Sýndu umhyggju þína með því að fara í endurheimsóknir
1 Ef þú tekur þátt í að leita að áhugasömu fólki með því að boða fagnaðarerindið hús úr húsi sýnir það löngun þína til að gefa öðrum tækifæri til að heyra boðskapinn um Guðsríki. Gættu þess því að fara aftur til þeirra sem fengu rit í janúar. Það er líka góð leið til að sýna að þú berir umhyggju fyrir öðrum.
2 Ef húsráðandinn þáði „Friðarbókina“ gætir þú tekið upp þráðinn á þessa leið:
◼ „Þjóðaleiðtogarnir nú á dögum hafa ekki getað komið á friði og öryggi. Jehóva Guð er sá eini sem getur gert það og hann mun örugglega gera það. Biblían sýnir okkur hvernig hann fer að því og hvað við þurfum hvert og eitt að gera til að njóta góðs af. [Notaðu efni í grein 1 og 2 á blaðsíðu 178 og lestu síðan Jesaja 26:4.] Ég vildi gjarnan fá að sýna þér hvernig þessi bók getur hjálpað þér að velja þann veg sem mun veita þér líf við sannan frið og öryggi.“
3 Ef þú útbreiddir bókina með því að tala einkum um Guðsríki gætir þú sagt:
◼ „Síðast töluðum við um Guðsríki og hvað það eigi eftir að gera fyrir okkur. Það ríki mun bráðlega breyta jörðinni í paradís. En margir tengja orðið paradís við eitthvað óraunverulegt. Hvað kemur þér í hug þegar það orð er nefnt?“ Gefðu kost á svari og notaðu síðan efni úr grein 8 og 9 á blaðsíðu 100. Leggðu áherslu á hversu eðlilegt það er manninum að vilja búa í slíku umhverfi. Ef áhugi er fyrir hendi getur þú haldið áfram að ræða um efni í 9. kaflanum og reynt að leggja drög að biblíunámi.
4 Eftirfarandi tillögu mætti nota ef þú talaðir um illskuna og óréttlætið í heiminum:
◼ „Margir hafa velt fyrir sér hvers vegna Guð leyfir illskuna og þjáningarnar sem við sjáum og fréttum af allt í kringum okkur. Í Biblíunni er þó að finna svar við þessari spurningu. En til þess að koma auga á það þurfum við að skoða hana vandlega, ekki síst frásagnir hennar af samskiptum Guðs við ákveðna einstaklinga og þjóðir til forna.“ Bentu á aðalatriðin í grein 6 á blaðsíðu 60 og ef áhugi er fyrir hendi má taka fyrir fleiri atriði í 6. kaflanum.
5 Ef þú útbreiddir bæklinginn „Ber Guð í raun umhyggju fyrir okkur?“ gætir þú fylgt því eftir á þennan hátt:
◼ „Í fyrri heimsókn minni skildi ég eftir hjá þér þennan bækling sem varpar fram þessari mikilvægu spurningu: ‚Ber Guð í raun umhyggju fyrir okkur?‘ Að hvaða niðurstöðu komst þú eftir að hafa litið yfir bæklinginn? [Gefðu kost á svari.] Líklega var það uppörvandi fyrir þig að lesa þá ritningarstaði sem lofa nýjum paradísarheimi þar sem við getum búið í friði við bæði menn og málleysingja. [Sýndu myndirnar á blaðsíðu 2 og 3 og bentu á nokkrar hrífandi hliðar á nýja heiminum.] Ég er viss um að þú og ástvinir þínir vilduð búa í slíkum heimi. Taktu eftir því sem grein 16 á blaðsíðu 31 segir um það.“ Lestu greinina og bentu á að það að leita að Jehóva þýðir að læra meira um hann og tilgang hans með því að nema orð hans, Biblíuna.
6 Jehóva hefur gefið fullkomið fordæmi sem ástríkur hirðir sem annast sauði sína. (Esek. 34:11-14) Einlæg viðleitni okkar til að líkja eftir kærleiksríkri umhyggju hans gleður hann, sýnir kærleika okkar og færir öðrum blessun.