Bjóðum fólki á öllum aldri Fjölskyldubókina
1 Kona frá Suður-Afríku segir: „Ráðleggingarnar í bókinni Fjölskyldulíf þitt gert hamingjuríkt björguðu hjónabandi mínu. Fimmti kaflinn, ‚Eiginkona sem er elskuð heitt,‘ opnaði augu mín. Ég hefði aldrei getað ímyndað mér að ég hefði óafvitandi getað valdið svona miklum erfiðleikum. Ég vil þakka ykkur hjartanlega fyrir. Hjónaband mitt hefur velkst um í ólgusjó svo mánuðum skiptir en nú er það loks komið í kyrrðarhöfn hamingjunnar.“ Reynslusaga þessarar konu er ekkert einsdæmi. Fjölskyldubókin hefur reynst ungum sem öldnum ómæld hjálp. Hér eru nokkrar tillögur sem þú gætir reynt í boðunarstarfinu í febrúar þegar þú býður fólki á öllum aldri bókina.
2 Þegar þú hittir ungt fólk gætirðu sagt:
◼ „Margt fólk á þínum aldri er í hjónabandshugleiðingum. En hvar ætli sé hægt að finna áreiðanlegar upplýsingar um hjónabandið? [Leyfðu viðmælanda þínum að svara.] Oft veit ungt fólk hins vegar ekki hvort það sé undir það búið að ganga í hjónaband. Leyfðu mér að sýna þér hvað þessi handbók hefur um málið að segja en hún byggist á leiðbeiningum skaparans, höfundar hjónabandsins.“ Flettu upp á bls. 10 og lestu síðustu þrjár setningarnar í gr. 14 og spurningarnar í gr. 15. Renndu síðan yfir millifyrirsagnirnar í 2. kafla bókarinnar. Bjóddu bókina og gerðu ráðstafanir til að koma aftur.
3 Þegar þú ræðir við foreldri gætirðu sagt:
◼ „Við erum að ræða við foreldra um gagnleg ráð um barnauppeldi. Mörgum heilræðum hefur verið safnað saman í þessari handbók, Fjölskyldulíf þitt gert hamingjuríkt.“ Flettu upp á bls. 97 og lestu millifyrirsagnirnar í 8. og 9. kafla. Endaðu á því að lesa Orðskviðina 22:6 í gr. 5 á bls. 115 og segðu síðan: „Þessi bók hefur hjálpað mörgum að leysa foreldrahlutverkið vel af hendi. Ef þig langar að kynna þér hana er þér velkomið að fá eintak.“
4 Þegar þú spjallar við roskið fólk gætirðu sagt:
◼ „Við erum að ræða við fólk um efri ár ævinnar og hvernig megi njóta þeirra sem best. Í þessari handbók, Fjölskyldulíf þitt gert hamingjuríkt, er að finna gagnleg heilræði frá Biblíunni sem reynst hafa mörgum einkar vel.“ Lestu millifyrirsagnirnar í 13. kaflanum og bjóddu síðan bókina.
5 Þegar þú ferð aftur til þeirra sem þegið hafa Fjölskyldubókina skaltu reyna að koma af stað heimabiblíunámskeiði. Það er tilvalið að byrja á 8. kafla Kröfubæklingsins eða 15. kafla Þekkingarbókarinnar. Jafnhliða því skulum við reyna að hjálpa fólki á öllum aldri að byggja upp hamingjuríkt, kristið fjölskyldulíf.