BRÉFIÐ TIL TÍTUSAR
1 Frá Páli, þjóni Guðs og postula Jesú Krists. Trú mín og postuladómur er í samræmi við trú útvalinna þjóna Guðs og nákvæma þekkingu á sannleikanum sem samræmist guðrækninni. 2 Hún byggist á von um eilífa lífið+ sem Guð lofaði endur fyrir löngu en hann getur ekki logið.+ 3 Á tilsettum tíma opinberaði Guð, frelsari okkar, orð sitt með boðuninni sem mér var trúað fyrir+ í samræmi við fyrirmæli hans. 4 Til Títusar sem er mér ósvikinn sonur í sameiginlegri trú okkar:
Megi Guð faðirinn og Kristur Jesús, frelsari okkar, sýna þér einstaka góðvild og veita þér frið.
5 Ég skildi þig eftir á Krít til að taka á því sem var í ólagi* og útnefna öldunga í borg eftir borg í samræmi við leiðbeiningar mínar. 6 Öldungur má ekki liggja undir ámæli, hann á að vera einnar konu eiginmaður, börn hans eiga að vera í trúnni og ekki vera sökuð um taumleysi* eða uppreisn.+ 7 Sem ráðsmaður Guðs má umsjónarmaður ekki liggja undir ámæli, ekki vera þrjóskur,+ ekki skapbráður,+ ekki drykkfelldur, ekki ofbeldismaður og ekki sólginn í efnislegan ávinning. 8 Hann á öllu heldur að vera gestrisinn,+ elska hið góða, vera skynsamur,*+ réttlátur og trúr+ og hafa góða stjórn á sjálfum sér.+ 9 Hann á að halda sig fast við hið áreiðanlega orð* þegar hann kennir+ til að geta bæði uppörvað* með því að kenna það sem er heilnæmt*+ og áminnt+ þá sem andmæla því.
10 Margir eru uppreisnargjarnir, blaðra út í bláinn og blekkja aðra, sérstaklega þeir sem aðhyllast umskurð.+ 11 Það þarf að þagga niður í þeim því að þeir kollvarpa trú heilla fjölskyldna. Þannig reyna þeir að hagnast á óheiðarlegan hátt. 12 Kríteyingur nokkur, þeirra eigin spámaður, sagði: „Kríteyingar ljúga stöðugt, eru óargadýr og latir mathákar.“
13 Þetta eru orð að sönnu. Þess vegna skaltu halda áfram að ávíta þá harðlega til að þeir verði heilbrigðir í trúnni 14 og séu ekki uppteknir af þjóðsögum Gyðinga og boðum manna sem snúa baki við sannleikanum. 15 Allt er hreint í augum þeirra sem eru hreinir,+ en í augum þeirra sem eru óhreinir og trúlausir er ekkert hreint því að bæði hugur þeirra og samviska er óhrein.+ 16 Út á við segjast þeir þekkja Guð en þeir afneita honum með verkum sínum.+ Þeir eru fyrirlitlegir, óhlýðnir og óhæfir til allra góðra verka.
2 En þú skalt tala um það sem samræmist hinni heilnæmu* kenningu.+ 2 Rosknir menn eiga að vera hófsamir, ábyrgðarfullir, skynsamir og heilbrigðir í trúnni, kærleikanum og þolgæðinu. 3 Rosknar konur eiga sömuleiðis að sýna með hegðun sinni að þær virða Guð, þær ættu ekki að fara með róg og ekki vera drykkfelldar. Þær eiga að kenna það sem er gott 4 og leiðbeina* yngri konum svo að þær elski menn sína og börn, 5 séu skynsamar, hreinlífar, annist heimilið, séu góðar og undirgefnar eiginmönnum sínum.+ Þá verður ekki talað niðrandi um orð Guðs.
6 Hvettu líka ungu mennina til að vera skynsamir+ 7 og vertu á allan hátt til fyrirmyndar með góðum verkum þínum. Kenndu í einlægni það sem er hreint*+ 8 með uppbyggilegum* orðum sem ekki er hægt að gagnrýna,+ svo að andstæðingar okkar skammist sín og hafi ekkert neikvætt* um okkur að segja.+ 9 Þrælar eiga að vera undirgefnir eigendum sínum í öllu,+ reyna að þóknast þeim, ekki svara þeim dónalega 10 og ekki stela frá þeim+ heldur vera algerlega áreiðanlegir svo að þeir verði kenningu Guðs, frelsara okkar, til lofs á allan hátt.+
11 Einstök góðvild Guðs hefur opinberast og hún leiðir til þess að alls konar fólk bjargast.+ 12 Hún kennir okkur að hafna óguðlegri hegðun og veraldlegum girndum+ og vera skynsöm, réttlát og guðrækin í núverandi heimi.*+ 13 Þannig eigum við að lifa meðan við bíðum eftir að okkar dásamlega von rætist+ og að hinn mikli Guð og Jesús Kristur, frelsari okkar, birti dýrð sína. 14 Kristur gaf sjálfan sig fyrir okkur+ til að frelsa okkur*+ frá hvers kyns vondum verkum* og hreinsa okkur svo að við yrðum hans eigin eign og ynnum góð verk af brennandi áhuga.+
15 Haltu áfram að kenna allt þetta, hvetja* og áminna með því umboði sem þú hefur fengið.+ Láttu engan líta niður á þig.
3 Minntu þau á að vera undirgefin og hlýðin stjórnvöldum og yfirvöldum,+ vera tilbúin til að gera það sem er gott, 2 tala ekki illa um neinn, vera ekki þrætugjörn heldur sanngjörn+ og vera alltaf mild í viðmóti við alla.+ 3 Einu sinni vorum við líka óskynsöm og óhlýðin, á villigötum, þrælar ýmissa langana og nautna, lifðum í illsku og öfund, vorum andstyggileg og hötuðum hvert annað.
4 En þegar Guð, frelsari okkar, birti mönnunum góðvild sína+ og kærleika 5 frelsaði hann okkur, ekki vegna réttlætisverka sem við höfðum unnið+ heldur vegna miskunnar sinnar.+ Hann gerði það með hreinsuninni* sem veitti okkur líf+ og með því að endurnýja okkur með heilögum anda.+ 6 Hann úthellti þessum anda ríkulega* yfir okkur fyrir milligöngu Jesú Krists, frelsara okkar,+ 7 til að við gætum orðið erfingjar+ með von um eilíft líf+ eftir að hafa verið lýst réttlát vegna einstakrar góðvildar hans.+
8 Þessi orð eru áreiðanleg og ég vil að þú haldir áfram að leggja áherslu á þetta þannig að þeir sem hafa tekið trú á Guð einbeiti sér að því að vinna góð verk. Það er gott og gagnlegt fyrir mennina.
9 En komdu ekki nálægt heimskulegum rökræðum, ættartölum, þrætum og deilum um lögin því að þær eru árangurslausar og til einskis.+ 10 Ef einhver ýtir undir sértrúarklofning+ skaltu forðast hann+ eftir að hafa áminnt hann* tvisvar+ 11 þar sem þú veist að slíkur maður hefur farið út af réttri braut. Hann syndgar og er sjálfdæmdur.
12 Þegar ég sendi Artemas eða Týkíkus+ til þín skaltu gera þitt ýtrasta til að koma og hitta mig í Nikópólis en ég hef ákveðið að vera þar í vetur. 13 Sjáðu um að Senas, sem er vel að sér í lögunum, og Apollós hafi það sem þeir þurfa til ferðarinnar og þá skorti ekkert.+ 14 En sjáðu líka til þess að trúsystkini okkar læri að vera upptekin af góðum verkum til að geta hjálpað í neyð+ og alltaf borið ávöxt.+
15 Allir sem eru með mér senda ykkur kveðjur. Ég bið að heilsa þeim sem eru í trúnni og er annt um okkur.
Megi einstök góðvild Guðs vera með ykkur öllum.
Eða „ábótavant“.
Eða „svall“.
Eða „hafa góða dómgreind“.
Eða „hinn áreiðanlega boðskap“.
Eða „hvatt“.
Eða „gagnlegt“.
Eða „gagnlegu“.
Eða „koma vitinu fyrir“.
Eða hugsanl. „Kenndu í hreinleika og einlægni“.
Eða „heilnæmum; gagnlegum“.
Eða „illt“.
Eða „á núverandi öld“. Sjá orðaskýringar, „heimsskipan“.
Orðrétt „endurleysa okkur; kaupa okkur laus“.
Eða „hvers kyns lögleysi“.
Eða „uppörva“.
Orðrétt „baðinu“.
Eða „örlátlega“.
Eða „varað hann við“.