Getur þú aukið lofgerð þína til Jehóva í apríl?
1 Sálmaritarinn Davíð þráði í hjarta sér að lofa Jehóva á velþóknanlegan hátt og lýsti þess vegna yfir: „Ég vil lofa [Jehóva] mikillega með munni mínum, meðal fjölmennis vil ég vegsama hann.“ (Sálm. 109:30) Aprílmánuður er góður tími til að „auka enn á allan lofstír“ Guðs með því að auka hlutdeild okkar í boðunarstarfinu. (Sálm. 71:14) Hefur þú í hyggju að vera á meðal hinna mörgu sem gera það með því að skipa sér í raðir aðstoðarbrautryðjenda?
2 Gerðu áætlun núna: „Fyrirætlanir iðjumannsins reynast fésamar vel,“ minna Orðskviðirnir 21:5 okkur á. Þetta kallar á það að þú ræðir málið við Jehóva í bæn og látir hann skipa fyrsta sætið í áætlunum þínum. (Orðskv. 3:5, 6) Grandskoðaðu núverandi tímaáætlun þína til að ákvarða hvar hliðra megi til svo að þú náir að verja að meðaltali tveimur klukkustundum á dag til boðunarstarfsins. Ef þú tekur tíma frá öðrum störfum getur þú varið meiri tíma til prédikunarstarfsins. — Ef. 5:16.
3 Samræður og samvinna: Páll postuli talaði um vissa menn sem voru honum „styrktarstoð“ við að framkvæma boðunarstarfið. (Kól. 4:11, NW) Ræddu áætlanir þínar við aðra sem langar til að vera aðstoðarbrautryðjendur í apríl. Stuðningur þeirra og félagsskapur getur orðið ykkur til gagnkvæmrar, andlegrar uppbyggingar. Starfshirðirinn mun svara spurningum þínum varðandi samansafnanir eða starfssvæði.
4 Samvinna og stuðningur af hendi fjölskyldunnar getur hjálpað einstökum meðlimum hennar að vera aðstoðarbrautryðjendur. Ef til vill þarf fjölskyldan um stundarsakir að skipta heimilisverkunum með sér á annan hátt en venjulega og jafnvel vinna þau á öðrum tímum en vant er. Umræðufundur innan fjölskyldunnar um þessi mál gæti stuðlað að því að markmiðin náist. Góðar samræður og samvinna er lykillinn að góðum árangri.
5 Hafðu jákvætt viðhorf: Vertu ekki fljótur til að útiloka aðstoðarbrautryðjandastarf vegna óhagstæðra kringumstæðna. Ungt fólk í skóla, fólk á eftirlaunum, húsmæður með börn og fjölskyldufeður í fullri vinnu hafa öll séð sér fært að fórna því sem til þarf — og með ánægju — til að vera aðstoðarbrautryðjendur í apríl. Þau fallast á það með sálmaritaranum að „hreinlyndum hæfir lofsöngur“ og þau hafa ekki álitið það of kostnaðarsamt að leggja á sig það aukna erfiði sem þarf til að nota 60 tíma í boðunarstarfinu. (Sálm. 33:1) Ef þú getur ekki verið aðstoðarbrautryðjandi, hví þá ekki að eiga hlutdeild í gleðinni með því að auka starfið sem safnaðarboðberi?
6 Aðstoðarbrautryðjandastarf í apríl hefur orðið mörgum stökkpallur út í reglulegt brautryðjandastarf. Þegar þeir höfðu byggt upp aukið boðunarstarf reyndist þeim miklu auðveldara að skipta yfir í reglulegt brautryðjandastarf.
7 Já, apríl er hentugur árstími til að auka guðveldislega starfsemi sína. Bjart er að degi frá því snemma morguns fram á kvöld. Við viljum gera allt sem við getum til að vegsama Guð okkar, Jehóva. Aðstoðarbrautryðjandastarf í apríl er góð leið til sýna að við kunnum að meta gæsku hans gagnvart okkur sem birtist á svo margan hátt.