Njóttu þess að bera rækilega vitni
1 Við njótum þess öll að gera það sem við gerum vel. Markús 7:37 segir að mannfjöldinn hafi fullyrt um Jesú: „Allt gjörir hann vel.“ Það er engin furða að Jesús skuli hafa haft yndi af því að gera vilja Jehóva! (Samanber Sálm 40:9.) Með því að hugleiða eftirfarandi tillögur njótum við þess einnig að hlýða boði Jesú „að prédika fyrir lýðnum og vitna.“ (Postulasagan 10:42) Í janúar bjóðum við Lifað að eilífu bókina. Hvernig getum við notað hana til að bera rækilega vitni?
2 Þar sem fólk hugsar oft um heilsufarsmál gætirðu sagt þetta:
◼ „Þrátt fyrir mikil afrek á sviði læknisfræðinnar þjást margir vegna sjúkdóma. Hver heldurðu að ástæðan sé? [Gefðu kost á svari.] Jesús Kristur sagði að drepsóttir yrðu einkenni hinna síðustu daga. (Lúkas 21:11) En Biblían lýsir einnig þeim tíma þegar sjúkdómar heyra sögunni til. [Lestu Jesaja 33:24.] Sjáðu hvernig þessi bók hvetur til vonar á þessa grundvallarkenningu Biblíunnar.“ Bentu á viðeigandi athugasemd í Lifað að eilífu bókinni og bjóddu hana. Útskýrðu að við þiggjum lítilsháttar framlag til alþjóðlegs boðunarstarfs okkar.
3 Þegar þú berð óformlega vitni nálægt verslunum gætirðu heilsað og síðan spurt:
◼ „Finnst þér ekki að verðlag hafi hækkað það mikið þessa dagana að það sé orðið erfitt að láta enda ná saman? [Gefðu kost á svari.] Heldurðu að við fáum einhvern tíma að búa við raunverulegt öryggi í efnahagsmálum?“ Gefðu kost á svari. Notaðu síðan viðeigandi ritningarstað úr bókinni. Haltu áfram með því að segja: „Þessi bók sýnir fram á hvernig Guð, fyrir milligöngu ríkis síns, ætlar að leysa öll þau vandamál sem gera lífið svona erfitt nú á dögum.“ Bjóddu bókina og gefðu viðmælanda þínum þá tækifæri til að styðja alþjóðastarfið með lítilsháttar framlagi ef hann þiggur hana. Þú gætir síðan sagt hversu ánægjulegt þér fannst samtalið hafa verið og spurt: „Er einhver leið að við getum haldið þessum samræðum áfram seinna?“ Þannig geturðu kannski fengið símanúmer eða heimilisfang viðmælanda þíns.
4 Kannski færðu tækifæri til að reyna þessa kynningu um heimsfrið þegar þú býður „Lifað að eilífu“ bókina:
◼ „Hvers vegna heldurðu að það sé svona erfitt að koma á heimsfriði? [Gefðu kost á svari, sýndu síðan myndina á bls. 20-21.] Þessi mynd er af atburði sem Biblían segir frá í Opinberunarbókinni. [Lestu Opinberunarbókina 12:7-9, 12 beint upp úr grein 17. Lestu síðan myndatextann.] Friðarskorturinn í heiminum er ein afleiðing þess að djöflinum var kastað niður á jörðina. Þessi bók svarar mörgum mikilvægum spurningum og það er mér ánægja að bjóða þér hana ef þú vilt lesa hana.“ — Aðrar árangursríkar aðferðir til að kynna Lifað að eilífu bókina er að finna á baksíðu Ríkisþjónustu okkar í september 1995, febrúar 1995, september 1994, september 1993 og ágúst 1992.
5 Þegar þú hittir aftur þá sem sýndu áhuga gætirðu reynt að hefja biblíunámskeið með því að aðlaga þessa kynningu aðstæðum:
◼ „Seinast þegar við töluðum saman komstu með athyglisverða ábendingu. [Nefndu það sem viðkomandi sagði.] Ég hef verið að hugsa um það og vildi gjarnan segja þér frá því sem ég komst að um málið. [Lestu viðeigandi ritningarstað.] Við bjóðum ókeypis biblíunámskeið og þau hafa gert milljónum manna kleift að rannsaka grundvallarkenningar Biblíunnar á skömmum tíma. Slík rannsókn getur byggt upp traust þitt á örugga uppfyllingu loforða Guðs.“ Bentu á nokkrar þeirra spurninga sem svarað verður. Ef viðkomandi afþakkar boðið um biblíunám skaltu útskýra að við höfum einnig sérstakt hraðferðarnámskeið sem tekur aðeins 15 mínútur á viku í 16 vikur. Sýndu Kröfubæklinginn, flettu upp á 1. kafla og spurðu hvort þú megir sýna hvernig fyrsta kennslustundin fari fram.
6 Mundu eftir að nota boðsmiða: Hægt er að nota þá með góðum árangri í kynningarorðunum til að örva áhugann á andlegum málum eða bjóða þá ef ritin eru afþökkuð.
7 Vertu leikinn í starfi þínu og þá muntu njóta þess. Leggðu þig stöðugt fram um að bera rækilega vitni og hafðu yndi af því að vinna vel í öllum greinum starfsins. — 1. Tím. 4:16.