Jean Crespin og Píslarvottabókin
ÁRIÐ 1546 voru 14 karlmenn í Meaux í Frakklandi fundnir sekir um trúvillu og dæmdir til dauða. Þeir skyldu brenndir á báli. Þeir höfðu það til saka unnið að hittast á einkaheimilum, biðjast fyrir, syngja sálma, halda kvöldmáltíð Drottins og lýsa yfir að þeir myndu aldrei viðurkenna „pápíska skurðgoðadýrkun“.
Rómversk-kaþólskur kennimaður, François Picard að nafni, krafði hina dæmdu skýringa á hugmyndum þeirra um kvöldmáltíð Drottins, daginn sem aftakan fór fram. Þeir svöruðu honum með því að spyrja hann um þá kenningu kaþólsku kirkjunnar að brauðið og vínið breytist með undraverðum hætti í hold og blóð Jesú við kvöldmáltíðina. Bragðast brauðið eins og kjöt? Eða vínið eins og blóð? spurðu hinir dæmdu.
Það var fátt um svör en mennirnir 14 voru engu að síður bundnir við staura og brenndir á báli. Þeir sem tungan hafði ekki verið skorin úr sungu sálma. Prestar stóðu kringum aftökustaðinn og reyndu að yfirgnæfa þá með því að syngja hærra. Daginn eftir stóð Picard á þessum sama stað og lýsti yfir að mennirnir 14 væru dæmdir til eilífrar vistar í helvíti.
Það var hættulegt athæfi í Evrópu á 16. öld að andmæla kirkjunni. Margir sem véfengdu kenningar kirkjunnar máttu þola hryllilega meðferð af hendi trúarlegra andstæðinga sinna. Meðal heimilda um þjáningar þessa fólks má nefna bókina Le Livre des martyrs (Píslarvottabókin) sem Jean Crespin gaf út í Genf í Sviss árið 1554. Hún er einnig þekkt undir heitinu Histoire des martyrs.a
Lögfræðingur leggur siðbótinni lið
Crespin fæddist um 1520 í Arras sem nú er í norðanverðu Frakklandi. Hann nam lögfræði í Louvain í Belgíu, og líklegt er talið að það hafi verið þar sem hann kynntist hugmyndum siðbótarmanna. Árið 1541 hélt Crespin til Parísar til að starfa sem ritari hjá þekktum lögmanni. Um svipað leyti varð hann vitni að því að Claude Le Painctre var brenndur á báli á Maubert-torgi í París, en hann hafði verið dæmdur fyrir villutrú. Crespin var djúpt snortinn af trú þessa unga gullsmiðs sem var, eins og hann orðaði það, líflátinn fyrir að „kunngera foreldrum sínum og vinum sannleikann“.
Þegar hér var komið sögu tók Crespin að starfa sem lögmaður í Arras. En áður en langt um leið var hann ásakaður um trúvillu vegna nýfundinnar trúar sinnar. Til að sleppa við ákæru flúði hann til Strassborgar í Frakklandi og settist síðar að í Genf í Sviss. Þar umgekkst hann stuðningsmenn siðbótarinnar, lét af lögfræðistörfum og gerðist prentari.
Crespin gaf út trúarleg rit siðbótarmanna svo sem Jóhanns Kalvíns, Marteins Lúters, Johns Knox og Theódórs Beza. Hann prentaði grískan texta Nýja testamentisins og Biblíuna, í heild eða að hluta, á ensku, frönsku, ítölsku, latínu og spænsku. En það var Píslarvottabókin sem aflaði Crespin frægðar. Í henni telur hann upp fjölda fólks sem tekið var af lífi fyrir trúvillu á árabilinu 1415 til 1554.
Markmiðið með því að skrásetja píslarvotta
Í stórum hluta þeirra rita, sem siðbótarmenn gáfu út, eru fordæmd grimmdarverk kaþólskra yfirvalda. Talað er um „hetjuskap“ píslarvottanna af hópi mótmælenda sem framhald af þjáningum þjóna Guðs fyrr á öldum, þeirra á meðal kristinna manna á fyrstu öld. Markmiðið var að hvetja fólk til dáða. Crespin vildi láta öðrum mótmælendum í té dæmi til eftirbreytni og tók því saman skrá um þá sem höfðu látið lífið fyrir trú sína.b
Í bók sinni tekur Crespin saman skrár um réttarhöld, rannsóknaryfirheyrslur og frásagnir sjónarvotta, auk vitnisburðar hinna ákærðu meðan þeir sátu í fangelsi. Einnig er þar að finna hvatningarbréf til þeirra sem fangnir voru, sum hver uppfull af biblíutilvitnunum. Crespin áleit að trú ritaranna væri „þess verðug að vera í minnum höfð um aldur og ævi“.
Umræður um kenningarleg efni í bók Crespins snúast að miklu leyti um vel þekktar deilur kaþólskra og mótmælenda. Ofsóknarmenn og hinir ofsóttu deildu til dæmis um hreinsunareldinn, notkun líkneskja í tilbeiðslunni og bænir fyrir látnum. Auk þess var rökrætt um það hvort fórn Jesú væri endurtekin við kaþólskar messur og hvort páfinn væri fulltrúi Guðs.
Píslarvottabókin ber glöggt vitni um ágreininginn og umburðarleysið sem einkenndi þessa ólgutíma. Þótt Crespin hafi beint athyglinni að því hvernig mótmælendur sættu ofsóknum af hendi kaþólskra má ekki gleyma því að mótmælendur hafa stundum ofsótt kaþólska menn af sömu hörku og grimmd.
Í aldanna rás hafa fölsk trúarbrögð atað hendur sínar ,blóði spámanna og heilagra og allra þeirra sem drepnir hafa verið á jörðunni‘. Það er vissulega réttlátt að hefnt sé fyrir blóð allra þeirra sem eru sannir píslarvottar í augum Guðs. (Opinberunarbókin 6:9, 10; 18:24) Líklegt má telja að sumir þeirra sem þjáðust og dóu vegna trúar sinnar á dögum Jeans Crespins hafi í allri einlægni verið að leita sannleikans í trúmálum.
[Neðanmáls]
a Einn titillinn á verki Crespins hljóðar svo sé hann þýddur á íslensku: Bók um píslarvotta, það er samantekt um nokkra píslarvotta sem dóu í nafni Drottins vors Jesú Krists, frá Jóhanni Húss fram til þessa árs, 1554. Bókin var gefin út aftur nokkrum sinnum, endurbætt og aukin, og undir ýmsum heitum, bæði meðan Crespin var á lífi og eftir dauða hans.
b Tvær aðrar skrár um píslarvotta voru gefnar út árið 1554, sama ár og Crespin gaf út Píslarvottabók sína. Önnur var gerð af Ludwig Rabus og var á þýsku en hin var á latínu, gerð af John Foxe.
[Mynd á bls. 12]
Titilsíða Píslarvottabókarinnar sem Crespin tók saman (útgáfa frá 1564).
[Mynd á bls. 13]
Mótmælendur teknir af lífi að viðstöddum Hinriki öðrum Frakkakonungi og hirð hans.
[Rétthafi myndar á bls. 13]
Myndir á báðum síðum: © Société de l’Histoire du Protestantisme Français, París.