Prédikum fagnaðarboðskapinn alls staðar
1 Hinir frumkristnu prédikuðu fagnaðarboðskapinn alls staðar. Þeir voru svo kostgæfnir að innan 30 ára eftir upprisu Jesú Krists hafði boðskapurinn um Guðsríki „verið [prédikaður] fyrir öllu, sem skapað er undir himninum.“ — Kól. 1:23.
2 Kostgæfnir nútímaþjónar Jehóva hafa sama markmið — að ná til allra sem mögulegt er með fagnaðarboðskapinn um Guðsríki. Hvað getur hjálpað okkur til að ná því takmarki? Æ fleiri vinna fulla vinnu utan heimilis og eru oft ekki heima þegar við knýjum dyra. Þegar þeir eru ekki í vinnunni eru þeir ef til vill á ferðinni einhvers staðar, úti að versla eða að gera sér eitthvað til skemmtunar eða afþreyingar. Hvernig næst til þeirra sem verðugir eru á meðal þeirra með boðskapinn um Guðsríki? — Matt. 10:11.
3 Í suma næst á vinnustað þeirra. Jafnvel í smábæjum er að finna atvinnusvæði þar sem margir verja stærstum hluta dagsins. Í stórborgum er verið að bera vitni fyrir fólki sem starfar á iðnaðarsvæðum, í háum skrifstofubyggingum og sem býr í fjölbýlishúsum með strangri öryggisgæslu. Margt af þessu fólki hefur ekki fengið vitnisburð áður. Um helgar hefur náðst í fólk sem er að slappa af í almenningsgörðum, á útivistarsvæðum, tjaldstæðum eða í sumarbústöðum, bíður á bílastæðum eða er í verslanamiðstöðum, og sumt af því hefur brugðist vel við fagnaðarboðskapnum.
4 Aukinn fjöldi boðbera gerir sér sérstakt far um að bera vitni á opinberum stöðum, hvar sem fólk er að finna. Í byrjun voru þessir vottar frekar hikandi og dálítið taugaóstyrkir vegna þess að þeir voru vanir að prédika við formlegri kringumstæður, eins og hús úr húsi. Hvernig er þeim innanbrjósts núna?
5 „Þetta hefur hleypt nýju lífi í boðunarstarfið mitt!“ segir reyndur bróðir. Annar bætir við: „Þetta heldur mér við efnið.“ Gamall brautryðjandi segir svo frá: „Þetta hefur endurnært huga minn, líkama og anda, . . . og ég er enn að vaxa.“ Boðberi tekur eftir að hann nær núna til margra sem hafa aldrei áður talað við votta Jehóva. Þeir sem eru ungir eru líka farnir að taka af miklum móð þátt í þessu ánægjulega starfi. Unglingur kemst svo að orði: „Þetta er gaman af því að maður nær að tala við svo marga.“ Annar segir: „Ég dreifi fleiri ritum en nokkru sinni fyrr!“ Þetta á allt sér stað á starfssvæði sem farið er yfir hvað eftir annað.
6 Farandumsjónarmenn taka forystuna: Félagið gerir sér ljóst að „sviðsmynd þessa heims er að breytast“ og lagði þess vegna nýlega til að farandumsjónarmenn hagræði áætlun sinni til boðunarstarfs frá einni viku til annarrar til þess að hægt sé að ná með fagnaðarboðskapinn til eins margra og mögulegt er. (1. Kor. 7:31, NW ) Árum saman tóku farandhirðar morgnana á virkum dögum frá til að fara í starfið hús úr húsi, en síðdegis fóru þeir síðan í endurheimsóknir og stýrðu biblíunámum. Á sumum svæðum kann slík tilhögun enn þá að vera heppileg. Á öðrum svæðum ber það ef til vill lítinn árangur að starfa hús úr húsi vissa morgna á virkum dögum. Þegar raunin er sú gæti farandumsjónarmaðurinn ákveðið að snemma dags væri gott að fara í búðastarfið eða götustarfið. Hann gæti líka hagrætt málum þannig að litlir hópar beri vitni í háreistum skrifstofubyggingum, verslanasvæðum, bílastæðum eða öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að. Boðberarnir ná að hitta mun fleira fólk ef þeir nota á áhrifameiri hátt tímann sem tiltækur er til boðunarstarfsins.
7 Skýrslur gefa til kynna að þessari aðlögun að aðstæðum hafi verið mjög vel tekið, jafnt af farandumsjónarmönnum sem boðberum. Allmörg öldungaráð hafa óskað eftir því við farandhirða að þeir þjálfi nýja boðbera í þeim þáttum boðunarstarfsins sem þörf er á að sinna sérstaklega á safnaðarsvæðinu. Það hefur verið gagnlegt fyrir þessa boðbera að fara með farandumsjónarmanninum þegar hann fer í boðunarstarfið á einhverjum slíkum vettvangi. Eftir það hafa þeir verið færir um að þjálfa aðra. (2. Tím. 2:2) Afleiðingin er sú að núna næst til fleira fólks með fagnaðarerindið.
8 Að sjálfsögðu þarftu ekki að bíða eftir því að farandhirðirinn komi í heimsókn til að reyna hvernig gengur að fara einhverjar af þessum leiðum í boðunarstarfinu. Hér á eftir eru ýmsar hugmyndir sem reynast þér ef til vill gagnlegar á starfssvæði þínu:
9 Götustarf: ‚Hvar er allt fólkið?‘ veltum við stundum fyrir okkur þegar við förum í nær mannlaust íbúðarhverfi á virkum degi. Sumir hafa ef til vill farið að sinna ýmsum erindum eða í búðir. Hefur þú reynt að ná til þeirra með götustarfinu? Þegar þessum þætti boðunarstarfsins er sinnt á réttan hátt getur hann borið mjög góðan árangur. Í stað þess að standa kyrr á einum stað með blöðin er best að taka fólk tali og hefja vingjarnlegar samræður. Ekki er nauðsynlegt að vitna fyrir öllum sem fram hjá fara. Ávarpaðu þá sem eru ekki að flýta sér, eins og þá sem eru að skoða í búðarglugga, þá sem sitja í bílum sem lagt hefur verið, eða fólk sem bíður eftir almenningsfarartæki. Þú getur byrjað með því einfaldlega að kasta vingjarnlegri kveðju á einstaklinginn og sjá hver viðbrögð hans verða. Ef hann er fús til að tala spyrðu hann þá um álit hans á einhverju sem þú heldur að hann hafi kannski áhuga á.
10 Farandumsjónarmaður bauð sex boðberum að koma með sér og konu sinni í götustarfið. Með hvaða árangri? „Við áttum dásamlegan morgun!“ segir hann. „Allir voru ‚heima.‘ Við dreifðum áttatíu blöðum og mörgum smáritum og áttum allnokkur örvandi samtöl. Einn boðberanna, sem fór núna í fyrsta sinn í götustarfið, sagði: ‚Ég hef verið fjölda ára í sannleikanum og gerði mér ekki ljóst hverju ég hef verið að missa af!‘ Í vikulokin voru umframbirgðir safnaðarins á blöðum uppurnar.“
11 Þegar sami farandumsjónarmaður var að þjóna næsta söfnuði frétti hann að allnokkrir boðberar hefðu tekið þátt í götustarfinu snemma einn morguninn en með takmörkuðum árangri. Ein systranna hafði aðeins talað við tvær persónur allan starfstímann þá um morguninn þar sem allir hinir sem hún hitti voru að flýta sér til vinnu. Farandumsjónarmaðurinn lagði til að þau færu öll aftur í götustarfið á sama stað aðeins seinna um morguninn. Þau gerðu það og voru fram að hádegi. Systurinni, sem ræddi aðeins við tvo fyrr um morguninn, tókst miklu betur upp þegar hún fór aftur. Hún kom út 31 blaði og 15 bæklingum, fékk nöfn og heimilisföng hjá sjö einstaklingum og stofnaði tvö heimabiblíunám! Árangur annarra í hópnum var jafn uppörvandi.
12 Þegar þú hittir einhvern sem sýnir áhuga skaltu reyna að fá nafn hans, heimilisfang og símanúmer. Í stað þess að biðja beint út um þær upplýsingar gætir þú sagt: „Þetta hefur verið ánægjulegt samtal. Er einhver leið til þess að við getum haldið því áfram við annað tækifæri?“ Þú getur líka spurt: „Er einhver leið fyrir mig að hitta þig heima?“ Margir sem samband næst við á þennan hátt fallast á að við komum í endurheimsókn. Gættu þess að hafa nóg af boðsmiðum til að bjóða þeim sem myndu vilja koma á samkomu hjá okkur.
13 Ef þú talar við áhugasaman mann sem býr á svæði sem úthlutað er öðrum söfnuði, ættir þú að koma upplýsingunum áfram til þess að bræðurnir þar geti fylgt áhuganum eftir. Væri götustarfið áhrifarík leið til að dreifa fagnaðarboðskapnum á þínu svæði? Ef svo er ættir þú að rifja upp greinina „Finnum áhugasama með áhrifaríku boðunarstarfi á götum úti“ í Ríkisþjónustu okkar frá júlí 1994. Gerðu síðan ráðstafanir til að fara í götustarfið á heppilegum tíma dags sem mun gera þér kleift að ná sambandi við eins marga og mögulegt er.
14 Vitnisburðarstarf í almenningsfarartæki: Morgun einn ákváðu nokkrir brautryðjendur að vitna fyrir fólki sem beið eftir strætisvagni nálægt háskóla þar í bænum. Þeir áttu nokkur ánægjuleg samtöl en einn var þó hængur á. Þegar samræðurnar voru komnar vel af stað kom strætisvagninn og batt snöggan enda á þær. Brautryðjendurnir leystu málið með því að fara upp í strætisvagninn og halda áfram að bera vitni fyrir farþegunum á leiðinni í gegnum bæinn. Þegar vagninn kom á endastöðina tóku brautryðjendur strætisvagninn til baka og báru vitni á leiðinni. Eftir allnokkrar ferðir fram og til baka lögðu þeir saman árangurinn af þessu starfi: Þeir höfðu dreift 200 blöðum og stofnað sex biblíunám. Sumir farþeganna gáfu þeim fúslega upp heimilisföng sín og símanúmer til þess að hægt væri að heimsækja þá. Næstu viku voru brautryðjendurnir aftur mættir á biðstöðina og notuðu sömu aðferð. Þeir útbreiddu 164 blöð og hófu eitt biblíunám til viðbótar. Á einni biðstöð kom farþegi upp í vagninn og tók eina lausa sætið — við hlið brautryðjanda. Hann leit á bróðurinn og sagði brosandi: „Já, ég veit, þú ert með Varðturn fyrir mig.“
15 Margir boðberar gefa áhrifaríkan vitnisburð á ferð í strætisvagni, rútu, lest eða flugvél. Hvernig getur þú hafið samræður við sessunaut þinn? Tólf ára boðberi byrjaði einfaldlega að lesa Vaknið! í rútu í þeirri von að það vekti forvitni unglingsstúlku sem sat við hlið hans. Það verkaði. Stúlkan spurði hann hvað hann væri að lesa og boðberinn ungi svaraði að hann væri að lesa um lausn á vandamálum sem ungt fólk ætti við að glíma. Hann bætti við að hann hefði haft mikið gagn af greininni og að hún gæti hjálpað henni líka. Hún þáði blaðið með ánægju. Tveir aðrir unglingar heyrðu samtal þeirra og báðu líka um eintök af blaðinu. Þegar hér var komið ók bílstjórinn út í vegarkantinn og spurði hvers vegna þessi blöð vektu slíkan áhuga. Þegar hann komst að því þáði hann líka eintök. Vitaskuld hefði ekkert af þessu verið gerlegt ef ungi boðberinn hefði ekki haft nógu mikið af blöðum til að dreifa til allra sem sýndu áhuga.
16 Vitnisburðarstarf í almenningsgörðum og á bílastæðum: Vitnisburðarstarf í almenningsgörðum og á bílastæðum er afbragðsgóð leið til að ná til fólks. Hefur þú reynt að starfa á bílastæði við verslanamiðstöð? Gefðu þér alltaf nokkur augnablik til að skoða það sem er í kringum þig. Leitaðu að einhverjum sem er ekki að flýta sér eða sem bíður í bíl sem er lagt, og reyndu að koma af stað vingjarnlegum samræðum. Ef samtalið heldur áfram skaltu koma boðskapnum um Guðsríki að. Reyndu að starfa einn en með annan boðbera ekki langt undan. Forðastu að vera með stóra og fyrirferðarmikla tösku eða draga með öðrum hætti athyglina að starfi þínu. Vertu hygginn og varfærinn. Það getur verið best að vera aðeins stutta stund á einu bílastæði og flytja sig síðan yfir á annað. Ef einhver vill ekki tala við þig skaltu kurteislega fara þína leið og leita að öðrum til að taka tali. Með þessari aðferð dreifði bróðir 90 blöðum einn mánuð þegar hann bar vitni á bílastæðum.
17 Sumt fólk fer í almenningsgarð til að slappa af; aðrir fara þangað til að spila leiki eða nota tíma með börnum sínum. Leitaðu tækifæra til að gefa vitnisburð án þess þó að trufla óþarflega það sem fólk er að gera. Bróðir hóf samræður við mann sem sá um garðyrkjustörf í almenningsgarði og komst að raun um að hann hafði áhyggjur af fíkniefnum og framtíð barna sinna. Biblíunám var stofnað og haft reglubundið í garðinum.
18 Óformlegur vitnisburður í verslanamiðstöðvum: Þó að ekki sér alltaf gerlegt að prédika formlega frá einni búð til annarrar í verslanamiðstöðvum vegna þess að hömlur kunna að vera settar þar á slíka starfsemi, hafa sumir boðberar skapað sér tækifæri til óformlegs vitnisburðar. Þeir setjast á bekk og koma af stað vingjarnlegum samræðum við fólk sem stoppar þar til að hvílast. Þegar viðmælandi þeirra sýnir áhuga bjóða þeir honum smárit eða blað án þess að mikið beri á og gera ráðstafanir til að fara í endurheimsókn. Eftir að hafa verið nokkara mínútur í einum hluta verslanamiðstöðvarinnar færa þeir sig yfir í annan hluta og taka þar einhvern annan tali. Auðvitað ætti að gæta þess að vekja ekki ótilhlýðilega athygli þegar maður er að bera óformlega vitni á þennan hátt.
19 Þegar þú heilsar einhverjum skaltu hefja samræðurnar á vingjarnlegum nótum. Ef hann bregst vel við skaltu bera fram spurningu og hlusta með athygli á svar hans. Sýndu persónulegan áhuga á því sem hann er að segja. Sýndu að þú virðir skoðun hans. Samsinntu honum ef það er hægt.
20 Systir átti indælt samtal við roskna konu með því að nefna hve dýrt væri orðið að framfleyta sér. Konan samsinnti því strax og með þeim tókust líflegar samræður. Systirin gat fengið nafn og heimilisfang konunnar og farið var í endurheimsókn áður en vikan var liðin.
21 Búðastarfið: Á svæðum sumra safnaða eru götur eða hverfi þar sem mikið er um búðir eða aðra þjónustustarfsemi. Bróðirinn, sem sér um starfssvæði safnaðarins, gæti útbúið sérstök kort yfir þessa bæjarhluta þar sem fjölmargar verslanir eru. Á þau svæðiskort yfir íbúðahverfi, sem ná inn á þessi svæði, ætti að merkja greinilega að búðirnar tilheyri ekki starfssvæðinu. Á öðrum svæðum gætu búðir og annað viðskiptahúsnæði verið hluti af starfssvæðinu og boðberarnir annast það samhliða íbúðunum á svæðinu. Öldungarnir geta boðið hæfum boðberum að starfa í verslunar- og viðskiptasvæðunum á reglulegum grundvelli til þess að búðastarfið verði ekki út undan.
22 Ef þér er boðið að taka þátt í þessu starfi og þú hefur aldrei gert það áður, er góð leið til að öðlast „djörfung“ sú að byrja á því að fara í litlar verslanir; síðan, þegar þú hefur öðlast meira sjálfstraust, skaltu fara í þær stærri. (1. Þess. 2:2) Þegar þú ert í búðastarfinu skaltu klæðast eins og þú værir að sækja samkomu í ríkissalnum. Ef mögulegt er skaltu fara inn í búðina þegar þar eru engir viðskiptavinir sem bíða eftir afgreiðslu. Biddu um að fá að tala við verslunarstjórann eða yfirmanninn. Vertu vingjarnlegur, og umfram allt skaltu vera stuttorður. Það er engin þörf á að vera með afsakanir. Margir viðskiptamenn eru vakandi fyrir óskum viðskiptavinarins og gera ráð fyrir ónæði.
23 Eftir að hafa heilsað verslunarmanni gætir þú sagt þetta: „Verslunarfólk hefur svo mikið að gera að við finnum það sjaldan heima, og þess vegna komum við hingað til þín í verslunina til þess að láta þig fá mjög umhugsunarverða grein til að lesa.“ Komdu síðan með eina athugasemd eða tvær um blaðið sem þú ert að bjóða.
24 Þú gætir líka reynt þetta þegar þú ávarpar verslunarstjóra: „Við höfum tekið eftir að fólk, sem stundar viðskipti, gerir sér far um að þekkja vel til mála. Nýjasta tölublað Varðturnsins (eða Vaknið!) inniheldur grein sem snertir okkur hvert og eitt.“ Útskýrðu um hvað hún fjallar og ljúktu með því að segja: „Við höldum fyrir víst að þú munir hafa ánægju af að lesa hana.“
25 Ef aðrir starfsmenn eru til staðar gætir þú bætt við, ef það virðist við hæfi: „Væri það í lagi þín vegna að ég kynnti þessi blöð starfsmönnum þínum í jafnstuttu máli?“ Ef leyfið er veitt mundu þá að þú lofaðir að vera stuttorður og verslunarstjórinn væntir þess að þú standir við það. Ef einhverjir starfsmenn vilja fara út í langar samræður væri best að hitta þá heima þegar tækifæri gefst.
26 Nokkrir boðberar í litlum bæ fóru nýlega með farandhirðinum í búðastarfið. Í fyrstu var kvíði í nokkrum boðberanna þar sem þeir höfðu aldrei starfað á þennan hátt áður, en fljótlega slökuðu þeir á og fóru að hafa ánægju af starfinu. Á innan við klukkustund töluðu þeir við 37 manns og dreifðu 24 blöðum og 4 bæklingum. Einn bræðranna tók fram að venjulega myndu þeir ekki hitta jafnmarga á einum mánuði í starfinu hús úr húsi og þeir gerðu í búðastarfinu þennan stutta tíma.
27 Sköpum okkur tækifæri til að prédika: Jesús takmarkaði ekki boðunarstarf sitt við formlegar kringumstæður. Hann kunngerði fagnaðarerindið við sérhvert viðeigandi tækifæri. (Matt. 9:9; Lúk. 19:1-10; Jóh. 4:6-15) Taktu eftir hvernig sumir boðberar skapa sér tækifæri til að prédika.
28 Sumir gera sér að venju að vitna fyrir foreldrum sem eru að bíða eftir börnum sínum við inngang að skóla. Þar sem margir foreldrar koma allt að 20 mínútum fyrir tímann gefst tími til að draga þá inn í hvetjandi samræður um biblíulegt efni.
29 Margir brautryðjendur eru vakandi fyrir því að ná til fólks sem kann að hafa sérstakan áhuga á einstökum málum sem tekin eru til umfjöllunar í blöðunum okkar. Til dæmis var tekið vel á móti systur þegar hún heimsótti sex skóla á svæði safnaðar síns með greinaröðina „Skólar í kreppu“ sem birtist í 22. desember 1995 tölublaðinu af Vaknið! Hún heimsótti einnig fjölskylduráðgjafarstofnanir með blöð um fjölskyldulíf og misnotkun á börnum og fékk boð um að koma aftur með blöðin í hvert sinn sem þau fjölluðu um svipað efni. Viðbrögðunum, sem hún fékk á atvinnuleysisskrifstofu við Vaknið! frá 8. mars 1996 um atvinnuleysi, var lýst sem „yfirþyrmandi.“
30 Umdæmishirðir segir frá því að hann og konan hans gefi að staðaldri óformlegan vitnisburð þegar þau fari út í matvöruverslun. Þau versla á þeim tíma dags þegar tiltölulega fáir eru í búðinni og viðskiptavinirnir ganga í rólegheitum fram og aftur gangana milli búðarhillanna. Þau segjast ná að eiga mörg góð samtöl.
31 Margir boðberar segjast ná góðum árangri þegar þeir vitna fyrir fólki í almenningsþvottahúsum. Þeir skilja ekki einungis eftir blöð þegar enginn er á staðnum. Markmið þeirra er að ná til fólks með fagnaðarerindið og þar af leiðandi leitast þeir við að tala persónulega við þá sem eru að nota þvottavélarnar.
32 Á sumum stöðum hafa valdir boðberar heimild til að vitna á flugvöllum. Stundum hefur þeim veist sú gleði að að vitna fyrir millilandafarþegum sem búa í löndum þar sem fátt er um votta Jehóva. Þegar þeir hafa orðið varir við áhuga hafa þeir boðið smárit eða blöðin.
33 Ef boðberar fá ekki leyfi til að bera persónulega vitni fyrir íbúum fjölbýlishúsa með strangri öryggisgæslu hafa sumir tamið sér að vitna háttvíslega fyrir öryggisvörðunum á vakt eða framkvæmdastjórunum á skrifstofum fjölbýlishúsanna. Sömu aðferð er beitt í einbýlishúsahverfum þar sem varsla er við hliðin. Farandhirðir og nokkrir boðberar heimsóttu sjö stór fjölbýlishús á þennan hátt. Á hverjum stað sögðu þeir framkvæmdastjóranum að þó að þeir mættu ekki hringja á bjöllu hverrar íbúðar á okkar venjulega hátt vildu þeir ekki að hann færi á mis við upplýsingarnar í nýjustu blöðunum okkar. Framkvæmdastjórarnir á öllum sjö stöðunum þáðu með ánægju blöðin og báðu þar að auki um næstu tölublöð. Haft er síðan samband símleiðis við íbúa slíkra fjölbýlishúsa. Þú finnur hagnýtar upplýsingar um notkun símans í boðunarstarfinu í viðaukanum „Boðunarstarf í síma — leið til að ná til margra“ í Ríkisþjónustu okkar fyrir ágúst 1993.
34 Leggðu þig fram við prédika alls staðar: Til þess að fylgja eftir vígslu okkar til Jehóva þurfum við meðal annars að hafa tilfinningu fyrir því hversu brýnt er að við sinnum sem best því verkefni okkar að prédika boðskapinn um Guðsríki. Ef við eigum að ná til fólks á þeim tíma sem því hentar þurfum við að láta okkar eigin hentugleika mæta afgangi svo að við ‚getum að minnsta kosti frelsað nokkra.‘ Allir vígðir þjónar Jehóva vilja geta sagt eins og Páll postuli: „Ég gjöri allt vegna fagnaðarerindisins, til þess að ég fái hlutdeild með því [„til þess að ég megi deila því með öðrum,“ NW ].“ — 1. Kor. 9:22, 23.
35 Auk þess skrifaði Páll: „Því vil ég helst hrósa mér af veikleika mínum, til þess að kraftur Krists megi taka sér bústað í mér. . . . Þegar ég er veikur, þá er ég máttugur.“ (2. Kor. 12:9, 10) Með öðrum orðum gæti enginn okkar framkvæmt þetta starf í eigin mætti. Við þurfum að biðja Jehóva um hinn öfluga heilaga anda hans. Ef við biðjum Guð um kraft getum við verið viss um að hann svarar bænum okkar. Þá mun kærleikur okkar til manna knýja okkur til að leita tækifæra til að boða þeim fagnaðarerindið hvar sem þá er að finna. Hvernig væri að reyna einhverjar af tillögunum í þessum viðauka á komandi dögum?