Ætlar þú að nota tækifærið?
Minningarhátíðin gefur okkur tilefni til að sýna þakklæti
1. Hvaða sérstaka tækifæri fáum við í tengslum við minningarhátíðina?
1 Minningarhátíðin, sem verður haldin 14. apríl, gefur okkur sérstakt tækifæri til að glæða með okkur þakklæti fyrir allt það góða sem Jehóva hefur gert, og láta það í ljós. Frásögnin í Lúkasi 17:11-18 sýnir hvernig Jehóva og Jesús meta þakklæti. Því miður notaði einungis einn af holdsveiku mönnunum tíu, sem fengu lækningu, tækifærið til að sýna þakklæti sitt. Lausnargjaldið er gjöf sem mun í framtíðinni lækna okkur af öllum meinum og gera eilíft líf að veruleika. Við munum vafalaust þakka Jehóva daglega fyrir þær blessanir. En hvernig getum við sýnt þakklæti okkar á komandi vikum?
2. Hvernig getum við glætt með okkur þakklæti fyrir lausnarfórnina?
2 Glæddu með þér þakklæti: Þakklæti á sér upptök í huganum. Til að hjálpa okkur að meta lausnarfórnina meir getum við notað biblíulestraráætlun fyrir minningarhátíðina sem er meðal annars að finna í endurskoðaðri útgáfu Nýheimsþýðingarinnar, viðauka B12, dagatalinu og Rannsökum daglega ritningarnar. Hvernig væri að fjölskyldan skoðaði þessar upplýsingar saman? Þegar við gerum það lærum við að meta lausnargjaldið betur og betur. Það hefur síðan jákvæð áhrif á hegðun okkar og framkomu. – 2. Kor. 5:14, 15; 1. Jóh. 4:11.
3. Á hvaða vegu getum við sýnt þakklæti okkar í kringum minningarhátíðina?
3 Sýndu þakklæti: Við sýnum þakklæti með verkum okkar. (Kól. 3:15) Þakkláti holdsveiki maðurinn hafði fyrir því að leita Jesú uppi til að sýna þakklæti sitt. Hann hefur án efa verið spenntur að segja frá þeirri undraverðu lækningu sem hann hlaut. (Lúk. 6:45) Erum við það þakklát fyrir lausnarfórnina að við tökum þátt í kynningarátakinu fyrir minningarhátíðina af brennandi áhuga? Önnur góð leið til að sýna þakklæti er að vera aðstoðarbrautryðjandi eða að taka aukinn þátt í boðunarstarfinu á tímabilinu í kringum minningarhátíðina. Á minningarhátíðinni sjálfri sýnum við síðan að við erum þakklát í hjarta með því að bjóða gesti velkomna og bjóðast til að svara spurningum þeirra.
4. Hvernig getum við haldið minningarhátíð án þess að sjá eftir að hafa ekki nýtt tækifærið betur?
4 Verður þessi minningarhátíð sú síðasta sem við höldum? (1. Kor. 11:26) Við vitum ekkert um það. En við vitum að þegar hún er um garð gengin gildir það sama um tækifærið sem við höfum til að sýna þakklæti okkar. Ætlar þú að nota tækifærið? Vonandi endurspegla orð okkar og hugsanir þakklæti til Jehóva sem hefur af örlæti greitt lausnargjaldið fyrir okkur. – Sálm. 19:14.