Rökræðir þú út af Ritningunni?
1 Reyndur hermaður, sem fer í stríð, er vel vopnum búinn, bæði til sóknar og varnar. Fær iðnaðarmaður, sem býr sig undir að starfa við stórar byggingarframkvæmdir, hefur með sér þau tæki og tól sem hann þarf til að ljúka verkinu. Þjónn Jehóva í boðunarstarfinu mun hafa „sverð“ sitt í hendinni og beita því af leikni við hvert tækifæri. (Ef. 6:17) Gerir þú það? Lætur þú orð Guðs tala, þegar þú tekur þátt í boðunarstarfinu, til þess að heilagur andi geti snortið hjörtu þeirra sem hlusta á þig? — Orðskv. 8:1, 6.
2 Prédikunarstarfið er ekki alltaf auðvelt. Á sumum svæðum er fólk sjaldan heima og þeir sem koma til dyra eru oft uppteknir sem gefur lítið tækifæri til verulegra umræðna út frá Biblíunni. Hvernig getum við notað Biblíuna meira í starfinu, þar sem hún er aðalkennslubók okkar, og leyft innblásnum boðskap hennar að hafa áhrif á áheyrendur okkar?
3 Við hvert tækifæri: Við viljum gjarnan nota Biblíuna við dyrnar á hverju heimili til að kveikja áhuga hjá húsráðandanum. Við verðum að vera undir það búin óháð því hvaða rit við bjóðum. Ef hann á annríkt og tími gefst ekki til að opna Biblíuna og lesa eitt eða tvö vers, gætir þú þá vitnað í eða endursagt ritningarstað áður en þú býður rit? Það eitt gæti fengið menn til að staldra við og hlusta.— Hebr. 4:12.
4 Ef þú ert að kynna nóvembertölublað Varðturnsins með greininni „Hvers vegna að prófa nákvæmni Biblíunnar?“ gætir þú spurt: „Ætli vaxandi þekking manna hafi sýnt að Biblían sé ónákvæm?“ Hvert sem svarið er gætir þú ef til vill lesið Jesaja 40:22 eða Jobsbók 26:7 beint frá Biblíunni, greininni eða endursagt ritningarstaðina með eigin orðum. Á þann hátt lætur þú orð Guðs tala til áheyrenda þinna.
5 Í endurheimsóknum: Við ættum að undirbúa okkur áður en við förum í endurheimsóknir. Hins vegar koma oft upp málefni sem við höfum ekki búið okkur undir að ræða um. Þá getur Rökræðubókin reynst verðmætt verkfæri. Þegar við vitnum í eða lesum ritningarstaðina, sem Rökræðubókin notar til að styðja röksemdafærsluna, munum við gera fólki kleift að sjá að við erum ekki að pranga með orð Guðs heldur erum þjónar hans. — 2. Kor. 2:17.
6 Þegar þú ferð aftur þangað sem ekkert sérstakt málefni var rætt gætir þú einfaldlega slegið upp viðeigandi efni í Rökræðubókinni, eins og „Jesús Kristur,“ „Síðustu dagar“ eða „Upprisa“ og notað undirfyrirsögn til að hefja umræðurnar. Bjóða mætti húsráðendum að lesa suma ritningarstaðina frá sinni eigin biblíu. Á þann hátt mun Biblían verða þeim lifandi og heilagur andi Jehóva mun streyma fram ef þeir hneigjast til réttlætis.
7 Það er alvarleg ábyrgð sem á okkur hvílir að prédika fagnaðarerindið og aðvara þá sem illt fremja. Það er boðskapur Jehóva, ekki okkar. Láttu orð hans, sverð andans, hjálpa þér.