Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • nwt Efesusbréfið 1:1-6:24
  • Efesusbréfið

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Efesusbréfið
  • Biblían – Nýheimsþýðingin
Biblían – Nýheimsþýðingin
Efesusbréfið

BRÉFIÐ TIL EFESUSMANNA

1 Frá Páli, postula Krists Jesú samkvæmt vilja Guðs, til hinna heilögu sem eru í Efesus+ og eru trúfastir fylgjendur Krists Jesú.

2 Megi Guð faðir okkar og Drottinn Jesús Kristur sýna ykkur einstaka góðvild og veita ykkur frið.

3 Lofaður sé Guð og faðir Drottins okkar Jesú Krists sem hefur veitt okkur hvers kyns andlega blessun á himnum því að við erum sameinuð Kristi.+ 4 Hann valdi okkur áður en heimurinn var grundvallaður til að vera sameinuð honum* svo að við stæðum heilög og óflekkuð+ frammi fyrir honum í kærleika. 5 Hann ákvað fyrir fram+ að ættleiða okkur sem syni sína+ fyrir milligöngu Jesú Krists. Það var ósk hans og vilji+ 6 að hann fengi lof fyrir þá einstöku góðvild+ sem hann sýndi okkur í örlæti sínu fyrir milligöngu elskaðs sonar síns.+ 7 Vegna hans erum við leyst með lausnargjaldi, það er blóði hans.+ Já, Guð hefur fyrirgefið afbrot okkar+ því að einstök góðvild hans er svo ríkuleg.

8 Hann sýndi okkur þessa miklu og einstöku góðvild með allri visku og skilningi* 9 þegar hann kunngerði okkur heilagan leyndardóm+ vilja síns. Þessi leyndardómur varðar ósk hans og fyrirætlun 10 um ákveðna stjórn mála í fyllingu tímans, að sameina allt í Kristi, bæði það sem er á himnum og það sem er á jörð.+ Já, öllu er safnað saman í honum 11 sem við erum valin til að hljóta arf með+ og erum sameinuð. Við vorum valin* samkvæmt fyrirætlun hans sem kemur öllu til leiðar eins og hann ákveður í samræmi við vilja sinn 12 svo að við, hin fyrstu sem bundu von sína við Krist, skyldum vera honum til heiðurs og dýrðar. 13 En þið bunduð líka von ykkar við hann eftir að þið heyrðuð orð sannleikans, fagnaðarboðskapinn um frelsun ykkar. Eftir að þið tókuð trú voruð þið innsigluð+ fyrir milligöngu hans með heilögum anda sem Guð hafði lofað 14 en hann er trygging* fyrir arfi okkar.+ Tilgangurinn var að frelsa fólk* Guðs+ með lausnargjaldi,+ honum til lofs og dýrðar.

15 Eftir að hafa heyrt um trú ykkar á Drottin Jesú og kærleikann sem þið sýnið öllum hinum heilögu 16 hef ég því ekki hætt að þakka Guði fyrir ykkur. Ég nefni ykkur stöðugt í bænum mínum 17 og bið þess að Guð Drottins okkar Jesú Krists, dýrlegur faðir okkar, gefi ykkur visku og hjálp til að skilja það sem hann opinberar. Þá kynnist þið honum vel.*+ 18 Hann hefur upplýst sjón hjartans svo að þið skiljið til hvaða vonar hann kallaði ykkur, hve dýrlegan og ríkulegan arf hann ætlar að gefa hinum heilögu+ 19 og hve yfirgnæfandi mátt hann veitir okkur sem trúum.+ Þessi mikli máttur birtist 20 þegar hann reisti Krist upp frá dauðum og lét hann setjast sér til hægri handar+ á himnum, 21 langtum ofar sérhverri stjórn, valdi, mætti og tign og hverju nafni sem nefnt er,+ ekki aðeins í þessari heimsskipan* heldur einnig hinni komandi. 22 Hann lagði líka allt undir fætur hans+ og skipaði hann höfuð yfir öllu í söfnuðinum+ 23 en söfnuðurinn er líkami hans+ og fyllist af honum sem fyllir allt á allan hátt.

2 Guð lífgaði ykkur þó að þið væruð dauð vegna afbrota ykkar og synda.+ 2 Þið lifðuð einu sinni eins og fólk lifir í þessum heimi*+ og fylgduð valdhafa loftsins+ sem gegnsýrir allt, andans*+ sem starfar nú í þeim sem eru óhlýðnir. 3 Já, eitt sinn hegðuðum við okkur öll eins og þeir og fylgdum löngunum holdsins.+ Við létum vilja holdsins og hugsana okkar ráða ferðinni+ og vorum þannig í eðli okkar að við verðskulduðum reiði Guðs*+ eins og allir hinir. 4 En Guð er ríkur að miskunn+ og ber svo mikinn kærleika til okkar+ 5 að hann lífgaði okkur með Kristi, jafnvel þótt við værum dauð vegna afbrota okkar.+ Einstök góðvild hans hefur bjargað ykkur. 6 Og hann reisti okkur upp og lét okkur fá sæti á himnum, sameinuð Kristi Jesú,+ 7 til að geta sýnt á komandi tímum* hve einstök góðvild hans er ríkuleg og hve örlátur* hann er í garð okkar sem erum sameinuð Kristi Jesú.

8 Með þessari einstöku góðvild hefur ykkur verið bjargað vegna trúar+ og það er ekki sjálfum ykkur að þakka heldur er það gjöf Guðs. 9 Það byggist ekki á verkum+ og þess vegna getur enginn stært sig af því. 10 Við erum handaverk Guðs, og sameinuð Kristi Jesú+ vorum við sköpuð+ til góðra verka sem Guð ákvað fyrir fram að við skyldum vinna.

11 Munið því að þið sem eruð af þjóðunum að ætterni voruð eitt sinn kallaðir óumskornir af þeim sem kallast umskornir og eru umskornir á líkamanum með höndum manna. 12 Á þeim tíma voruð þið án Krists, útilokuð frá Ísraelsþjóðinni og áttuð ekki aðild að sáttmálunum sem byggjast á loforðinu.+ Þið áttuð enga von og voruð án Guðs í heiminum.+ 13 En núna eruð þið sameinuð Kristi Jesú, þið sem einu sinni voruð fjarlæg Guði en eruð nú nálæg honum vegna blóðs Krists. 14 Hann er friður okkar,+ hann sem sameinaði báða hópana+ og reif niður múrinn sem aðskildi þá.+ 15 Með líkama sínum afmáði hann það sem olli fjandskapnum, það er lögin með boðorðum þess og skipunum, til að gera hópana tvo sem eru sameinaðir honum að einum nýjum manni+ og skapa frið. 16 Og með kvalastaurnum*+ sætti hann báða hópana að fullu við Guð og gerði þá að einum líkama þar sem hann batt enda á fjandskapinn+ með líkama sínum. 17 Hann kom og flutti fagnaðarboðskap friðarins bæði ykkur sem voruð fjarlæg Guði og þeim sem voru nálægir honum 18 því að vegna hans höfum við, báðir hóparnir, frjálsan aðgang að föðurnum með einum anda.

19 Þess vegna eruð þið ekki lengur ókunnug og útlendingar+ heldur hafið þið sama þegnrétt+ og aðrir hinna heilögu og tilheyrið fjölskyldu Guðs.+ 20 Þið eruð eins og steinar í byggingu sem hefur postulana og spámennina að undirstöðu+ en Krist Jesú sjálfan að undirstöðuhornsteini.+ 21 Öll byggingin er sameinuð honum og myndar eina samstæða heild,+ og hún vex og verður heilagt musteri handa Jehóva.*+ 22 Þar sem þið eruð sameinuð Kristi er byggt úr ykkur hús þar sem Guð getur búið með anda sínum.+

3 Það er af þessari ástæðu að ég, Páll, sem er fangi+ Krists Jesú vegna ykkar sem eruð af þjóðunum …* 2 Þið hafið heyrt að mér var falið það verkefni+ að hjálpa ykkur að njóta góðs af einstakri góðvild Guðs. 3 Þið hafið heyrt hvernig hinn heilagi leyndardómur var kunngerður mér með opinberun, eins og ég hef skrifað stuttlega um áður. 4 Þegar þið lesið þetta getið þið því áttað ykkur á hvaða innsýn ég hef í hinn heilaga leyndardóm+ um Krist. 5 Fyrri kynslóðir manna voru ekki upplýstar um þennan leyndardóm eins og andinn hefur nú opinberað hann heilögum postulum hans og spámönnum.+ 6 Hann felst í því að fólk af þjóðunum sem er sameinað Kristi Jesú verði samerfingjar okkar, tilheyri sama líkama+ og við og eigi hlutdeild í sama loforði og við vegna fagnaðarboðskaparins. 7 Ég varð þjónn þessa leyndardóms vegna einstakrar góðvildar Guðs, og með því að gefa mér þessa gjöf sýndi hann mér mátt sinn.+

8 Ég er lítilvægari en sá minnsti meðal allra hinna heilögu+ en mér var sýnd þessi einstaka góðvild+ til að ég boðaði þjóðunum fagnaðarboðskapinn um ólýsanlega auðlegð Krists. 9 Ég átti að upplýsa alla um hvernig Guð hrindir hinum heilaga leyndardómi+ í framkvæmd en hann hefur verið hulinn öldum saman hjá Guði sem skapaði allt. 10 Það var til þess að margþætt viska Guðs væri nú birt+ stjórnum og yfirvöldum á himnum fyrir milligöngu safnaðarins.+ 11 Þetta er í samræmi við eilífa fyrirætlun Guðs sem tengist Kristi+ Jesú Drottni okkar, 12 en vegna hans getum við talað óhikað. Við treystum líka að við höfum greiðan aðgang að Guði+ vegna trúar okkar á Krist.* 13 Ég bið ykkur því að gefast ekki upp út af mótlætinu sem ég hef orðið fyrir vegna ykkar. Það er ykkur til heiðurs.+

14 Af þessari ástæðu fell ég á kné fyrir föðurnum 15 sem sérhver fjölskylda á himni og jörð á tilveru sína* að þakka. 16 Ég bið þess að Guð, sem er fullur dýrðar, styrki ykkar innri mann+ með krafti anda síns 17 og að vegna trúar ykkar megi Kristur búa í hjörtum ykkar ásamt kærleikanum.+ Megið þið vera rótföst+ og standa á traustum grunni.+ 18 Þá getið þið, eins og allir hinir heilögu, skilið til fulls hver sé breiddin, lengdin, hæðin og dýptin 19 og kynnst kærleika Krists+ sem er hafinn yfir þekkinguna, og þannig fyllst öllu því sem Guð lætur í té.

20 Guð getur með krafti sínum sem er að verki í okkur+ gert langt umfram allt sem við biðjum um eða getum ímyndað okkur.+ 21 Honum sé dýrðin um ókomnar kynslóðir og alla eilífð fyrir það sem hann hefur gert fyrir milligöngu safnaðarins og Krists Jesú. Amen.

4 Ég, sem er fangi+ vegna Drottins, hvet ykkur því til að lifa eins og er samboðið+ þeirri köllun sem þið hafið fengið. 2 Verið alltaf auðmjúk,+ mild og þolinmóð.+ Umberið hvert annað í kærleika+ 3 og gerið ykkar ýtrasta til að varðveita einingu andans í bandi friðarins.+ 4 Líkaminn er einn+ og andinn einn,+ og eins fenguð þið eina von+ þegar þið voruð kölluð. 5 Það er einn Drottinn,+ ein trú, ein skírn, 6 einn Guð og faðir allra sem er yfir öllum, með öllum og í öllum.

7 Nú þáðum við öll einstaka góðvild eftir því sem Kristur úthlutaði hverju og einu okkar af þessari gjöf.+ 8 Skrifað stendur: „Þegar hann steig upp til hæða flutti hann með sér fanga. Hann gaf menn að gjöf.“+ 9 En þegar sagt er „hann steig upp“ merkir það þá ekki líka að hann hafi stigið niður, það er til jarðar? 10 Sá sem steig niður er sá sami og steig upp,+ hátt yfir alla himna,+ svo að allt gæti uppfyllst.

11 Af þessum gjöfum hans eru sumir postular,+ sumir spámenn,+ sumir trúboðar*+ og sumir hirðar og kennarar.+ 12 Þeir eiga að vísa hinum heilögu rétta leið,* veita þjónustu og byggja upp líkama Krists+ 13 þangað til við verðum öll einhuga* í trúnni og nákvæmri þekkingu á syni Guðs. Þá verðum við fullorðin+ og höfum náð fullum þroska eins og Kristur. 14 Við skulum ekki halda áfram að vera eins og börn, sem kastast til í öldugangi og hrekjast fram og aftur fyrir hverjum kenningarvindi,+ og láta menn sem beita brögðum og blekkingum leiða okkur á villigötur. 15 Tölum heldur sannleika og sýnum kærleika en þannig getum við þroskast á allan hátt til að líkjast Kristi sem er höfuðið.+ 16 Hans vegna er líkaminn+ ein samstæð heild og limirnir vinna saman þegar hver liður leggur sitt af mörkum. Þegar allir líkamshlutar starfa eðlilega stuðlar það að því að líkaminn vex og byggist upp í kærleika.+

17 Þess vegna segi ég og hvet ykkur í nafni Drottins: Lifið ekki lengur eins og þjóðirnar+ sem fylgja bara innantómum* hugsunum sínum.+ 18 Hugur þeirra er í myrkri og þær eru fjarlægar því lífi sem kemur frá Guði, bæði vegna vanþekkingar sinnar og vegna þess að hjörtu þeirra eru tilfinningalaus.* 19 Þær hafa glatað allri siðferðiskennd og gefið sig á vald blygðunarlausri hegðun*+ svo að þær stunda alls konar óhreinleika af græðgi.

20 En þið vitið að Kristur er ekki þannig 21 enda heyrðuð þið um hann og ykkur var kennt í samræmi við sannleikann sem býr í honum. 22 Ykkur var kennt að þið ættuð að afklæðast hinum gamla manni*+ sem samræmist fyrra líferni ykkar og spillist af tælandi girndum sínum.+ 23 Þið ættuð að halda áfram að endurnýja hugsunarhátt ykkar*+ 24 og íklæðast hinum nýja manni*+ sem er skapaður samkvæmt vilja Guðs og byggist á sönnu réttlæti og hollustu.

25 Núna þegar þið eruð hætt öllum blekkingum skuluð þið öll tala sannleika við náungann+ því að við erum limir á sama líkama.+ 26 Ef þið reiðist syndgið þá ekki.+ Verið ekki reið fram yfir sólsetur.+ 27 Gefið Djöflinum ekkert tækifæri.*+ 28 Sá sem stelur hætti að stela. Hann ætti heldur að leggja hart að sér og vinna heiðarleg störf með höndum sínum+ svo að hann hafi eitthvað til að gefa þeim sem eru hjálparþurfi.+ 29 Látið ekkert fúkyrði koma af vörum ykkar+ heldur aðeins það sem er gott og uppbyggilegt eftir því sem þörf gerist svo að þeir sem heyra hafi gagn af.+ 30 Hryggið ekki heldur heilagan anda Guðs+ sem þið eruð innsigluð með+ til þess dags þegar þið verðið leyst með lausnargjaldi.+

31 Losið ykkur við hvers kyns biturð,+ reiði, bræði, öskur og svívirðingar,+ og allt annað skaðlegt.+ 32 Verið góð hvert við annað, samúðarfull+ og fyrirgefið hvert öðru fúslega eins og Guð hefur fyrirgefið ykkur vegna Krists.+

5 Líkið því eftir Guði+ sem elskuð börn hans 2 og lifið í kærleika+ eins og Kristur elskaði okkur*+ og gaf sjálfan sig fyrir okkur* að fórnargjöf og sláturfórn sem ilmar vel fyrir Guði.+

3 Kynferðislegt siðleysi* og hvers kyns óhreinleiki eða ágirnd á ekki einu sinni að koma til tals meðal ykkar+ því að það sæmir ekki heilögum.+ 4 Forðist líka skammarlega hegðun, heimskulegt tal og grófa brandara+ því að allt slíkt er óviðeigandi. Færið heldur Guði þakkir.+ 5 Þið vitið og ykkur er fullljóst að enginn sem er siðlaus í kynferðismálum,*+ óhreinn eða ágjarn,+ sem er það sama og að dýrka skurðgoð, fær nokkurn arf í ríki Krists og Guðs.+

6 Látið engan villa um fyrir ykkur með innantómum orðum því að vegna þess sem ég hef nefnt kemur reiði Guðs yfir þá sem hlýða ekki. 7 Eigið ekkert saman við þá að sælda. 8 Einu sinni voruð þið myrkur en nú eruð þið ljós+ þar sem þið tilheyrið Drottni.+ Hegðið ykkur áfram sem börn ljóssins 9 því að ávöxtur ljóssins er hvers kyns góðvild, réttlæti og sannleikur.+ 10 Haldið áfram að fullvissa ykkur um hvað Drottni er þóknanlegt+ 11 og hættið að taka þátt í verkum myrkursins+ sem eru einskis virði. Afhjúpið þau öllu heldur. 12 Það sem fólk gerir í leynum er jafnvel skammarlegt að nefna. 13 Allt er afhjúpað þegar það kemur fram í ljósið og það sem kemur fram í ljósið er upplýst. 14 Þess vegna segir: „Vaknaðu, þú sem sefur, og rístu upp frá dauðum.+ Þá mun Kristur skína á þig.“+

15 Gætið þess vandlega að hegða ykkur ekki eins og óskynsamar manneskjur heldur skynsamar 16 og notið tímann sem best*+ því að dagarnir eru vondir. 17 Verið því ekki lengur óskynsöm heldur reynið að átta ykkur á hver sé vilji Jehóva.*+ 18 Og drekkið ykkur ekki drukkin af víni+ því að það leiðir til ólifnaðar.* Fyllist heldur andanum. 19 Styrkið hvert annað* með sálmum, lofsöngvum til Guðs og andlegum ljóðum. Syngið+ fyrir Jehóva* og leikið undir+ í hjörtum ykkar+ 20 og þakkið alltaf+ Guði okkar og föður fyrir allt í nafni Drottins okkar Jesú Krists.+

21 Verið undirgefin hvert öðru+ af lotningu fyrir Kristi. 22 Konur séu undirgefnar eiginmönnum sínum+ eins og þær eru undirgefnar Drottni 23 því að maðurinn er höfuð konu sinnar+ eins og Kristur er höfuð safnaðarins,+ líkama síns sem hann frelsar. 24 Konur eiga að vera undirgefnar eiginmönnum sínum í öllu eins og söfnuðurinn er undirgefinn Kristi. 25 Þið menn, elskið eiginkonur ykkar+ eins og Kristur elskaði söfnuðinn og gaf líf sitt fyrir hann+ 26 til að helga hann og hreinsa með vatni, það er orði Guðs.+ 27 Þannig gat hann leitt söfnuðinn fram fyrir sig í allri sinni dýrð, heilagan og lýtalausan,+ án þess að hann hefði blett eða hrukku eða nokkuð slíkt.+

28 Á sama hátt á eiginmaður að elska konu sína eins og eigin líkama. Sá sem elskar konu sína elskar sjálfan sig. 29 Enginn hefur nokkurn tíma hatað eigin líkama heldur nærir hann líkamann og annast eins og Kristur söfnuðinn 30 en við erum limir á líkama hans.+ 31 „Af þeirri ástæðu yfirgefur maður föður sinn og móður og binst* konu sinni og þau tvö verða eitt.“*+ 32 Þessi heilagi leyndardómur+ er mikill. Nú er ég að tala um Krist og söfnuðinn.+ 33 Hvað sem því líður á hver og einn að elska eiginkonu sína+ eins og sjálfan sig en konan beri djúpa virðingu fyrir manni sínum.+

6 Þið börn, hlýðið foreldrum ykkar+ í samræmi við vilja Drottins* því að það er rétt. 2 „Sýndu föður þínum og móður virðingu“+ – það er fyrsta boðorðið með loforði – 3 „til að þér gangi vel og þú verðir langlífur á jörðinni.“ 4 Og þið feður, ergið ekki börnin ykkar+ heldur alið þau upp með því að aga þau+ og leiðbeina þeim* eins og Jehóva* vill.+

5 Þið þrælar, verið hlýðnir jarðneskum húsbændum ykkar+ með virðingu og ótta og í einlægni hjartans, eins og þið hlýðið Kristi. 6 Gerið það ekki aðeins til að þóknast mönnum+ þegar þeir sjá til* heldur eins og þjónar Krists sem gera vilja Guðs af allri sál.*+ 7 Þjónið þeim fúslega eins og þið væruð að þjóna Jehóva*+ en ekki mönnum. 8 Þið vitið að Jehóva* launar hverjum og einum fyrir það góða sem hann gerir,+ hvort sem hann er þræll eða frjáls maður. 9 Og þið húsbændur, komið eins fram við þræla ykkar og ógnið þeim ekki því að þið vitið að þið eigið sama Drottin á himnum og þeir,+ og hann fer ekki í manngreinarálit.

10 Að lokum: Sækið styrk+ til Drottins því að máttur hans er mikill. 11 Búist alvæpni+ Guðs til að þið getið staðist slóttugar árásir* Djöfulsins 12 því að baráttan* sem við eigum í+ er ekki við hold og blóð heldur við stjórnir, yfirvöld, heimsstjórnendur þessa myrkurs og andaverur vonskunnar+ á himnum. 13 Takið því alvæpni Guðs+ og búið ykkur að öllu leyti til að geta veitt mótstöðu á hinum vonda degi og staðist.

14 Já, verið staðföst, gyrt belti sannleikans um mittið,+ klædd brynju réttlætisins+ 15 og skóuð fúsleika til að flytja fagnaðarboðskap friðarins.+ 16 Takið auk þess hinn stóra skjöld trúarinnar+ sem þið getið slökkt með allar logandi örvar* hins vonda.+ 17 Takið við hjálmi frelsunarinnar+ og sverði andans sem er orð Guðs.+ 18 Haldið jafnframt áfram að biðja+ hvers kyns bæna og ákalla Guð öllum stundum í krafti andans.+ Haldið þannig vöku ykkar og biðjið stöðugt og innilega fyrir öllum hinum heilögu. 19 Biðjið líka fyrir mér að mér verði gefin réttu orðin þegar ég tala og ég geti talað óhikað þegar ég kunngeri heilagan leyndardóm fagnaðarboðskaparins+ 20 en ég er sendiboði* hans+ í fjötrum mínum. Biðjið þess að ég geti flutt hann óhikað eins og mér ber.

21 Týkíkus,+ elskaður bróðir og trúr þjónn í Drottni, mun segja ykkur frá mér og hvernig ég hef það.+ 22 Ég sendi hann til ykkar í þessum tilgangi svo að þið fáið að vita hvernig við höfum það og til að hann hughreysti ykkur.

23 Megi Guð faðir okkar og Drottinn Jesús Kristur veita bræðrum okkar og systrum frið og kærleika ásamt trú. 24 Megi einstök góðvild Guðs vera með öllum sem bera ósvikinn kærleika til Drottins okkar Jesú Krists.

Það er, Kristi.

Eða „skynsemi“.

Eða „valin fyrir fram“.

Eða „innborgun (staðfestingargjald)“.

Orðrétt „eign“.

Eða „fáið þið nákvæma þekkingu á honum“.

Eða „á þessari öld“. Sjá orðaskýringar.

Eða „þessari heimsskipan“.

Eða „hugarfarsins“.

Orðrétt „í eðli okkar reiðinnar börn“.

Eða „öldum“. Sjá orðaskýringar, „heimsskipan“.

Eða „velviljaður“.

Sjá orðaskýringar.

Sjá viðauka A5.

Svo virðist sem framhaldið komi í 14. versi.

Orðrétt „hann“.

Eða „nafn sitt“.

Eða „boðberar fagnaðarboðskaparins“.

Eða „kenna hinum heilögu“.

Eða „sameinuð“.

Eða „fánýtum“.

Orðrétt „ónæm“.

Eða „ósvífinni hegðun“. Á grísku asel′geia. Sjá orðaskýringar.

Eða „persónuleika“.

Eða „drifkraft hugans“. Orðrétt „anda huga ykkar“.

Eða „persónuleika“.

Eða „ekki heldur neitt svigrúm“.

Eða hugsanl. „ykkur“.

Eða hugsanl. „ykkur“.

Á grísku pornei′a. Sjá orðaskýringar.

Sjá orðaskýringar, „kynferðislegt siðleysi“.

Orðrétt „kaupið upp tíma“.

Sjá viðauka A5.

Eða „taumleysis“.

Eða hugsanl. „sjálf ykkur“.

Sjá viðauka A5.

Eða „heldur sig við“.

Orðrétt „eitt hold“.

Orðrétt „í Drottni“.

Eða „leiðrétta þau; móta huga þeirra“.

Sjá viðauka A5.

Orðrétt „ekki með augnaþjónustu til að þóknast mönnum“.

Sjá orðaskýringar.

Sjá viðauka A5.

Sjá viðauka A5.

Eða „ráðabrugg“.

Orðrétt „glíman“.

Eða „öll logandi kastvopn“.

Eða „sendiherra“.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila