Þjónusta í fullu starfi veitir gleði
1 Ef þú ert ungur að árum hefur þú eflaust leitt hugann að framtíð þinni. Orðskviðirnir 21:5 segja að ,fyrirætlanir iðjumannsins reynist fésamar vel.‘ Það er þér í hag að hugsa alvarlega um markmið þín í lífinu. Þegar þú hugar að framtíðinni skaltu velta fyrir þér þjónustu í fullu starfi. Hvers vegna ættirðu að gera það?
2 Spyrðu þá sem voru brautryðjendur á yngri árum hvernig þeir líta til þessara ára og þeir munu undantekningarlaust segja: „Þetta voru bestu ár ævi minnar.“ Bróðir einn tók að þjóna í fullu starfi á yngri árum og sagði síðar á ævinni: „Það veitir sterka fullnægjukennd að horfa til unglingsáranna og geta sagt að maður hafi farið eftir þessu viturlega heilræði: ,Mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum.‘“ (Préd. 12:1) Þú og foreldrar þínir þurfið núna að gera góða áætlun svo að þú getir fengið að kynnast þessari gleði á unglingsárunum.
3 Foreldrar, hvetjið til þjónustu í fullu starfi: Jehóva segir þér nákvæmlega hvaða veg þú átt að ganga líkt og umhyggjusamur faðir. (Jes. 30:21) Hann setur ykkur, kristnum foreldrum, gott fordæmi með því að láta í té þessa kærleiksríku leiðsögn. Látið börnin ekki um að ákveða hvaða veg sé best að fara heldur kennið þeim að fara þann veg sem þau eiga að fara svo að þau hafi blessun Jehóva. Þegar þau vaxa úr grasi mun kennslan, sem þú hefur veitt, hjálpa þeim „að greina gott frá illu.“ (Hebr. 5:14) Reynslan hefur kennt þeim sem eldri eru að þeir geta ekki treyst á eigin dómgreind heldur verða þeir að treysta á að Jehóva geri stigu þeirra slétta. (Orðskv. 3:5, 6) Þetta er jafnvel enn mikilvægara fyrir unglinga því að þeir hafa minni reynslu í lífinu.
4 Foreldrar, þegar börnin nálgast unglingsaldurinn, eða jafnvel fyrr, skuluð þið ræða við þau á raunsæjan hátt um framtíðaráform hvað atvinnu varðar. Námsráðgjafar, kennarar og bekkjarfélagar munu reyna að fá þau til að setja sér veraldleg markmið. Hjálpaðu börnunum að velja fög sem veita hagnýta kunnáttu og búa þau undir að sjá fyrir efnislegum þörfum sínum án þess að láta það bitna á þjónustunni við Guðsríki. (1. Tím. 6:6-11) Í mörgum tilvikum getur almenn framhaldsskólamenntun ásamt verknámi og/eða starfsþjálfun dugað ágætlega til að sjá þér farborða þegar þú byrjar í brautryðjendastarfinu.
5 Hvetjið unglinga til að flýta sér ekki að stofna til hjónabands. Ef þeir ákveða síðar meir að gifta sig eru þeir betur í stakk búnir til að axla þyngri ábyrgð í hjónabandinu. (Sjá grein 17 í viðauka Ríkisþjónustu okkar í júní árið 2001, „Geturðu boðið þig fram?“) Talaðu á jákvæðum nótum um brautryðjandastarf, betelþjónustu, trúboðsstarf og að þjóna þar sem þörfin er meiri og glæddu þannig löngun hjá unga fólkinu, jafnvel á barnsaldri, til að nota líf sitt á þann hátt sem gleður Jehóva, er öðrum til gagns og veitir þeim sjálfum gleði.
6 Unglingar, setjið fullt starf í fyrsta sæti: Unglingar, þið þurfið ekki að giska á hvernig brautryðjandastarfið er því að þið getið prófað það í hlutastarfi með því að gerast aðstoðarbrautryðjendur hvenær sem tækifæri gefst yfir skólamánuðina eða í fríum. Þá fáið þið að reyna hve ánægjulegt brautryðjandastarfið raunverulega er. Getur þú séð þér fært að gerast aðstoðarbrautryðjandi núna eða einhvern tíma í sumar?
7 Ef þú ert ungur bróðir í skipulagi Guðs skaltu einnig hugsa alvarlega um að sækja fram og verða hæfur sem safnaðarþjónn. (1. Tím. 3:8-10, 12) Þú skalt líka gera það upp við þig hvort þú viljir sækja um að þjóna á Betel eða að fara í Þjónustuþjálfunarskólann þegar þú hefur náð tilskildum aldri. Brautryðjandastarfið þjálfar þig í að fara eftir stundaskrá, skipuleggja þig betur, eiga góð samskipti við aðra og það hjálpar þér að þroska með þér ábyrgðartilfinningu. Allt þetta býr þig undir enn meiri þjónustusérréttindi síðar meir.
8 Það er mikilvægt að vera ötul í guðræðislegum verkum til að þjóna farsællega í fullu starfi. Páll postuli hvatti okkur til að hafa þannig hugarfar og hann benti á blessunina sem fylgir í kjölfarið: „Hvað sem þér gjörið, þá vinnið af heilum huga, eins og [Jehóva] ætti í hlut. . . . Þér vitið og sjálfir, að [Jehóva] mun veita yður arfleifðina að launum.“ (Kól. 3:23, 24) Megi Jehóva umbuna þér með margvíslegri gleði í þjónustunni í fullu starfi.