Hvetjið þá til að gerast fylgjendur hans
1 Í 1. Korintubréfi 3:6 skrifaði Páll: „Ég gróðursetti, Apollós vökvaði, en Guð gaf vöxtinn.“ Páll notaði þessa röksemdafærslu til að hjálpa bræðrum sínum að sjá nauðsyn þess að starfa sameinaðir undir forystu Krists. Á þennan hátt hjálpaði hann þeim líka að gera sér grein fyrir hinu nauðsynlega hlutverki sem þeir gegndu í því mikilvæga starfi að sá og vökva.
2 Á okkar tímum verður endir bundinn á þetta starf sem bjargar mannslífum. Sem vígðir kristnir menn eigum við hlutdeild í þeirri miklu ábyrgð að hjálpa öðrum að verða fylgjendur Jesú. (Post. 13:48) Hvernig fylgir þú eftir þeim áhuga sem þú gast vakið upp með því að ræða um Jesú og hlutverk hans?
3 Ef þú ert að heimsækja aftur þá sem þáðu desembertölublað „Varðturnsins“ gætir þú sagt:
◼ „Þegar við áttum tal saman síðast ræddum við um að Jesús væri ekki lengur smábarn heldur ríkjandi konungur á himni. Trúfastir þjónar Guðs, englar jafnt sem menn, lofuðu Guð þegar Jesús fæddist vegna þess að þar var komið hjálpræði manna. En hvernig verður Jesús mönnum til hjálpræðis?“ Gefðu kost á svari og lestu síðan Lúkas 1:32, 33. Notaðu ritningarstaði eins og Jesaja 9:6, 7 og Daníel 2:44 til að sýna hverju Guðsríki mun áorka. Að því búnu gætir þú útskýrt hvernig læra má meira með reglulegu biblíunámi.
4 Ef þú notaðir smáritið „Hver er höfðingi heimsins“ gætir þú sagt:
◼ „Um daginn ræddum við svolítið um það hver væri höfðingi heimsins. Hvaða vísbendingu finnst þér heimsástandið gefa í því efni?“ Gefðu kost á svari. Rifjaðu upp það sem segir í grein 3 og 4 á blaðsíðu 2 í smáritinu. Lestu grein 5 og leyfðu húsráðandanum að svara spurningunum. Farðu yfir efnið á blaðsíðu 3 og 4 og notaðu myndina. Ef húsráðandinn sýnir áhuga getur þú boðið honum bæklinginn Ber Guð í raun umhyggju fyrir okkur? Bentu á hvaða gagn hann hefur af því að fræðast meira um þetta efni.
5 Við þann sem þáði „Biblíusögubókina“ gætir þú sagt:
◼ „Þegar ég var hér síðast töluðum við um hve heimurinn myndi vera allur annar ef menn reyndu almennt að líkja eftir Kristi og fara eftir því sem hann kenndi. Heldurðu að það sé einhver von til þess að hegðun manna fari að snúast meira í þá áttina? [Gefðu kost á svari.] Biblían svarar þessari spurningu. [Lestu Matteus 24:12 og 2. Tímóteusarbréf 3:1-3.] Það er ljóst að í slíku umhverfi er erfitt að halda sér og fjölskyldu sinni á réttri braut. En það er hægt með því að leita aðstoðar á réttum stað.“ Ef áhugi er fyrir hendi gætir þú notað Míka 4:1-4 sem umræðugrundvöll. Bentu á hversu góða undirstöðuþekkingu Biblíusögubókin getur veitt og leggðu drög að næstu heimsókn.
6 Þú gætir reynt þessa beinu aðferð:
◼ „Síðast þegar ég var hér ræddum við um mikilvægi þess að öðlast nákvæma þekkingu á Jesú. Jóhannes 17:3 segir að ‚það sé hið eilífa líf‘ að afla sér slíkrar þekkingar. Hvernig getum við gert það?“ Gefðu kost á svari. Haltu áfram með því að útskýra hvernig við bjóðum fólki biblíunám og hvernig fólk geti nýtt sér það.
7 Páll segir að verkamaður við uppskeruna muni „fá laun eftir sínu erfiði.“ (1. Kor. 3:8) Ef við leggjum okkur af kappi fram við að hjálpa öðrum að verða fylgjendur Jesú er víst að laun okkar verða mikil.