Sönn tilbeiðsla eflist í Austur-Evrópu
1 Kristnir menn á fyrstu öld voru kostgæfnir boðberar Guðsríkis. Það gladdi þá mjög að sjá söfnuðina verða „fjölmennari dag frá degi.“ (Post. 16:5) Hugrökk prédikun þeirra varð til þess að sönn tilbeiðsla breiddist út til Asíu, Afríku og Evrópu með ríkulegri uppskeru.
2 Sönn tilbeiðsla heldur áfram að eflast nú á tímum endalokanna, einkum í löndum Austur-Evrópu. Í löndum, þar sem hömlur stjórnvalda hvíldu á starfsemi okkar allt fram á byrjun tíunda áratugarins, á sér stað stórkostleg aukning. Árbókin 1999 greinir frá því að í tveim þessara landa, Rússlandi og Úkraínu, taki nú meira en 100.000 boðberar þátt í starfinu. Í hinum 15 lýðveldum fyrrverandi Sovétríkjanna hafa rösklega 220.000 manns vígt sig Jehóva og látið skírast síðan árið 1991! Þessi öri vöxtur hefur kallað á byggingu margra nýrra ríkissala og mótshalla, og stækkun nokkurra deildarskrifstofa.
3 Hluti ríkissalasjóðs Félagsins er nú notaður til að veita söfnuðum lán í löndum þar sem aðkallandi þörf er á fleiri ríkissölum en fjármagn er takmarkað eða alvarleg efnahagskreppa ríkir. Á tímabilinu mars 1996 til október 1998 samþykkti Félagið 359 umsóknir um ríkissalalán frá deildarskrifstofum með umsjón í 11 löndum Austur-Evrópu. Framlög eru notuð til að kaupa lóðir og efnivið í nýja ríkissali og til að aðstoða söfnuði við að gera upp eldri húsakynni. Myndirnar í viðaukanum gefa okkur hugmynd um hvernig ríkissalasjóður Félagsins í Bandaríkjunum og öðrum löndum hefur komið bræðrunum í Austur-Evrópu til góða.
4 Árið 1998 nam aukningin í Búlgaríu 12 af hundraði, og bræðurnir voru himinlifandi þegar fyrsti ríkissalurinn þeirra var vígður í apríl sama ár. Í Króatíu var 4 prósenta aukning og bræðurnir þar eru um þessar mundir að reisa fleiri ríkissali til að efla sanna tilbeiðslu. Í Ungverjalandi nota 144 söfnuðir 80 ríkissali, þannig að 61 prósent safnaðanna 235 í landinu hafa eigin tilbeiðslustað. Í Makedóníu hafa tveir nýir ríkissalir verið reistir og fleiri eru í bígerð. Í sumar var lokið við að byggja tvöfaldan ríkissal í höfuðborginni Skopje sem getur þjónað að minnsta kosti sex söfnuðum.
5 Á síðasta ári létu að meðaltali 260 manns skírast í Rússlandi í hverri viku! Að fyrirmynd annarra landa hefur rússneska deildin sett á laggirnar 12 svæðisbyggingarnefndir í þessu víðfeðma landi til að undirbúa frekari ríkissalaframkvæmdir. Í norðurhluta Sankti Pétursborgar er verið að reisa fyrstu mótshöllina í landinu og mun hún taka 1600 manns í sæti. Í húsinu verða einnig fimm 200 sæta ríkissalir. Lokið hefur verið við að reisa 84 ríkissali í Úkraínu til að sinna andlegum þörfum bræðra okkar og hinna mörgu áhugasömu, og 80 salir til viðbótar eru í byggingu.
6 Aukningin í Austur-Evrópu er mikið gleðiefni. Óháð því hvar við búum minnir vöxtur sannrar tilbeiðslu okkur á að Guð fer ekki í manngreinarálit og þolinmæði hans mun hafa hjálpræði í för með sér fyrir ‚mikinn múg‘ manna. (Opinb. 7:9; 2. Pét. 3:9) Það eru mikil sérréttindi að geta átt örlítinn þátt í að stuðla að andlegum vexti annarra, jafnvel í þessum fjarlægu löndum. Orðskviðirnir 28:27 fullvissa okkar um að „sá sem gefur fátækum, líður engan skort.“ Gnægð okkar getur bætt úr skorti annarra svo að „jöfnuður“ verði efnislega og allir geti fundið fyrir þeirri gleði að sjá sanna tilbeiðslu eflast um heim allan. — 2. Kor. 8:14, 15; Post. 20:35.
[Myndir á blaðsíðu 3]
Săcele, Rúmeníu
[Myndir á blaðsíðu 3]
Maardu, Eistlandi
[Myndir á blaðsíðu 3]
Sevnica, Slóveníu
[Myndir á blaðsíðu 3]
Tiszavasvári, Ungverjalandi
[Myndir á blaðsíðu 4]
Jūrmala, Lettlandi
[Myndir á blaðsíðu 4]
Tallinn, Eistlandi
[Myndir á blaðsíðu 4, 5]
Taurage, Litháen
[Myndir á blaðsíðu 4, 5]
Belgrad, Júgóslavíu
[Myndir á blaðsíðu 5]
Prievidza, Slóvakíu
[Myndir á blaðsíðu 5]
Mátészalka, Ungverjalandi
[Myndir á blaðsíðu 6]
Vranov nad Topl’ou, Slóvakíu
[Myndir á blaðsíðu 6]
Ruma, Júgóslavíu
[Myndir á blaðsíðu 6]
Tornakalns, Lettlandi