkingarbókarinnar. Bentu á að með því að nota leiðarvísa Biblíunnar og útilokunaraðferðina geti menn greint hver séu hin einu sönnu trúarbrögð. Greindu frá því hvernig vottar Jehóva eru þekktir um allan heim fyrir að sýna sannan kærleika og fylgja háleitum siðgæðismælikvarða. Útskýrðu hvernig biblíunám með hjálp Þekkingarbókarinnar muni sýna nemandanum greinilega hvaða tilbeiðslu Guð hafi velþóknun á.
6 Þessi aðferð gæti reynst vel þegar þú hittir foreldra:
◼ „Á hverjum degi berast okkur fréttir af ólátum barna og unglinga sem virðast hafa ósköp takmarkaða siðgæðisvitund. Fullorðnir ásaka sumir hverjir skólakerfið fyrir að kenna börnum ekki muninn á réttu og röngu. Hver ætti, að þínu mati, að annast þá kennslu? [Gefðu kost á svari.] Ljáðu því aðeins eyra sem Biblían segir um þessa spurningu. [Lestu Efesusbréfið 6:4.] Þetta segir okkur að það sé ábyrgð foreldranna að innræta börnunum gott siðferði.“ Flettu upp á blaðsíðu 146 í Þekkingarbókinni, lestu grein 16 og farðu nokkrum orðum um myndina á blaðsíðu 147. Bentu á að bókin sé ætluð sem námsbók fyrir alla fjölskylduna. Þú skalt bjóðast til að sýna hvernig við stýrum slíku námi með fjölskyldum og nota til þess grein 17 og 18 á blaðsíðu 146.
7 Hafir þú í fyrstu heimsókninni stofnað biblíunám með foreldri gætir þú haldið náminu áfram í endurheimsókninni með því að segja:
◼ „Heimurinn leggur nú á tímum margar freistingar fyrir börnin okkar. Það gerir þeim mjög erfitt að ganga á vegum Guðs þegar þau verða fullorðin. Þú manst kannski eftir því að í síðasta samtali okkar beindum við einkum athyglinni að tveimur meginreglum. Sú fyrri var að sem guðhræddir foreldrar verðum við að sýna börnum okkar gott fordæmi og sú síðari að við verðum án afláts að fullvissa þau um ást okkar á þeim. En það er annað sem Biblían segir að börn þurfi að fá frá foreldrum sínum.“ Lestu Orðskviðina 1:8. Flettu upp á blaðsíðu 148 í Þekkingarbókinni og haltu náminu áfram með því að fara yfir grein 19-23. Leggðu til að þú komir aftur til að nema með allri fjölskyldunni og byrjir þá á 1. kafla.