Heimabiblíunámum komið af stað
1 Einhver sú allra umbunarríkasta og ánægjulegasta reynsla kristins manns er að kenna einhverjum sannleikann með því að hafa með honum heimabiblíunám. Þó eiga sumir ekki hlutdeild í þessari auðgandi grein þjónustunnar vegna þess að þeim finnst þeir ófærir um að stofna og stýra biblíunámi. Mörgum afburða boðberum og brautryðjendum fannst þetta eitt sinn. En með því að treysta á Jehóva og notfæra sér tillögurnar í Ríkisþjónustu okkar lærðu þeir að stofna og stýra biblíunámum, og gleði þeirra í þjónustunni jókst. Þú getur stefnt að sama marki.
2 Beina aðferðin notuð og smárit: Ein auðveldasta leiðin til að stofna biblíunám er beina aðferðin. Stundum þarf ekki meira en að bjóða húsráðandanum hlýlega að nema með honum Biblíuna. Það má gera með því einfaldlega að spyrja: „Myndir þú vilja hafa persónulegt heimabiblíunám og auka þekkingu þína á Biblíunni og fyrirætlun Guðs með jörðina?“ Eða þú gætir sagt húsráðandanum að þú vildir gjarnan sýna honum hvernig heimabiblíunám fer fram. Þó að margir hafni sjálfsagt þessu boði, ímyndaðu þér gleði þína ef þú finnur einhvern sem þiggur það.
3 Önnur leið til að koma af stað biblíunámi er að nota eitt smáritanna. Þótt þau séu smá er boðskapur þeirra kröftugur og sannfærandi. Hvernig má stofna nám í smáriti? Einfaldlega með því að gefa húsráðandanum smárit sem þú heldur að hann muni hafa áhuga á. Taktu síðan frumkvæðið og bjóddu honum að lesa fyrstu efnisgreinina með þér. Flettu upp ritningarstöðunum og ræddu um hvernig þeir tengjast efninu. Í fyrstu heimsókn gætir þú farið yfir aðeins eina eða tvær greinar. Er húsráðandinn fer að gera sér ljóst að hann er að læra áhugaverða hluti frá Biblíunni gætir þú ef til vill lengt þann tíma sem þú notar til umræðnanna.
4 Biblían notuð eingöngu: Stundum fellst fólk á að ræða um Biblíuna en er tregt til að þiggja formlegt nám eða nota eitt af ritum okkar. Þú getur engu að síður stofnað og stýrt biblíunámi með því að undirbúa áhugaverðar biblíuumræður byggðar á kafla í Lifað að eilífu bókinni eða Rökræðubókinni en notað síðan aðeins Biblíuna þegar þú kemur í heimsókn. Slíkar umræður gætu tekið 15 til 20 mínútur eða lengur, allt eftir aðstæðum. Sé þetta gert reglulega og biblíusannindi kennd stig af stigi hefur þú stofnað biblíunám og getur gefið skýrslu um það sem slíkt. Á réttum tíma skaltu síðan kynna Lifað að eilífu bókina og stýra formlegu biblíunámi í henni.
5 Hefur þú, auk þess að leita tækifæra í boðunarstarfinu, leitast við að stofna biblíunám með nágrönnum, kunningjum eða fjölskyldumeðlimum? Er allnokkur tími liðinn? Hefur þú reynt aftur nýlega? Ef ein aðferð verkaði ekki hefur þú þá hugleitt að reyna aðra?
6 Þér getur tekist að koma af stað námum ef þú notar þær tillögur sem gefnar eru, lætur ekki deigan síga í boðunarstarfinu og treystir á að Jehóva blessi þig. Vanmettu aldrei afl sannleikans og hjálparinnar sem Jehóva veitir. Megir þú auka gleði þína í þjónustunni með því að koma af stað og stýra heimabiblíunámum.