Bjóðum bestu blöð í heimi
1 Yfirlýstur tilgangur Varðturnsins er „að upphefja Jehóva Guð sem drottinvald alheimsins.“ Vaknið! er „fræðandi tímarit fyrir alla fjölskylduna. . . . Þetta tímarit byggir upp trúartraust til fyrirheits skaparans um friðsælan og öruggan nýjan heim.“ Svo segir í blöðunum sjálfum. Þau hafa keppt að þessum markmiðum og þar af leiðandi orðið milljónum lesenda til hughreystingar.
2 Í apríl og maí er aukin áhersla lögð á þessi tímarit í þjónustu okkar. Til að ná góðum árangri þurfum við að þekkja efni þeirra vel. Lestu hvert tölublað og taktu eftir atriðum sem þú kannt að geta notað þegar þú býður blaðið. Hugsaðu um hvað fólk hefur áhyggjur af. Hvaða félagsleg, fjölskyldu- eða tilfinningaleg málefni eru flestum nágranna þinna efst í huga? Reyndu að láta þér detta eitthvað í hug sem hægt er að segja til að snerta hjörtu þeirra og örva hjá þeim löngunina til að heyra meira.
3 Þegar þú notar apríltölublað Varðturnsins: Flestir þrá betri heim, veröld þar sem samhugur ríkir og ekkert rænir menn lífsgleðinni.
Þú gætir ef til vill sagt:
◼ „Mætti ég sýna þér athyglisverða grein sem heitir ‚Er samkeppni lykillinn að velgengni?‘ Margir telja samkeppni milli manna æskilega en leyfðu mér að sýna þér hvað stendur í Prédikaranum 4:4.“ Eftir að hafa lesið versið gætir þú spurt húsráðandann hvað honum finnist um hinn harða samkeppnisanda í nútímaþjóðfélögum. Ef hann bregst vel við gætir þú sýnt honum greinina „Hugarfriður í þjóðfélagi samkeppninnar“ og sagt: „Þessi grein bendir á hvernig Jesús Kristur, sem þekkti mannlegt eðli mjög vel, ýtti ekki undir samkeppnisanda heldur þvert á móti. Með mörgum dæmum sýnir Biblían hvernig okkur getur vegnað vel núna og í framtíðinni án þess að láta samkeppnisandann ræna okkur hugarró. Ég gæti vel trúað að þú hefðir ánægju af að lesa þessar greinar og fletta upp ritningarstöðunum. Þér er velkomið að fá þessi blöð ef þú kærir þig um að lesa þau.“ Ef við á getur þú nefnt að starf okkar sé kostað með frjálsum framlögum og þú sért fús að taka við smávegis framlagi.
4 Þegar þú notar maítölublað Varðturnsins: Greinin á blaðsíðu 4 ræðir um ‚erindreka hins illa.‘
Eftir að hafa kynnt þig gætir þú sagt:
◼ „Mörgum finnst illskiljanlegt hvernig menn geta sýnt þá grimmd sem birst hefur í styrjaldarátökum þessarar aldar. Getur verið að til séu ofurmannleg öfl sem ýta undir slíka hegðun? Biblían svarar því játandi en hvað álítur þú?“ Gefðu húsráðandanum kost á að svara. Ef viðbrögðin eru jákvæð gætir þú lesið Opinberunarbókina 12:12 og sýnt greinina á blaðsíðu 4 í Varðturninum. Að öðrum kosti mætti láta nægja að skilja eftir smáritið Hver er höfðingi heimsins?
5 Ef þú kýst frekar að nota Vaknið! gætir þú notað inngangsgreinarnar sem fjalla um nýjan heim. Fallegu myndirnar og jákvæður boðskapur þessara greina verkar vafalaust uppörvandi á marga sem þrá betri og réttlátari heim.
6 Ef tímarit okkar, bestu blöð í heimi, vekja hjá okkur eldmóð verðum við full ákafa að koma þeim í hendur annarra svo að þeir geti einnig öðlast vonina um Guðsríki og tekið þátt í að upphefja Jehóva sem drottinvald alheimsins. — Sálm. 83:19.