FYRRA BRÉFIÐ TIL ÞESSALONÍKUMANNA
1 Frá Páli, Silvanusi*+ og Tímóteusi+ til safnaðar Þessaloníkumanna sem eru sameinaðir Guði föðurnum og Drottni Jesú Kristi.
Megi einstök góðvild Guðs og friður vera með ykkur.
2 Við þökkum alltaf Guði þegar við nefnum ykkur öll í bænum okkar.+ 3 Við gleymum aldrei frammi fyrir Guði okkar og föður hvernig þið unnuð af trú og kærleika og voruð þolgóð vegna vonarinnar+ á Drottin okkar Jesú Krist. 4 Guð elskar ykkur, bræður og systur, og við vitum að hann hefur valið ykkur 5 því að fagnaðarboðskapurinn sem við boðum kom ekki aðeins til ykkar með orðum heldur einnig með krafti, heilögum anda og sterkri sannfæringu. Þið vitið sjálf hvað við gerðum í ykkar þágu meðan við vorum hjá ykkur. 6 Og þið líktuð eftir okkur+ og Drottni+ því að þið tókuð við orðinu með gleði heilags anda þrátt fyrir mikla erfiðleika.+ 7 Þannig urðuð þið fyrirmynd allra hinna trúuðu í Makedóníu og Akkeu.
8 Frá ykkur hefur orð Jehóva* ekki aðeins breiðst út í Makedóníu og Akkeu heldur er trú ykkar á Guð orðin þekkt alls staðar+ svo að við höfum engu við að bæta. 9 Fólk segir frá því hvernig við komum til ykkar fyrst, hvernig þið sneruð ykkur til Guðs frá skurðgoðum ykkar+ til að þjóna lifandi og sönnum Guði 10 og hvernig þið bíðið nú eftir að sonur hans komi frá himnum.+ Guð reisti hann upp frá dauðum, það er að segja Jesú sem bjargar okkur frá hinni komandi reiði.+
2 Þið vitið auðvitað, bræður og systur, að heimsókn okkar til ykkar hefur ekki verið árangurslaus.+ 2 Okkur var misþyrmt og við þjáðumst í Filippí+ eins og þið vitið, en við tókum í okkur kjark með hjálp Guðs til að flytja ykkur fagnaðarboðskap hans+ þótt andstaðan* væri mikil. 3 Hvatningarorð okkar eru ekki sprottin af röngum hugmyndum, óhreinum hvötum eða sviksemi. 4 Guð taldi okkur hæfa til að vera trúað fyrir fagnaðarboðskapnum þannig að við tölum ekki til að þóknast mönnum heldur Guði sem rannsakar hjörtu okkar.+
5 Þið vitið að við höfum aldrei smjaðrað eða siglt undir fölsku flaggi til að græða á ykkur.+ Guð er vottur þess. 6 Við höfum ekki heldur sóst eftir heiðri frá mönnum, hvorki ykkur né öðrum. Sem postular Krists hefðum við þó getað verið fjárhagsleg byrði á ykkur.+ 7 Við vorum hins vegar mildir á meðal ykkar eins og móðir sem annast brjóstabarn sitt af alúð.* 8 Okkur þótti svo innilega vænt um ykkur að við vorum ekki aðeins ákveðnir í að gefa ykkur* fagnaðarboðskap Guðs heldur líka okkar eigið líf.+ Svo heitt elskuðum við ykkur.+
9 Bræður og systur, þið munið eflaust eftir erfiði okkar og striti. Við unnum dag og nótt til að íþyngja engu ykkar fjárhagslega+ þegar við boðuðum ykkur fagnaðarboðskap Guðs. 10 Bæði þið og Guð getið vitnað um hve trúir, réttlátir og óaðfinnanlegir við vorum í garð ykkar sem trúið. 11 Þið vitið vel að við hvöttum ykkur og hughreystum og leiðbeindum hverju og einu ykkar+ eins og faðir+ annast börn sín. 12 Þannig getið þið verið Guði til sóma+ sem kallar ykkur til ríkis síns+ og dýrðar.+
13 Þess vegna þökkum við Guði stöðugt+ því að þegar þið tókuð við orði Guðs sem þið heyrðuð frá okkur tókuð þið ekki við því sem orði manna heldur sem orði Guðs, eins og það sannarlega er, og það sýnir áhrifamátt sinn í ykkur sem trúið. 14 Þið, bræður og systur, tókuð ykkur til fyrirmyndar söfnuði Guðs í Júdeu sem eru sameinaðir Kristi Jesú. Samlandar ykkar misþyrmdu ykkur,+ rétt eins og Gyðingar misþyrmdu þeim 15 og drápu meira að segja Drottin Jesú+ og spámennina. Þeir hafa líka ofsótt okkur.+ Þeir eru ekki Guði þóknanlegir heldur eru þeir mótfallnir því sem er öllum mönnum í hag 16 enda reyna þeir að koma í veg fyrir að við tölum við fólk af þjóðunum svo að það geti bjargast.+ Þannig fylla þeir sífellt mæli synda sinna. En reiði Guðs er loks komin yfir þá.+
17 Meðan við vorum aðskildir frá* ykkur um stundarsakir, bræður og systur, (líkamlega en ekki í huganum) gerðum við allt sem við gátum til að hitta ykkur augliti til auglitis því að við þráðum að sjá ykkur. 18 Já, okkur langaði til að koma til ykkar og ég, Páll, reyndi ekki bara einu sinni heldur tvisvar en Satan lagði stein í götu okkar. 19 Hver er von okkar eða gleði eða heiðurskóróna frammi fyrir Drottni okkar Jesú við nærveru hans? Eruð það ekki einmitt þið?+ 20 Þið eruð vissulega stolt okkar og gleði.
3 Þegar við* vorum orðnir óþreyjufullir að bíða töldum við best að vera einir eftir í Aþenu+ 2 og sendum til ykkar Tímóteus,+ bróður okkar og þjón* Guðs við boðun fagnaðarboðskaparins um Krist. Hann átti að styrkja ykkur* í trúnni og hughreysta 3 svo að enginn léti haggast í þessum raunum. Þið vitið sjálf að við getum ekki umflúið þær.*+ 4 Þegar við vorum hjá ykkur sögðum við ykkur fyrir að við myndum verða fyrir erfiðleikum og þannig hefur líka farið eins og þið vitið.+ 5 Þegar ég þoldi ekki óvissuna lengur sendi ég Tímóteus til að heyra hvort þið væruð enn trúföst+ því að ég var hræddur um að freistarinn+ kynni að hafa freistað ykkar og erfiði okkar væri orðið til einskis.
6 En nú er Tímóteus nýkominn frá ykkur+ með gleðilegar fréttir af trúfesti ykkar og kærleika. Hann segir að þið minnist okkar ávallt með hlýju og að þið þráið að sjá okkur eins og við þráum að sjá ykkur. 7 Þess vegna, bræður og systur, hafið þið með trúfesti ykkar verið okkur til hughreystingar í öllum þjáningum* okkar og raunum.+ 8 Við fáum nýjan kraft* þegar þið fylgið Drottni staðfastlega. 9 Hvernig getum við sýnt Guði hve þakklátir við erum fyrir ykkur og þá miklu gleði sem við njótum ykkar vegna frammi fyrir honum? 10 Dag og nótt biðjum við eins innilega og við getum um að fá að hitta ykkur augliti til auglitis og bæta úr því sem vantar upp á trú ykkar.+
11 Megi Guð okkar og faðir og Drottinn okkar Jesús gera okkur kleift að koma til ykkar. 12 Og megi Drottinn láta kærleika ykkar hvers til annars og til allra manna vaxa,+ já, fylla hjörtu ykkar, rétt eins og við elskum ykkur. 13 Þá getur hann styrkt hjörtu ykkar svo að þau verði óaðfinnanleg og heilög frammi fyrir Guði okkar+ og föður við nærveru Drottins Jesú+ og allra hans heilögu.
4 Að lokum, bræður og systur: Við höfum leiðbeint ykkur um hvernig þið eigið að lifa til að þóknast Guði+ og þannig lifið þið líka. En nú biðjum við ykkur og hvetjum ykkur í nafni Drottins Jesú til að leggja ykkur enn meira fram. 2 Þið vitið hvaða leiðbeiningar* við gáfum ykkur frá Drottni Jesú.
3 Guð vill að þið séuð heilög+ og haldið ykkur frá kynferðislegu siðleysi.*+ 4 Hvert og eitt ykkar ætti að kunna að hafa stjórn á líkama sínum*+ og halda honum heilögum+ og til sóma 5 en ekki láta stjórnast af girnd og taumlausum losta+ eins og þjóðirnar sem þekkja ekki Guð.+ 6 Enginn ætti að fara út fyrir viðeigandi mörk og ganga á rétt trúsystkinis síns á þessu sviði því að Jehóva* refsar fyrir allt þetta eins og við höfum áður sagt ykkur og varað eindregið við. 7 Guð kallaði okkur ekki til að lifa í óhreinleika heldur til að vera heilög.+ 8 Sá sem lítilsvirðir þetta lítilsvirðir því ekki mann heldur Guð+ sem gefur ykkur heilagan anda sinn.+
9 Um bróðurkærleikann+ þurfum við hins vegar ekki að skrifa ykkur því að Guð hefur kennt ykkur að elska hvert annað.+ 10 Þið elskið líka öll trúsystkini ykkar í allri Makedóníu. En við hvetjum ykkur, bræður og systur, til að gera það í enn ríkari mæli. 11 Leggið ykkur fram um að lifa kyrrlátu lífi,+ sinna ykkar eigin málum+ og vinna með höndum ykkar+ eins og við höfum leiðbeint ykkur um. 12 Þá sjá þeir sem eru fyrir utan að þið hegðið ykkur sómasamlega,+ og ykkur skortir ekki neitt.
13 Bræður og systur, við viljum ekki að ykkur sé ókunnugt um þá sem sofa dauðasvefni+ svo að þið syrgið ekki eins og hinir sem hafa ekki von.+ 14 Við trúum að Jesús hafi dáið og risið upp+ og trúum þess vegna líka að Guð reisi upp fylgjendur hans sem hafa sofnað dauðasvefni, svo að þeir geti verið með honum.+ 15 Það segjum við ykkur og byggjum á orði Jehóva* að þau okkar sem verða á lífi við nærveru Drottins verða alls ekki á undan þeim sem hafa sofnað dauðasvefni, 16 því að Drottinn sjálfur mun stíga niður af himni og gefa skipun með rödd erkiengils+ og með lúður Guðs í hendi, og lærisveinar Krists sem eru dánir rísa fyrstir upp.+ 17 Síðan verða þau okkar sem eftir lifa hrifin burt ásamt þeim í skýjum+ til fundar við Drottin+ í loftinu, og eftir það verðum við alltaf með Drottni.+ 18 Hughreystið hvert annað með þessum orðum.
5 En um tíma og tíðir er engin þörf að skrifa ykkur, bræður og systur. 2 Þið vitið vel að dagur Jehóva*+ kemur eins og þjófur á nóttu.+ 3 Þegar menn segja: „Friður og öryggi!“ kemur skyndilega tortíming yfir þá+ eins og fæðingarhríðir yfir ófríska konu, og þeir komast alls ekki undan. 4 En þið, bræður og systur, eruð ekki í myrkri svo að dagurinn komi ykkur að óvörum eins og dagsbirtan þjófum 5 því að þið eruð öll börn* ljóssins og börn* dagsins.+ Við tilheyrum hvorki nóttinni né myrkrinu.+
6 Sofum því ekki eins og aðrir+ heldur vökum+ og hugsum skýrt.+ 7 Þeir sem sofa, sofa á nóttinni og þeir sem drekka sig drukkna eru drukknir á nóttinni.+ 8 En við sem tilheyrum deginum skulum hugsa skýrt og klæðast trú og kærleika sem brynju og voninni um björgun sem hjálmi+ 9 því að Guð valdi okkur ekki til að verða reiði sinni að bráð heldur til að bjargast+ fyrir atbeina Drottins okkar Jesú Krists. 10 Hann dó fyrir okkur+ til að við gætum lifað með honum,+ hvort sem við vökum eða sofum.* 11 Haldið því áfram að uppörva* og styrkja hvert annað+ eins og þið gerið núna.
12 Nú biðjum við ykkur, bræður og systur, að sýna þeim virðingu sem leggja hart að sér meðal ykkar, veita ykkur forystu í þjónustu Drottins og leiðbeina ykkur. 13 Sýnið þeim kærleika og hafið sérstakar mætur á þeim fyrir starf þeirra.+ Lifið í friði hvert við annað.+ 14 Við hvetjum ykkur líka, bræður og systur, til að vara óstýriláta við hegðun sinni,*+ hughreysta niðurdregna,* styðja þá sem eru veikburða og vera þolinmóð við alla.+ 15 Gætið þess að enginn gjaldi nokkrum illt með illu+ en gerið hvert öðru alltaf gott og sömuleiðis öllum öðrum.+
16 Verið alltaf glöð.+ 17 Biðjið stöðugt.+ 18 Þakkið Guði fyrir alla hluti.+ Það er vilji hans með ykkur sem fylgið Kristi Jesú. 19 Slökkvið ekki eld andans.+ 20 Fyrirlítið ekki spádóma.+ 21 Sannreynið allt,+ haldið fast við það sem er gott. 22 Forðist hið illa í hvaða mynd sem er.+
23 Megi Guð friðarins helga ykkur algerlega. Og megi andi ykkar, sál* og líkami vera óaðfinnanleg og heilbrigð á allan hátt við nærveru Drottins okkar Jesú Krists.+ 24 Sá sem kallar ykkur er trúr og hann mun láta þetta verða.
25 Bræður og systur, haldið áfram að biðja fyrir okkur.+
26 Heilsið öllum bræðrum og systrum með heilögum kossi.
27 Í nafni Drottins legg ég þunga áherslu á að þið látið lesa þetta bréf upp fyrir alla bræðurna og systurnar.+
28 Einstök góðvild Drottins okkar Jesú Krists sé með ykkur.
Einnig nefndur Sílas.
Sjá viðauka A5.
Eða hugsanl. „baráttan“.
Eða „hlúir að brjóstabarni sínu“.
Orðrétt „vildum glaðir gefa ykkur ekki aðeins“.
Eða „sviptir samvistum við“.
Eða „ég“. Hugsanlegt er að Páll tali um sjálfan sig í fleirtölu.
Eða hugsanl. „samverkamann“.
Eða „gera ykkur staðföst“.
Eða „okkur var ætlað þetta“.
Orðrétt „allri neyð“.
Orðrétt „Við lifum“.
Eða „fyrirmæli“.
Á grísku pornei′a. Sjá orðaskýringar.
Orðrétt „keri sínu“.
Sjá viðauka A5.
Sjá viðauka A5.
Sjá viðauka A5.
Orðrétt „synir“.
Orðrétt „synir“.
Eða „sofum dauðasvefni“.
Eða „hughreysta“.
Eða „áminna óstýriláta“.
Eða „kjarklitla“.
Eða „líf“. Sjá orðaskýringar.