Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • km 9.99 bls. 8
  • Hvað geturðu sagt við hindúa?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvað geturðu sagt við hindúa?
  • Ríkisþjónusta okkar – 1999
  • Svipað efni
  • Að bera vitni fyrir fólki af öllum tungum og trúarbrögðum
    Ríkisþjónusta okkar – 1998
  • Notarðu þessa bæklinga?
    Ríkisþjónusta okkar – 2012
  • Hjálpum þeim sem eru ekki tilbúnir til að fara yfir bókina Hvað kennir Biblían?
    Ríkisþjónusta okkar – 2013
  • Kynningartillögur fyrir boðunarstarfið
    Ríkisþjónusta okkar – 2002
Sjá meira
Ríkisþjónusta okkar – 1999
km 9.99 bls. 8

Hvað geturðu sagt við hindúa?

1 Eins og þú sjálfsagt veist býr fjöldi hindúa í ýmsum löndum, einnig hér á landi. Þess vegna munt þú sennilega hitta hindúa fyrr eða síðar í boðunarstarfinu. Hvað ætlarðu að segja þegar þar að kemur?

2 Hafðu þetta í huga: Trúboðar, sem hafa borið vitni fyrir hindúum með góðum árangri, telja óþarft að sökkva sér ofan í rannsóknir á hindúisma til að vitna fyrir þeim á áhrifaríkan hátt. Oft getur einföld en smekkleg kynning á sannleikanum borið góðan árangur. Fáðu að tala við húsbóndann fyrst. Sé hann vingjarnlegur verður auðveldara að vitna fyrir öðrum í fjölskyldunni. Í byrjun skaltu varast að gefa til kynna að boðskapurinn, sem þú hefur fram að færa, sé æðri trú húsráðandans eða að þú ætlir að ræða um hinn eina sanna Guð eða elstu helgiritin. Margir hindúar líta á Biblíuna sem vestræna bók. Þú getur þess vegna eytt fordómum með því að benda á að Biblían styðji hvorki nýlendustefnu né haldi því fram að einn kynþáttur sé öðrum æðri.

3 Notaðu réttu verkfærin: Tveir bæklingar hafa beinlínis verið gefnir út fyrir hindúa. Annar þeirra, Why Should We Worship God in Love and Truth?, hefur verið prentaður á gújaratí og púnjabí og Our Problems — Who Will Help Us Solve Them? hefur verið prentaður á 11 indverskum tungumálum til viðbótar. Þeir eru báðir fáanlegir á ensku. Bæklingarnir „Sjá, ég gjöri alla hluti nýja“ og Ber Guð í raun umhyggju fyrir okkur? hafa einnig reynst vel til að vitna fyrir fólki af hindúauppruna. Það má með góðum árangri nota Kröfubæklinginn og Þekkingarbókina sem hjálpargögn á biblíunámskeiðum.

4 Leggðu áherslu á sameiginleg áhugamál: Það er ekki erfitt að finna málefni sem hindúar geta verið okkur sammála um. Þeir trúa því að illskan sé í hámarki nú á dögum og að Guð afnemi vandamál heimsins í miklum hamförum og í kjölfar þeirra komi svo tímabil sannleikans. Það er því auðséð að það má tengja þessa trú við kenningar Biblíunnar um hina síðustu daga, þrenginguna miklu og nýja heiminn sem framundan er. Í augum flestra hindúa er lífið röð vandamála, sem engin lausn finnst á, og þess vegna hafa þeir áhuga á málefnum eins og fjölskyldlífi, glæpum og öryggi og hvað gerist við dauðann. Hér á eftir fara tvö dæmi um kynningarorð sem þú gætir reynt:

5 Þetta gæti höfðað til fjölskyldufólks:

◼ „Ég hef verið að fara til fólks sem hefur áhyggjur af stöðu fjölskyldulífsins víða um heim. Hvað álítur þú að tengi fjölskylduna saman? [Bíddu eftir svari.] Sumir vita hvað ritningar hindúa segja um fjölskylduna en hafa aldrei haft tækifæri til að bera það saman við það sem Biblían segir um þetta efni. Mig langar til að sýna þér hvað stendur í Kólossubréfinu 3:12-14.“ Þegar þú ert búinn að lesa ritningarstaðinn skaltu sýna húsráðandanum 15. kaflann í Þekkingarbókinni og segja: „Ég hef smástund aflögu og mér þætti gaman að lesa þennan kafla með þér.“

6 Þetta gæti vakið áhuga ungs fólks:

◼ „Þú trúir vafalaust á Guð. Hver heldur þú að sé tilgangur hans með mennina?“ Bíddu eftir svari. Lestu síðan 1. Mósebók 1:28 og segðu: „Jörðinni stafar víða ógn af vandamálum og offjölgun. Heldurðu að skaparinn vilji hjálpa okkur að leysa þessi vandamál?“ Þegar þú hefur hlustað á svarið skaltu sýna það rit sem við á.

7 Náðu góðum árangri: Tuttugu og tveggja ára hindúi bað systur, sem var í boðunarstarfinu á markaði, um biblíunámskeið. Hann sagðist hafa hlustað á biblíulegar umræður hennar og móður sinnar átta árum áður. Enda þótt móðir hans hefði ekki haft áhuga og honum fyndist hann vera of ungur til að leita sannleikans á eigin spýtur þá heillaðist hann af því hve Biblían hafði hagkvæmar lausnir á vandamálum manna. En sem fullorðinn vildi hann nú læra meira. Ungi maðurinn sóaði ekki tímanum. Hann lauk biblíunámskeiði með aðstoð Þekkingarbókarinnar á einungis 23 dögum og aðeins fjórum mánuðum eftir að hann hitti systurina á markaðnum óskaði hann eftir að láta skírast.

8 Bróðir fór að kenna hindúa, sem hann hitti í járnbrautarlest, sannindi Biblíunnar. Maðurinn átti bæði við hjónabandserfiðleika og drykkjuskap að stríða. Hann féllst á að votturinn kæmi til sín og sýndi sér ráðleggingar Biblíunnar um fjölskyldumál. Siðferðiskenningar Biblíunnar höfðuðu til hans og hann þáði biblíunámskeið. Hann fór að sækja samkomur ásamt fjölskyldu sinni. Fjölskyldan fór seinna að segja vinum og ættingjum frá sannleikanum. Sex þeirra hafa fram að þessu tekið á móti sannleikanum.

9 Það er vilji Guðs að „allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.“ (1Tim 2:4) Þeirra á meðal eru menn og konur sem aðhyllast trúarbrögð, sem eru ekki af kristnum toga, eins og hindúatrú. Ef það eru hindúar búsettir á þínu svæði skaltu fara fljótlega til þeirra og nota tillögurnar sem hafa verið kynntar í greininni.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila