Notaðu bæklinga til að höfða til huga og hjarta fólks
1 Sannindi Biblíunnar ætti að kynna þannig að þau höfði til huga og hjarta fólks. Þegar Jesús útskýrði sannleikann fyrir áheyrendum sínum valdi hann efni sem þeir höfðu áhuga á og hvatti þá. (Lúk. 24:17, 27, 32, 45) Árangur boðunarstarfsins veltur að miklu leyti á viðleitni okkar til að koma auga á andlegar þarfir áheyrenda okkar.
2 Bæklingar geta verið áhrifarík verkfæri til að ná til huga og hjarta þeirra sem við hittum í boðunarstarfinu. Hugsaðu fyrirfram um hverjir gætu brugðist vel við boðskap hvers bæklings sem við bjóðum í ágúst:
— Ber Guð í raun umhyggju fyrir okkur? Þeir sem eiga í fjárhagserfiðleikum eða hafa orðið fyrir áföllum kunna að meta þennan huggandi boðskap um framtíð án þjáninga.
— Hver er tilgangur lífsins — hvernig getur þú fundið hann? Unglingar, sem hugsa alvarlega um framtíðina, hafa gagn af þeim svörum Biblíunnar sem er að finna í bæklingnum.
— „Sjá, ég gjöri alla hluti nýja.“ Þessi bæklingur á erindi til allra sem langar til að kynnast Biblíunni betur. Hann gefur góða yfirsýn yfir meginkenningar hennar og bendir lesandanum á hina björtu framtíð sem Guð lofar.
— Stjórnin sem koma mun á paradís. Allir sem tengjast stjórnsýslu gætu brugðist vel við boðskap þessa bæklings um hvernig ríki Guðs leysir erfið vandamál mannkyns.
— Þegar ástvinur deyr. Margir útfararstjórar eru þakklátir fyrir að hafa þennan bækling tiltækan fyrir syrgjandi fjölskyldur. Boðberar, sem bera vitni í kirkjugörðum, nota þennan bækling til að hugga syrgjendur. Tvær systur tóku tali sjö manna fjölskyldu sem var að biðja við gröf nokkra. Biblíunámskeið var hafið með móðurinni daginn eftir vegna þess að þær bentu á hughreystandi boðskap bæklingsins!
— Ættum við að trúa á þrenninguna? Strangtrúaður maður gæti brugðist vel við sannleikanum sem er að finna í þessari vel rökstuddu afhjúpun á grundvallarkenningu kristna heimsins.
3 Kynntu þér hvern bækling og ákveddu hvernig best sé að nota þá á þínu svæði. Kynningartillögur er að finna á baksíðu Ríkisþjónustu okkar í júlí 1998. Megi Jehóva blessa viðleitni þína til að höfða bæði til huga og hjarta fólks. — Mark. 6:34.