Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • nwt Galatabréfið 1:1-6:18
  • Galatabréfið

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Galatabréfið
  • Biblían – Nýheimsþýðingin
Biblían – Nýheimsþýðingin
Galatabréfið

BRÉFIÐ TIL GALATAMANNA

1 Frá Páli – postula sem er hvorki sendur né útnefndur af mönnum heldur af Jesú Kristi+ og af Guði föðurnum+ sem reisti hann upp frá dauðum – 2 og frá öllum bræðrunum sem eru með mér, til safnaðanna í Galatíu.

3 Megi Guð faðir okkar og Drottinn Jesús Kristur sýna ykkur einstaka góðvild og veita ykkur frið. 4 Kristur gaf sjálfan sig fyrir syndir okkar+ til að bjarga okkur frá núverandi illri heimsskipan*+ í samræmi við vilja Guðs okkar og föður.+ 5 Honum sé dýrðin um alla eilífð. Amen.

6 Ég furða mig á að þið skulið snúa ykkur* svona fljótt frá honum sem kallaði ykkur með einstakri góðvild Krists og taka við annars konar fagnaðarboðskap.+ 7 Ekki svo að skilja að til sé annar fagnaðarboðskapur heldur koma vissir menn ykkur úr jafnvægi+ og vilja rangfæra fagnaðarboðskapinn um Krist. 8 Jafnvel þótt við eða engill af himni boðaði ykkur eitthvað frábrugðið fagnaðarboðskapnum sem við boðuðum ykkur, þá sé hann bölvaður. 9 Ég endurtek það sem við höfum þegar sagt: Hver sem boðar ykkur fagnaðarboðskap frábrugðinn þeim sem þið hafið tekið við sé bölvaður.

10 Er ég að reyna að sannfæra menn eða Guð? Eða er ég að reyna að þóknast mönnum? Ef ég væri enn að þóknast mönnum væri ég ekki þjónn Krists. 11 Ég vil að þið vitið, bræður og systur, að fagnaðarboðskapurinn sem ég boðaði ykkur á ekki upptök sín hjá mönnum.+ 12 Ég fékk hann ekki frá manni né kenndi nokkur mér hann heldur var það Jesús Kristur sem opinberaði mér hann.

13 Þið hafið auðvitað heyrt um framferði mitt í gyðingdóminum áður fyrr,+ hvernig ég ofsótti söfnuð Guðs ákaft* og reyndi að útrýma honum.+ 14 Ég var kominn lengra í gyðingdóminum en margir jafnaldrar mínir af þjóð minni þar sem ég var miklu kappsamari en þeir um að halda erfðavenjur feðra minna.+ 15 En Guði, sem lét mig fæðast* og kallaði mig í einstakri góðvild sinni,+ þóknaðist 16 að láta mig opinbera son sinn með því að boða þjóðunum+ fagnaðarboðskapinn um hann. Ég fór þá ekki og ráðfærði mig við nokkurn mann.* 17 Ég fór ekki heldur upp til Jerúsalem til þeirra sem voru postular á undan mér heldur fór ég til Arabíu og sneri síðan aftur til Damaskus.+

18 Þrem árum síðar fór ég upp til Jerúsalem+ til að heimsækja Kefas*+ og var hjá honum í 15 daga. 19 En ég hitti engan af hinum postulunum heldur aðeins Jakob+ bróður Drottins. 20 Ég fullvissa ykkur um, frammi fyrir Guði, að ég lýg ekki því sem ég skrifa ykkur.

21 Eftir þetta fór ég til Sýrlands og Kilikíu.+ 22 En kristnu söfnuðirnir í Júdeu þekktu mig ekki persónulega. 23 Þeir höfðu bara heyrt: „Maðurinn sem ofsótti okkur áður+ boðar nú fagnaðarboðskapinn um trúna sem hann reyndi áður að útrýma.“+ 24 Þeir lofuðu því Guð vegna mín.

2 Að 14 árum liðnum fór ég aftur upp til Jerúsalem ásamt Barnabasi+ og tók líka Títus með mér.+ 2 Ég fór þangað eftir að hafa fengið opinberun og útlistaði einslega fyrir hinum virtu bræðrum fagnaðarboðskapinn sem ég boða meðal þjóðanna. Ég gerði það til að ganga úr skugga um að ég starfaði ekki og hefði ekki starfað* til einskis. 3 Það var ekki einu sinni farið fram á að Títus,+ sem var með mér, léti umskerast+ þó að hann væri Grikki. 4 En það mál kom upp vegna falsbræðranna sem laumuðust inn í söfnuðinn.+ Þeir smeygðu sér inn til að njósna um frelsið+ sem við njótum þar sem við erum lærisveinar Krists Jesú, svo að þeir gætu hneppt okkur í þrældóm.+ 5 Við létum ekki undan þeim,+ nei, ekki eitt augnablik,* til að sannleikur fagnaðarboðskaparins héldist meðal ykkar.

6 En hvað varðar þá sem álitnir voru mikilvægir+ – það breytir engu fyrir mig hvað þeir voru því að Guð lítur ekki á ytra útlit manna – þá miðluðu þessir virtu bræður mér engum nýjum hugmyndum. 7 Þeir skildu öllu heldur að mér hafði verið trúað fyrir að flytja hinum óumskornu fagnaðarboðskapinn,+ rétt eins og Pétri hinum umskornu. 8 Sá sem gaf Pétri mátt til að vera postuli meðal hinna umskornu gaf mér sömuleiðis mátt til að vera postuli meðal fólks af þjóðunum.+ 9 Þegar Jakob,+ Kefas* og Jóhannes, þeir sem voru álitnir máttarstólpar, skildu að mér hafði verið sýnd einstök góðvild+ réttu þeir okkur Barnabasi+ hægri höndina til tákns um bræðralag.* Við skyldum fara til fólks af þjóðunum en þeir til hinna umskornu. 10 Þeir báðu okkur aðeins um að minnast hinna fátæku og það hef ég líka lagt mig einlæglega fram um að gera.+

11 En þegar Kefas*+ kom til Antíokkíu+ ávítaði* ég hann augliti til auglitis því að það sem hann gerði var augljóslega rangt.* 12 Áður en nokkrir menn komu frá Jakobi+ var hann vanur að borða með fólki af þjóðunum+ en þegar þeir komu hætti hann því og dró sig í hlé af ótta við þá sem aðhylltust umskurð.+ 13 Hinir Gyðingarnir fóru líka að hræsna með honum og jafnvel Barnabas lét leiðast út í hræsnina með þeim. 14 Þegar ég sá að þeir hegðuðu sér ekki í samræmi við sannleika fagnaðarboðskaparins+ sagði ég við Kefas* frammi fyrir þeim öllum: „Fyrst þú sem ert Gyðingur lifir eins og þjóðirnar en ekki eins og Gyðingar, hvernig geturðu þá neytt fólk af þjóðunum til að lifa eftir siðum Gyðinga?“+

15 Við sem erum fæddir Gyðingar og erum ekki syndarar af þjóðunum 16 vitum að maður er ekki lýstur réttlátur fyrir að fylgja lögunum heldur aðeins vegna trúar+ á Jesú Krist.+ Við trúum því á Krist Jesú svo að hægt sé að lýsa okkur réttláta vegna trúar á hann en ekki fyrir að fylgja lögunum því að enginn verður lýstur réttlátur fyrir að fylgja þeim.+ 17 Ef við nú reynumst vera syndarar meðan við leitumst við að vera lýstir réttlátir vegna Krists, þjónar Kristur þá málstað syndarinnar? Engan veginn. 18 Ef ég fer að byggja upp aftur það sem ég eitt sinn reif niður geri ég sjálfan mig að lögbrjóti. 19 En með lögunum var ég leystur undan* lögunum+ svo að ég gæti lifað fyrir Guð. 20 Ég er staurfestur með Kristi.+ Það er ekki lengur ég sem lifi+ heldur lifir Kristur og hann er sameinaður mér. Lífinu sem ég lifi nú í þessum líkama* lifi ég í trú á son Guðs+ sem elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig.+ 21 Ég hafna ekki einstakri góðvild Guðs+ því að ef réttlæting fæst með hjálp laganna hefur Kristur dáið til einskis.+

3 Óskynsömu Galatar! Hver hefur haft svona slæm áhrif á ykkur,+ þið sem hafið fengið skýra mynd af því hvernig Jesús Kristur var staurfestur?+ 2 Ég vil spyrja ykkur að einu:* Fenguð þið andann með því að fylgja lögunum eða með því að trúa því sem þið heyrðuð?+ 3 Eruð þið virkilega svona óskynsöm? Í byrjun fylgduð þið leiðsögn andans. Ætlið þið nú að enda á því að lifa á holdlegan hátt?*+ 4 Hafið þið þolað allar þessar þjáningar til einskis – ef það var þá til einskis? 5 Sá sem veitir ykkur andann og vinnur máttarverk+ meðal ykkar – gerir hann það af því að þið fylgið lögunum eða af því að þið trúið því sem þið heyrðuð? 6 Hugsið um Abraham, hann „trúði Jehóva* og þess vegna var hann talinn réttlátur“.*+

7 Þið vitið að þeir sem halda sig við trúna eru börn Abrahams.+ 8 Ritningin sá fyrir að Guð myndi lýsa fólk af þjóðunum réttlátt vegna trúar og boðaði því Abraham fyrir fram þennan fagnaðarboðskap: „Vegna þín munu allar þjóðir hljóta blessun.“+ 9 Þeir sem halda sig við trúna hljóta því blessun ásamt Abraham sem trúði.+

10 Bölvun hvílir á öllum sem reiða sig á verk eins og lögin kveða á um því að skrifað stendur: „Bölvaður er hver sá sem heldur sig ekki við allt sem stendur í lögbókinni og fer ekki eftir því.“+ 11 Það er líka augljóst að enginn er lýstur réttlátur frammi fyrir Guði með því að hlýða lögunum+ því að „hinn réttláti mun lifa vegna trúar“.+ 12 Lögin eru ekki byggð á trú heldur stendur: „Sá sem heldur lögin mun lifa vegna þeirra.“+ 13 Kristur keypti okkur+ og leysti+ undan bölvun laganna með því að taka á sig bölvun í okkar stað en skrifað stendur: „Bölvaður er hver sá sem hangir á staur.“+ 14 Þannig gat blessun Abrahams náð til þjóðanna fyrir milligöngu Krists Jesú+ og við gátum vegna trúar okkar fengið andann sem lofað var.+

15 Bræður og systur, ég tek dæmi úr mannlegu lífi: Enginn ógildir sáttmála eða bætir við hann eftir að hann tekur gildi, jafnvel þótt aðeins maður hafi gert hann. 16 Nú voru loforðin gefin Abraham og afkomanda hans.+ Þar segir ekki „og afkomendum þínum“ eins og margir ættu í hlut heldur segir „og afkomanda þínum“ eins og þegar um einn er að ræða, og það er Kristur.+ 17 Auk þess segi ég: Lögin, sem urðu til 430 árum síðar,+ ógilda ekki sáttmálann sem Guð hafði áður gert, þannig að loforðið falli úr gildi. 18 Ef arfurinn fæst vegna laga er hann ekki lengur byggður á loforði. En Guð hefur í góðvild sinni gefið Abraham arfinn með loforði.+

19 Til hvers voru þá lögin? Þeim var bætt við til að afbrotin kæmu í ljós+ og þau áttu að gilda þar til afkomandinn kæmi+ sem loforðið hafði verið gefið. Englar miðluðu þeim+ fyrir atbeina milligöngumanns.+ 20 En það er enginn milligöngumaður þegar aðeins einn á í hlut, og Guð er aðeins einn. 21 Eru lögin þá í andstöðu við loforð Guðs? Engan veginn. Ef gefin hefðu verið lög sem gætu veitt líf fengist réttlæting vissulega með lögum. 22 En Ritningin hneppti allt undir vald syndarinnar til þess að loforðið um blessun, sem byggist á trú á Jesú Krist, yrði gefið þeim sem trúa.

23 Áður en trúin kom vorum við í gæslu laga. Við vorum í varðhaldi og væntum þess að trúin opinberaðist.+ 24 Þannig urðu lögin gæslumaður* okkar sem leiddi okkur til Krists+ svo að hægt væri að lýsa okkur réttlát vegna trúar.+ 25 En nú þegar trúin er komin+ erum við ekki lengur undir umsjá gæslumanns.*+

26 Þið eruð reyndar öll börn Guðs+ vegna trúar ykkar á Krist Jesú+ 27 því að þið voruð öll skírð til Krists og hafið íklæðst Kristi.+ 28 Nú skiptir engu hvort maður er Gyðingur eða Grikki,+ þræll eða frjáls maður,+ karl eða kona.+ Þið eruð öll eitt, sameinuð Kristi Jesú.+ 29 Ef þið tilheyrið Kristi eruð þið auk þess afkomendur Abrahams,+ erfingjar+ samkvæmt loforði.+

4 Ég segi ykkur að meðan erfinginn er enn á barnsaldri er enginn munur á honum og þræli þó að hann eigi allt. 2 Hann er með gæslumenn og ráðsmenn yfir sér til þess dags sem faðir hans hefur ákveðið. 3 Eins er það með okkur. Meðan við vorum börn vorum við þrælar hugmyndafræði heimsins.+ 4 En á tilsettum tíma sendi Guð son sinn, sem fæddist af konu+ og var undir lögunum,+ 5 til að kaupa þá lausa sem voru undir lögunum+ þannig að hægt væri að ættleiða okkur sem syni.+

6 Og þar sem þið eruð synir hefur Guð sent anda+ sonar síns í hjörtu okkar+ og hann hrópar: „Abba,* faðir!“+ 7 Þú ert því ekki lengur þræll heldur sonur og fyrst þú ert sonur hefur Guð líka gert þig að erfingja.+

8 Meðan þið þekktuð ekki Guð voruð þið þrælar þeirra sem eru alls engir guðir. 9 En núna þekkið þið Guð eða réttara sagt, hann þekkir ykkur. Hvernig stendur þá á því að þið snúið aftur til hinnar veiku+ og fátæklegu hugmyndafræði heimsins og viljið þræla undir henni á nýjan leik?+ 10 Þið haldið samviskusamlega upp á daga og mánuði,+ tíðir og ár. 11 Ég óttast að ég hafi erfiðað til einskis fyrir ykkur.

12 Bræður og systur, ég bið ykkur að verða eins og ég er núna því að áður var ég eins og þið.+ Þið gerðuð mér ekkert illt. 13 Þið vitið að líkamleg veikindi mín urðu til þess að ég fékk tækifæri til að boða ykkur fagnaðarboðskapinn í fyrsta sinn. 14 Og þó að líkamlegt ástand mitt hafi verið þolraun fyrir ykkur fyrirlituð þið mig ekki né höfðuð óbeit á mér* heldur tókuð þið við mér eins og engli Guðs, eins og Kristi Jesú. 15 Hvað varð um gleði ykkar? Ég veit að þið hefðuð slitið úr ykkur augun og gefið mér ef það hefði verið hægt.+ 16 Er ég nú orðinn óvinur ykkar fyrst ég segi ykkur sannleikann? 17 Sumum er mikið í mun að vinna ykkur á sitt band en það er ekki af góðu tilefni. Þeir vilja snúa ykkur frá mér og fá ykkur til að fylgja sér. 18 Það er auðvitað alltaf gott að einhver sýni ykkur áhuga af góðu tilefni, ekki aðeins meðan ég er hjá ykkur. 19 Börnin mín,+ ég kvelst nú aftur vegna ykkar eins og móðir með fæðingarhríðir, allt þar til þið endurspeglið eiginleika Krists.* 20 Ég vildi að ég gæti verið hjá ykkur núna og talað með öðrum hætti því að ég veit ekki hvað ég á að gera við ykkur.

21 Segið mér, þið sem viljið vera undir lögunum, heyrið þið ekki hvað lögin segja? 22 Til dæmis stendur að Abraham átti tvo syni, annan með þjónustustúlkunni+ og hinn með frjálsu konunni.+ 23 Sonur þjónustustúlkunnar varð til með náttúrulegum hætti*+ en sonur frjálsu konunnar samkvæmt loforði.+ 24 Þetta hefur táknræna merkingu. Konurnar tákna tvo sáttmála, annan frá Sínaífjalli+ sem elur börn til þrælkunar og er eins og Hagar. 25 Hagar stendur fyrir Sínaí,+ fjall í Arabíu, og hún samsvarar núverandi Jerúsalem því að hún er hneppt í þrældóm ásamt börnum sínum. 26 En Jerúsalem í hæðum er frjáls og hún er móðir okkar.

27 Skrifað stendur: „Vertu glöð, þú ófrjóa kona sem hefur ekki fætt. Hrópaðu af gleði, þú kona sem hefur ekki haft hríðir, því að börn yfirgefnu konunnar eru fleiri en hinnar sem á eiginmann.“+ 28 Þið, bræður og systur, eruð börn samkvæmt loforðinu eins og Ísak var.+ 29 Á sínum tíma fór sá sem varð til með náttúrulegum hætti að ofsækja þann sem varð til með hjálp andans.+ Eins er það núna.+ 30 En hvað segir ritningarstaðurinn? „Rektu burt þjónustustúlkuna og son hennar því að sonur þjónustustúlkunnar skal alls ekki fá arf með syni frjálsu konunnar.“+ 31 Bræður og systur, við erum ekki börn þjónustustúlku heldur börn frjálsu konunnar.

5 Kristur frelsaði okkur til að við hlytum slíkt frelsi. Verið því staðföst+ og látið ekki leggja þrælkunarok á ykkur aftur.+

2 Takið eftir hvað ég, Páll, segi ykkur: Ef þið látið umskerast kemur Kristur ykkur ekki að neinu gagni.+ 3 Ég segi enn og aftur við hvern þann mann sem lætur umskerast að hann er skuldbundinn til að halda lögin í heild sinni.+ 4 Þið eruð orðin viðskila við Krist, þið sem reynið að hljóta réttlætingu með hjálp laganna.+ Þið hafið sagt skilið við einstaka góðvild hans. 5 En við fyrir okkar leyti bíðum óþreyjufull og vongóð með hjálp andans eftir að réttlætast vegna trúar. 6 Hjá þeim sem eru sameinaðir Kristi Jesú hefur það ekkert gildi að vera umskorinn eða óumskorinn.+ Það sem skiptir máli er trú sem birtist í kærleika.

7 Þið hlupuð vel.+ Hver kom í veg fyrir að þið hélduð áfram að hlýða sannleikanum? 8 Hver taldi ykkur hughvarf? Ekki sá sem kallaði ykkur. 9 Lítið súrdeig gerjar allt deigið.+ 10 Ég treysti að þið sem eruð sameinuð Drottni+ hugsið áfram eins og ég, en sá sem kemur ykkur úr jafnvægi,+ hver sem hann er, fær verðskuldaðan dóm. 11 Hvað mig snertir, bræður og systur, ef ég væri enn að boða umskurð hvers vegna er ég þá ofsóttur? Boðunin um kvalastaurinn* væri þá engin hneykslunarhella.+ 12 Ég vildi óska að þeir sem reyna að koma ykkur í uppnám myndu vana sjálfa sig.*

13 Þið voruð kölluð til frelsis, bræður og systur, en notið ekki þetta frelsi sem tilefni til að svala girndum holdsins+ heldur þjónið hvert öðru í kærleika.+ 14 Lögin í heild sinni uppfyllast í* þessu eina boðorði: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“+ 15 En ef þið bítist og ráðist hvert á annað+ gætið þá að ykkur, þið gætuð tortímt hvert öðru.+

16 Ég segi ykkur: Lifið í andanum,+ þá látið þið ekki undan neinum girndum holdsins.+ 17 Holdið með girndum sínum stendur gegn andanum og andinn gegn holdinu. Þetta tvennt stendur hvort gegn öðru þannig að þið gerið ekki það sem þið viljið gera.+ 18 Auk þess eruð þið ekki undir lögum ef þið látið andann leiða ykkur.

19 Verk holdsins eru augljós. Þau eru kynferðislegt siðleysi,*+ óhreinleiki, blygðunarlaus hegðun,*+ 20 skurðgoðadýrkun, dulspeki,*+ fjandskapur, deilur, afbrýði, reiðiköst, ágreiningur, sundrung, sértrúarklofningur, 21 öfund, ofdrykkja,+ svallveislur og annað þessu líkt.+ Ég vara ykkur við, eins og ég hef áður gert, að þeir sem stunda slíkt erfa ekki ríki Guðs.+

22 Ávöxtur andans er hins vegar kærleikur, gleði, friður, þolinmæði,* góðvild, gæska,+ trú, 23 mildi og sjálfstjórn.+ Gegn slíku eru engin lög. 24 Og þeir sem tilheyra Kristi Jesú hafa staurfest holdið með ástríðum þess og girndum.+

25 Ef við lifum í andanum skulum við líka hegða okkur í samræmi við leiðsögn andans.+ 26 Lítum ekki of stórt á sjálf okkur+ þannig að við förum að keppa hvert við annað+ og öfunda hvert annað.

6 Bræður, ef einhver fer út af sporinu án þess að átta sig á því skuluð þið sem eruð þroskaðir í trúnni* reyna að leiðrétta hann mildilega.+ En hafðu gát á sjálfum þér+ svo að þú freistist ekki líka.+ 2 Berið hvert annars byrðar+ og uppfyllið þannig lög Krists.+ 3 Sá sem heldur sig vera eitthvað en er þó ekkert+ blekkir sjálfan sig. 4 En hver og einn ætti að rannsaka eigin verk+ án þess að bera sig saman við aðra. Þá hefur hann ástæðu til að gleðjast yfir því sem hann gerir sjálfur.+ 5 Hver og einn þarf að bera sína byrði.*+

6 Allir sem fá fræðslu* um orðið skulu gefa kennaranum af öllum gæðum sínum.+

7 Látið ekki blekkjast: Menn villa ekki um fyrir Guði því að það sem maður sáir, það uppsker hann.+ 8 Sá sem sáir eins og holdið vill uppsker glötun af holdinu en sá sem sáir eins og andinn vill uppsker eilíft líf af andanum.+ 9 Gefumst ekki upp á að gera það sem er gott því að á sínum tíma munum við uppskera ef við missum ekki móðinn.*+ 10 Við skulum því gera öllum gott meðan við höfum tækifæri* til en þó sérstaklega trúsystkinum okkar.

11 Þið takið eftir með hve stórum stöfum ég skrifa ykkur með eigin hendi.

12 Þeir sem vilja líta vel út í augum annarra* reyna að þröngva ykkur til að láta umskerast. Þeir gera það aðeins til að þurfa ekki að þola ofsóknir fyrir kvalastaur* Krists. 13 Þeir sem láta umskerast halda ekki einu sinni sjálfir lögin+ en þeir vilja að þið látið umskerast til að geta stært sig af ykkur.* 14 En aldrei vil ég stæra mig af öðru en kvalastaur* Drottins okkar Jesú Krists.+ Vegna Krists er heimurinn dáinn* gagnvart mér og ég gagnvart heiminum. 15 Það skiptir engu hvort maður er umskorinn eða óumskorinn.+ Það sem máli skiptir er að vera ný sköpun.+ 16 Megi friður og miskunn vera með öllum sem lifa eftir þessari meginreglu, já, með Ísrael Guðs.+

17 Ég bið ykkur að valda mér ekki erfiðleikum framar því að ég ber á líkama mínum brennimerki sem þræll Jesú.+

18 Bræður og systur, megi Drottinn okkar Jesús Kristur í einstakri góðvild sinni blessa það hugarfar sem þið sýnið. Amen.

Eða „öld“. Sjá orðaskýringar.

Eða „láta leiða ykkur burt“.

Orðrétt „gegndarlaust“.

Orðrétt „sem aðskildi mig frá kviði móður minnar“.

Orðrétt „við hold og blóð“.

Einnig nefndur Pétur.

Orðrétt „að ég hlypi ekki eða hefði ekki hlaupið“.

Orðrétt „eina stund“.

Einnig nefndur Pétur.

Eða „samstarf“.

Einnig nefndur Pétur.

Eða „andmælti“.

Eða „því að hann var greinilega sekur“.

Einnig nefndur Pétur.

Orðrétt „dó ég gagnvart“.

Orðrétt „í holdinu“.

Orðrétt „Um þetta eitt vil ég fræðast af ykkur“.

Orðrétt „Eftir að hafa byrjað í andanum, ætlið þið að enda í holdinu?“

Sjá viðauka A5.

Eða „og það var reiknað honum til réttlætis“.

Eða „uppalandi“.

Eða „uppalanda“.

Hebreskt eða arameískt ávarpsorð sem merkir ‚faðir‘ og felur í sér hlýju og innileik orðsins „pabbi“.

Eða „hræktuð á mig“.

Eða „Kristur er myndaður í ykkur“.

Orðrétt „á holdlegan hátt“.

Sjá orðaskýringar.

Eða „gelda sjálfa sig; verða geldingar“, og verða þar með óhæfir til að fara eftir lögunum sem þeir aðhylltust.

Eða hugsanl. „má draga saman með“.

Á grísku pornei′a. Sjá orðaskýringar.

Eða „ósvífin hegðun“. Á grísku asel′geia. Sjá orðaskýringar.

Eða „spíritismi; galdrar“. Á grísku farmakí′a sem vísar til notkunar lyfja eða fíkniefna.

Eða „langlyndi“.

Eða „fylgið leiðsögn heilags anda“.

Eða „ábyrgð“.

Eða „munnlega kennslu“.

Eða „gefumst ekki upp“.

Orðrétt „tíma“.

Eða „í holdinu“.

Sjá orðaskýringar.

Orðrétt „holdi ykkar“.

Sjá orðaskýringar.

Eða „staurfestur“.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila