Sáðu ríflega en með hyggindum
1 Hver bóndi veit að ef hann sáir sæði sínu ríflega muni hann líklega fá ríflega uppskeru, en sái hann sparlega muni hann örugglega uppskera sparlega. (2. Kor. 9:6) Bændur gæta þess að sóa ekki sæðinu með því að sá þar sem enginn möguleiki er á vexti. Sýna þarf sams konar hyggindi þegar við bjóðum ritin okkar úti á akrinum. Okkur langar til að skilja eftir rit hjá þeim sem hafa áhuga á að lesa þau. Við viljum gefa verðugum tækifæri til að fræðast um óverðskuldaða góðvild Jehóva og vonina um Guðsríki.
2 Tekur þú eftir að blöð, bæklingar og önnur rit safnist gjarnan fyrir uppi á hillu eða inni í skáp heima hjá þér þegar nota mætti þau til að færa verðugum einstaklingum á starfssvæði þínu þekkingu á sannleikanum? (Samanber Matteus 25:25.) Ert þú stundum hikandi við að bjóða blöð eða önnur rit í fyrstu heimsókn einungis vegna þess að þér finnst það vandræðalegt að nefna hvernig staðið er undir prédikunarstarfinu um Guðsríki? Reyndir boðberar hafa komist að raun um að þakklátir húsráðendur bregðast vel við þegar þeim er sagt með einföldum, beinum orðum hvernig frjáls framlög til starfs Guðsríkis eru meðhöndluð.
3 Þú gætir sagt:
◼ „Þú veltir ef til vill fyrir þér hvernig við getum boðið rit okkar endurgjaldslaust. Það er liður í alþjóðlegu fræðslustarfi sem kostað er með frjálsum framlögum. Ef þig langar til að leggja lítið eitt fram til þessa starfs væri mér ánægja að taka við því.“
4 Margir húsráðendur munu spyrja hvað ritin kosti.
Þú gætir svarað:
◼ „Það er ekki beðið um greiðslu fyrir ritin af því að starfi okkar er haldið uppi með frjálsum framlögum. Ef þig langar til að leggja lítið eitt af mörkum í dag væri okkur ánægja að sjá til þess að það yrði notað í þágu hins alþjóðlega prédikunarstarfs.“
Eða þú gætir sagt:
◼ „Við gefum öllum sem hafa áhuga á að læra meira um Biblíuna kost á að fá ritin okkar. Ef þig langar til að leggja lítið eitt fram til þessa alþjóðlega starfs væri ég fús til að koma því til skila fyrir þig.“
5 Í blaðastarfinu sýna margir boðberar útgefandasíðuna í blaðinu og segja:
◼ „Eins og þú sérð hér er starf okkar kostað með frjálsum framlögum. Ef þig langar til að leggja lítið eitt fram til stuðnings þessu starfi er ég í aðstöðu til að koma því á réttan stað.“
Hér er önnur einföld setning:
◼ „Þó að rit okkar séu boðin endurgjaldslaust þiggjum við lítilsháttar framlög til alþjóðastarfs okkar.“
6 Við ættum aldrei að láta tregðu til að nefna hvernig starfið er fjármagnað halda aftur af okkur við að sá sæði Guðsríkis. Jafnframt þurfum við að vera hyggin til þess að ritum okkar sé ekki sóað á „grýtta jörð.“ (Mark. 4:5, 6, 16, 17) Þeim sem kunna að meta fagnaðarerindið sem við færum þeim er það ánægja að fá tækifæri til að leggja eitthvað af mörkum til að styðja það fjárhagslega. — Samanber Matteus 10:42.