Veldu greinar sem höfða til áhugasviðs fólks
1 Margir boðberar og brautryðjendur hafa náð frábærum árangri þegar þeir hafa notað valdar greinar í Varðturninum og Vaknið! Þeir hafa líkt og bogamaður, sem miðar örvum sínum nákvæmlega, höfðað til áhugasviðs fólks á svæðum sínum. Þeir ákveða með sjálfum sér hverjir séu líklegastir til að vilja lesa ákveðnar greinar. Hvernig fara þeir að því?
2 Þeir byrja á því að lesa hvert blað frá upphafi til enda. Svo velta þeir fyrir sér til hvaða manngerðar hver grein höfði. Síðan leggja þeir sig fram um að heimsækja þá sem væru líklegir til að lesa tiltekna grein. Þegar búast má við að ákveðið tölublað hljóti góðar viðtökur á svæðum þeirra panta þeir fleiri eintök en venjulega.
3 Blöðin okkar njóta virðingar: Einn áskrifenda okkar, sem vinnur fyrir víðlestnasta alþjóðatímarit Nígeríu, sagði um Vaknið!: „Til hamingju með heimsins besta fjölfræðirit fyrir almenning.“ Þakklátur lesandi komst svo að orði: „Hvílíkir dýrgripir óborganlegrar visku! Það er varla til það áhugamál mitt sem er ekki rætt einhvers staðar á síðum þessara tímarita.“
4 Blöðin fjalla um vítt efnissvið, þar á meðal Biblíuna, heimsviðburði, fjölskyldumál, þjóðfélagsvandamál, sögu, vísindi og dýra- og jurtalíf svo að fátt eitt sé nefnt. Fólk er að sjálfsögðu miklu líklegra en ella til að lesa um það sem snertir þarfir þess, kringumstæður eða starf. Þar sem við tölum við fólk sem allt hefur sín sérstöku áhugamál og vandamál er vænlegast að velja greinar sem höfða sérstaklega til þeirra sem við hittum.
5 Taktu eftir hvað gerðist þegar tveir vottar buðu dálkahöfundi eintak af Vaknið! frá 8. september 1996 (á ensku). Hann skrifaði: „Áður en mér gafst ráðrúm til að segja að ég hefði ekki áhuga skaut annar þeirra að: Það inniheldur grein um ameríska indíána. Við vitum að þú hefur skrifað mikið um það efni.‘“ Hann tók blaðið og las greinina um indíána meðan hann snæddi morgunverðinn og viðurkenndi síðar að „hún væri frábær“ og „fullkomlega heiðarleg.“
6 Hvað vekur áhuga fólks á þínu svæði? Hvað hefur þú séð í blöðunum á undanförnum mánuðum sem gæti höfðað til kaupmanna og fagfólks á þínu svæði eða til nágranna þinna, vinnufélaga og bekkjarfélaga? Hvað myndi lögmönnum þykja áhugavert eða kennurum, fjölskyldu- eða námsráðgjöfum, æskulýðsfulltrúum, fólki í félagslegri þjónustu eða heilbrigðisstéttum? Ef þú hefur fólkið, sem þú prédikar fyrir, í huga á meðan þú skoðar hvert tölublað ofan í kjölinn, bjóðast þér frábærar leiðir til að útbreiða orð sannleikans.
7 Þegar þú finnur mann sem sýnir sérstakan áhuga á ákveðnu tölublaði Varðturnsins eða Vaknið! og þiggur það gætirðu sagt: „Ég skal gjarnan færa þér nýtt blað síðar þegar ég rek augun í grein sem ég held að þú hafir áhuga á.“ Þú gætir síðan bætt honum á blaðaleiðina þína og komið við af og til og fært honum nýjustu blöðin. Það er áþekkt því þegar beðið er um leyfi til að mega koma til fólks í hvert skipti sem greinar birtast um ákveðinn málaflokk sem það hefur áhuga á.
8 Hafðu andleg markmið: Fyrir nokkrum árum fékk maður á framabraut eintak af Vaknið! Það fjallaði um málefni sem hann hafði áhuga á. En maðurinn var trúaður og las líka Varðturninn, sem fylgdi með. Í blaðinu var grein sem kom honum til að grannskoða þrenningarkenninguna sem hann hafði trúað allt sitt líf. Sex mánuðum síðar var hann skírður. Hikaðu því ekki við að hefja umræður um andleg efni við lesendur blaðanna okkar. Þú gætir kynnt bæklinginn Hvers krefst Guð af okkur? og boðist til að nota fáeinar mínútur til að ræða eitt viðfangsefni í hvert sinn sem þú kemur með nýjustu blöðin.
9 Hugleiddu vandlega hver þeirra sem þú heimsækir reglulega í heimahúsum eða fyrirtækjum væri líklegastur til að kunna að meta þau eintök af Varðturninum og Vaknið! sem við erum að bjóða núna. Leggðu þig síðan fram um að ná til þeirra. Hafðu samband við eins marga og þú getur og komdu þessum dýrmætu blöðum á framfæri. Gleymdu aldrei að þegar þú kappkostar að hjálpa fleirum að fá blöðin til aflestrar ertu að „varpa . . . brauði þínu út á vatnið.“ Er fram líða stundir gæti árangurinn orðið sá að þú fyndir verðandi lærisveina. — Préd. 11:1, 6.