Leiðir til að bæta prédikunarstarf okkar
1 Prédikunarstarf okkar er þýðingarmeira núna en nokkurn tíma áður. Hvort fólk lifir eða deyr er háð því hvernig það bregst við fagnaðarerindinu. (1. Pét. 4:5, 6, 17; Opinb. 14:6, 7) Af þeirri ástæðu ættum við alltaf að leita leiða til að bæta prédikun okkar um Guðsríki. Hvaða leiðir getum við farið til þess?
2 Undirbúðu þig vel: Notaðu Ríkisþjónustu okkar fyrir viðkomandi mánuð og veldu þau kynningarorð sem þér finnst höfða til sem flestra á starfssvæði þínu. Mikilvægt er að þú sníðir það sem þú segir að aðstæðum á staðnum. Ef þú kýst það heldur gætir þú útbúið eigin kynningarorð og notað hugmyndir og ritningarstaði sem þú hefur náð góðum árangri með. Þú þarft inngangsorð sem vekja áhuga fólks. (Sjá Rökræðubókina, blaðsíðu 9-15.) Ef til vill hefur þú í hyggju að spyrja umhugsunarverðrar spurningar eða biðja um álit húsráðandans á einhverri frétt sem er áhugaverð fyrir fólk í byggðarlaginu. Þegar þú hefur mótað kynningarorðin í huga þér skaltu æfa þau á einhverjum í fjölskyldunni eða öðrum boðbera sem getur komið með tillögur um hvernig megi bæta þau.
3 Eigðu samtöl við fólk: Tilgangur okkar er að færa fólki mikilvægan boðskap. Það má gera með því að draga þá sem hlusta á okkur inn í innihaldsríkar samræður. Ef húsráðandinn kemur með mótbáru eða lætur í ljós skoðun skaltu hlusta vandlega á það sem hann hefur að segja. Athugasemdir hans hjálpa þér að rökstyðja frá Ritningunni þá von sem í þér býr. (1. Pét. 3:15) Ef skoðun hans fer ekki saman við Biblíuna gætir þú sagt hæversklega: „Mörgum finnst það sama og þú. En það er þó hægt að líta á þetta mál á annan hátt.“ Lestu síðan viðeigandi ritningarstað og fáðu húsráðanda til að tjá sig um hann.
4 Hafðu sveigjanlega áætlun: Það er lítið gagn í góðum undirbúningi ef þú nærð ekki að tala við fólk. Í seinni tíð er algengt að finna aðeins fáa húsráðendur heima þegar við knýjum dyra. Ef það er svo á þínu starfssvæði skaltu reyna að breyta áætlun þinni þannig að þú starfir hús úr húsi þegar fleiri eru heima. Þú kemst kannski að því að flestir séu heima um helgar. Í aðra getur verið auðveldara að ná á virkum dögum eða snemma kvölds. Á sumum svæðum reynist boðberum vel að bera vitni á helgidögum vegna þess að þá finna þeir fleiri heima. Fólk er almennt afslappaðra á slíkum tímum og kannski fúsara til samræðna. Það væri gott að þú aðlagaðir inngangsorð þín að tilefni dagsins eða hátíðarinnar og tvinnaðir síðan efni frá Biblíunni saman við orð þín.
5 Leggðu mat á áhrifamátt kynningarorða þinna: Þegar þú snýrð frá hverri íbúð skaltu spyrja sjálfan þig: ‚Náði ég til hjarta húsráðandans? Fékk ég hann til að tjá sig og gaf ég gaum að því sem hann hafði að segja? Svaraði ég hæversklega? Kom ég efninu að á heppilegasta háttinn í ljósi aðstæðna?‘ Það getur verið gagnlegt að starfa með reyndum boðbera eða brautryðjanda af og til og hlusta vandlega á kynningarorð hans með það í huga að verða hæfari í boðunarstarfinu.
6 Ef þú ert vel fær í verki þínu getur þú fært öðrum sannindi Guðsríkis sem munu „bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.“ — 1. Tím. 4:16; Orðskv. 22:29.