Sýnum þakklæti fyrir lausnargjaldið
1 Það er öllum menningarsamfélögum sameiginlegt að þrá að sýna að þau kunni að meta látna vini eða ættingja. Þessi löngun getur orðið sérstaklega sterk þegar hinn látni ástvinur hefur beðið bana við að bjarga lífi annarra. Allir þeir sem hafa öðlast þá von að lifa að eilífu hafa mikla ástæðu til að sýna þakklæti sitt fyrir lausnargjaldið og það gera þeir meðal annars með því að sækja minningarhátíðina um dauða Krists sem haldin verður hinn 6. apríl. — 2. Kor. 5:14; 1. Jóh. 2:2.
2 Verum þakklát fyrir kærleika Jehóva: Enginn hefur sýnt okkur slíka velvild sem Jehóva Guð og því er sannarlega viðeigandi að við sýnum hið dýpsta þakklæti gagnvart honum. (1. Jóh. 4:9, 10) Hversu djúpt kærleikur Jehóva ristir sést af þeirri einstöku gjöf er hann gaf sem lausnargjald okkar. Hann gaf ekki aðeins einn af milljónum réttlátra engla heldur eingetinn, heittelskaðan son sinn. (Orðskv. 8:22, 30) Þessi sonur, Jesús Kristur, sem best þekkir Jehóva, minnti okkur á þetta: „Því að svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ — Jóh. 3:16.
3 Verum þakklát fyrir kærleika Jesú Krists: Á sama hátt er viðeigandi að við sýnum djúpt þakklæti gagnvart Jesú Kristi sem gaf sál sína sem lausnargjald fyrir marga. (Matt. 20:28) Kærleikur hans kemur fram í því að hann laut fúslega vilja Jehóva með hann í tengslum við lausnargjaldið. Hugsaðu um hvernig hann, sem bjó við stórkostlegar og einstakar kringumstæður hjá föður sínum og milljónum engla, fór frá þeim öllum til að vera lausnargjald fyrir okkur. Hvorki sú áskorun að búa á meðal syndugra manna og þurfa að lúta þeim né sú vitneskja að það myndi leiða til dauða hans að leggja fram lausnargjaldið, dró aftur af honum. Öllu heldur „tók [hann] á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann . . . lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi.“ — Fil. 2:5-8.
4 Hvernig sýnum við þakklæti fyrir lausnargjaldið?: Þakklæti okkar fyrir lausnargjaldið verður að ná lengra en aðeins að segja það. Við þurfum að læra um ráðstöfun Guðs til hjálpræðis fyrir milligöngu Jesú Krists. (Jóh. 17:3) Síðan verðum við að iðka trú á lausnargjaldið. (Post. 3:19) Við verðum að finna okkur knúin til að ganga Jehóva á hönd með því að vígja okkur honum og láta skírast. (Matt. 16:24) Þegar við lifum samkvæmt vígsluheiti okkar ættum við að vera á höttunum eftir hverju tækifæri til að segja öðrum frá lausnargjaldinu, hinni dásamlegu ráðstöfun okkur til hjálpræðis. — Rómv. 10:10.
5 Það er engum okkar um megn að mæta þessum kröfum. Míka 6:8 fullvissar okkur: „Og hvað heimtar [Jehóva] annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum.“ Á sama hátt sagði Davíð við Jehóva: „Frá þér er allt, og af þínu höfum vér fært þér gjöf.“ — 1. Kron. 29:14.
6 Til að dýpka og auka þakklæti okkar fyrir þessa dásamlegu ráðstöfun Jehóva væri ekki úr vegi, áður en minningarhátíðin rennur upp, að lesa og ræða saman innan fjölskyldunnar kafla 112 til 116 í bókinni Mesta mikilmenni sem lifað hefur. Á þann hátt getum við öll búið okkur í huganum undir að sýna þakklæti okkar fyrir lausnargjaldið á minningarhátíðinni sem haldin verður 6. apríl 1993.